Menning

Mikilvæga augnablikið

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Laugardaginn 27. maí 2017 11:00

Stöð 2 sýnir Britain’s Got Talent, þátt sem hlýtur að laða áhorfendur að skjánum. Í þessum þáttum bregst ekki að það fréttnæmasta er sýnt síðast, yfirleitt er það atriði sem vekur sterkar tilfinningar í brjóstum þeirra sem á horfa. Ég sá nýjasta þáttinn um daginn á breskri sjónvarpsstöð, en held að það sé ekki enn búið að sýna hann á Stöð 2. Áhorfendur þeirrar stöðvar eiga gott í vændum.

Þarna var einkar yndisleg fjórtán ára stúlka sem söng eins og engill. Hún bræddi hjarta manns. Þarna voru líka tveir ellilífeyrisþegar, 84 og 75 ára, sem sungu slagarann sem Frank Sinatra söng svo vel í gamla daga, You Make Me Feel So Young. Þetta var einstaklega upplífgandi atriði og svo sjarmerandi að maður brosti út að eyrum.

Svo kom að lokaatriðinu og maður vissi að eitthvað sérstakt væri í vændum. Á sviðið kom fimmtán ára drengur, svo taugaóstyrkur að hann skalf. Maður bjóst alls ekki við ýkja miklu. Í ljós kom að einn dómara, David Walliams, hafði talað nokkuð harkalega til drengsins þegar hann kom í þáttinn þremur árum fyrr og sagt honum að fara til söngkennara. Drengurinn tók hann á orðinu og var nú kominn aftur. Svo hóf þessi taugaóstyrki drengur að syngja lag Leonards Cohen, Hallelujah, af slíkri innlifun að maður komst við. Salurinn trylltist af hrifningu og dómararnir risu úr sætum. Það sem gerðist síðan er nokkuð sem fólk verður að horfa á. Kyle grét og maður grét með honum.

Kyle Tomlinson var skyndilega orðinn stjarna. Hugsanlega var þetta mikilvægasta augnablik lífs hans. Auðvitað kom svo í ljós að Kyle sem er feitlaginn hafði orðið fyrir einelti í skóla vegna holdafars síns og söngáhuga. Alls staðar má finna einstaklinga sem geta ekki látið aðra í friði. Það leiða lið hefur vonandi horft á stjörnuframmistöðu hans og skammast sín.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af