Menning

Ástmegir og Skáldaspeglar

Þér að segja – Einar Kárason skrifar

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 26. mars 2017 13:00

Á tímanum upp úr 1970 mátti greina bæði nýjungar og gerjun í íslenskum skáldskap, þá rann upp gullöld sjálfsútgáfunnar, ekki síst á ljóðabókum, með nýrri prent- og fjölritunartækni, menntaskólablöð voru full af ljóðum og styttri prósum, og það var einhver gleði sem sveif yfir vötnum í þessu öllu, svo að kannski er ekki að undra að seinna var fundið upp samheitið „fyndna kynslóðin“ á suma af þekktustu höfundunum sem urðu til í þessari deiglu. Þetta hefur talsvert verið rifjað upp í síðustu misserum, meðal annars þegar hálf öld var liðin frá þekktasta viðburði þessara hræringa, upplestrardagskránni „Listaskáldin vondu“ sem sprengdi af sér stærstu sali, og svo vegna nýlegra afbragðsgóðra minningabóka bæði Sigurðar Pálssonar og Péturs Gunnarssonar.

Skáld spruttu þá upp úr öllum lögum samfélagsins, jafnt úr skólum á ýmsum stigum og ólíkum stöðum og sömuleiðis beint af götunni eða óljóðrænum vinnustöðum, til dæmis þar sem fiskur var veiddur eða verkaður. Einn sterkur þráður tengdist gamla menntaskólanum MR – kynslóð sem þar var við nám í kringum 1970 lét mikið til sín taka með öflugri blaða- og bókaútgáfu og öðru þannig menningarstarfi sem vert er að minnast. En því kemur mér þetta í hug nú að það datt í hendur mínar á dögunum bók eftir mann sem lifði í þessum skáldskaparhræringum, en kom úr annarri átt og hefur ekki alveg náð sömu skáldfrægð og sumir hinna, þrátt fyrir að eiga langan lista ýmiss konar útgáfurita: Hér er ég að tala um minningabók Ólafs Ormssonar, Skáldaspegill.

Einn af mílusteinunum á vegferð ungra skálda á umræddum tíma var tímaritið Lystræninginn, en í baksíðutexta bókarinnar Skáldaspegill segir meðal annars: „Hér er viðfangsefnið einkum tími Lystræningjans á árunum 1974–83 þótt ýmsir þræðir séu teygðir framundir okkar tíma. Rakin er ævintýraleg saga þessa merka menningartímarits og fjallað um fjölda íslenskra skálda og rithöfunda sem tengdust útgáfunni.“

Það er alveg þess virði að skoða þessa bók Ólafs, sem reyndar er þriðja bindi endurminninga hans; hinar tvær hétu Ævintýraþorpið, og segir frá æskuárum í Keflavík, og Byltingamenn og bóhemar, sem vísar til áranna í Æskulýðsfylkingunni.

Lystræningi og vond listaskáld

Ef við segjum að Lystræninginn og fólkið í kringum hann sé svona annar armur þeirrar óformlegu ungskáldahreyfingar sem var í gangi á þessum tíma, þá mætti kannski segja að Listaskáldin vondu væri hinn. Jafnvel myndu sumir tala um efra og neðra lagið, og þá lítill vafi um hvort er hvað. Á þessum árum var ég ungur og feiminn aðdáandi umræddra skálda, fylgdist með listgjörningum þeirra eldri úr lotningarfullri fjarlægð og setti mig ekki úr færi um að verða áheyrsla þegar þau lásu upp. Einn slíkur upplestur var í Norræna húsinu svona hálfu ári áður en Listaskáldin fóru í Háskólabíó, en dagskráin í Norræna húsinu var undir hinu frægasta viðurnefninu sem seinni tíma menn höfðu um Jónas Hallgrímsson, í fleirtölu reyndar: Ástmegir þjóðarinnar. Það var heill eftirmiðdagur í sal Norræna hússins, og ég held að stefnan þá hafi verið að leyfa öllum að vera með; bara smala inn sem flestum þeirra ungskálda sem voru að byrja að birta verk sín eða gefa út ritlinga. Allt varð þetta fyrir vikið miklu umfangsmeira en nokkur hefur eflaust reiknað með: áheyrendur tróðu sér inn í húsið meðan þess var nokkur kostur og fylltu alla kima, fjöldi upplesara var slíkur að dagskráin gekk þindarlaust klukkutímum saman, og kannski var skipulagið ekki niður njörvað, í það minnsta voru sumir, kannski að vonum, svo ánægðir með textann sinn að þeir gátu ekkert hætt að lesa: sumir byrjuðu bara fremst í sinni ljóðabók og hættu ekkert fyrr en hún var öll upplesin, og það þótt langt væri liðið á dag og margir enn á mælendaskrá.

Stúdentspróflausir menn

Svona feiknaleg velgengni og allur þessi áhugi sem Ástmögunum var sýndur kveikti trúlega þá hugmynd að þetta mætti endurtaka, og þá með sal sem rúmaði fleiri, betra skipulagi og færri upplesurum. Ég held að frumkvæðið hafi komið frá MR-ingunum, sem höfðu langa reynslu af samstarfi og voru sumir hverkir komnir á samning hjá stóru forlögunum: áðurnefndir Pétur Gunn og Siggi Páls og svo Steinunn Sig, Hrafn Gunnlaugs og Þórarinn Eldjárn. Þau fengu svo til liðs við sig eldri skáld sem þegar höfðu skapað sér nafn eins og þá Guðberg Bergsson og Megas. Þetta munu einhverjir hafa upplifað svo að það væri verið að velja úrvalsdeild, svona eins og þegar kapplið er valið í landsleik úr mun stærri æfingahóp. Ein af fjölmörgum frábærum sögum frá þessum tíma sem ég hef heyrt stórvin minn Ólaf Gunnarsson segja var einhvern veginn eins og hér fer á eftir, en Óli var einn af Ástmögunum. Hann og annað ungskáld, gott ef ekki Bjarni Bernharður sem oft var kallaður Beddi, hafi verið í heimsókn hjá Degi Sigurðarsyni; skáldið Dagur sat við skrifborð en gestirnir á dívan þar í herberginu. Þá hafi komið inn tveir af MR-ingunum og væntanlegum Listaskáldum, þeirra erinda að biðja Dag um að vera með í því tiltæki. Óli sagði að Degi hefði greinilega sárlangað að slá til, en ekki kunnað við það af tillitssemi við Ástmegina á dívaninum, sem hann gjóaði augunum ótt og títt á meðan hann hugsaði sig um, en fengu semsé ekki sams konar boð. Dagur hafi á endanum sagt við MR-ingana, sinni hrjúfu röddu: „Nei, ætli ég verði ekki bara áfram í Lystræningjanum, með hinum tossunum.“ Seinna, sagði Óli mér einnig, hafi Dagur svo verið pínulítið spældur yfir því að svona fór, og sagt við marga: „Það var auðvitað ekki hægt að hafa Óla og Bedda með, því þeir eru ekki með stúdentspróf!“

Þorlákshafnarrenesans

En þótt Dagur hafi að sögn tekið svona til orða um tímaritið Lystræningjann, þá fer því fjarri að hann hafi verið eitthvert tossablað. Öðru nær; hann var fullur af alls kyns merkilegum skáldskap og myndlist og greinum um alls konar kúnst, auk þess sem uppsetning blaðsins var oft frumleg og skemmtileg. Hann var fyrst um sinn gefinn út af skáldahópi úr röðum Ástmaganna, en þegar þurfti meira og betra skipulag og skýrari forystu tók útgáfuna að sér lítill vinahópur, þar á meðal áðurnefndur Ólafur Ormsson, Þorsteinn Marelsson og svo Vernharður Linnet, sem þá var búsettur í Þorlákshöfn og varð held ég prímusmótor svona í því praktíska. Þorlákshöfn varð þannig nokkurs konar heimahöfn og varnarþing Lystræningjans, og þar á milli varð skýr tenging í hugum fólks; gott ef það var ekki Ólafur heitinn Jónsson sem í blaðagrein talaði um „Þorlákshafnarrenesansinn.“ Ég hef heyrt þá sögu frá fólki nákomnu sjálfu nóbelsskáldinu á Gljúfrasteini að glanstímarit eitt afar smart hafi beðið hann um viðtal, gott ef það var ekki Nýtt líf. Halldór var þá farinn að verða spar á slíkt, en var samt spenntur fyrir að fara í spjall við umrætt blað, sem kom einhverjum á óvart því að áherslan þar á bæ var meira á ungt og frægt fólk og tísku og hönnun og þess háttar. En Halldór á að hafa svarað: „Jú, ég hef heyrt vel af þessu blaði látið; mér skilst það sé gefið út í Þorlákshöfn.“

„Boðið upp í dans“

Svo við snúum okkur aftur að bókinni Skáldaspegill eftir Ólaf Ormsson þá er sjálfsagt að mæla með henni við alla sem hafa áhuga á menningarsögu okkar tíma. Þar er margt áhugavert; stundum minnir hún aðeins á hrakfallasögur af því tagi sem við þekkjum frá til dæmis höfundum á borð við Jóhannes Birkiland, og á það ekki síst við um eilíf íbúðakaup Ólafs; mig minnir að fyrstu 100 síðurnar gerist á ekki löngum tíma, en þó nær hann að flytja að minnsta kosti þrjátíu sinnum, eflaust í von um að kaupa jafnan og selja svo aftur með hagnaði, án þess að maður fái á tilfinninguna að það hafi lánast til fulls. Þarna eru tragískar senur, eins og um kvennamál höfundarins, annað er drepfyndið eins og frásögn af ferð og dvöl þeirra nokkurra listamanna í íbúðarhús Guðmundar heitins Böðvarssonar að Kirkjubóli á Hvítársíðu, sem Rithöfundasambandið hafði um árabil til umráða fyrir sína félagsmenn. Í þeirri ferð var gripið til þess þegar menn sakir ölvunar voru ekki lengur ökuhæfir að láta þann minnst fyllsta, Ólaf sjálfan, aka bílnum, og hafði hann þó ekki bílpróf og aldrei fyrr sest undir stýri. Og urðu ferðir þeirra eftir því. Gallalaus er bókin ekki, hún hefði þolað betri yfirlestur og ritstjórn, hún verður sums staðar sundurlaus og langdregin. Og svo gerir höfundurinn fullmikið af því að segja heldur frá með lýsingarorðum en frásögn; mönnum er oft lýst mjög hlýlega án þess að maður fái nokkra hugmynd um karakterinn. Má þar nefna að sameiginlegur vinur okkar Ólafs Ormssonar, nafni hans Gunnarsson sem áður er hér getið um, fær að vonum loflega einkunn, sagt eitthvað á þá leið að það væri „dauður maður“ sem ekki hefði hrifist af hans sagnalist, en hvergi er til hennar vitnað eða dregið upp hvers kyns hún var.

En margt er semsé stórmerkilegt. Má þar nefna frásagnir af tilraun höfundarins til að græða með því að vingast við hægri vænginn; lengst af var hann mjög róttækur og vinstrisinnaður og vitnar í ljóð eftir sig þar sem er lína eitthvað á þessa leið: „Það vaxa hvergi rósir, nema í sporum Rauða hersins.“ En hann semsé gerir útgáfusamning við AB um skáldsögu þar sem flett yrði ofan af skuggalegum áformum byltingarsinnanna í Fylkingunni, og gengur þá svo langt að skrá sig einnig í Sjálfstæðisflokkinn og fara að sækja fundi í Valhöll með hinum broddborgurunum. Bókin kom svo út undir titlinum Boðið upp í dans; þar eru sögupersónur undir dulnefni, sem þó má stundum grilla í gegnum; mig minnir að þar heiti Þorsteinn frá Hamri „skáldið Sigurður Óli frá Hóli“. En höfundurinn sem ætlaði að gleðja hægri vænginn hefur lítið upp úr krafsinu annað en heldur úrillan dóm um bókina í Morgunblaðinu.

Semsé: Ein af þessum bókum sem er með öllu óþarft að gleymist og týnist.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Menning
Fyrir 5 dögum

Maroon 5 flytur vinsælt lag Bob Marley fyrir Hyundai

Maroon 5 flytur vinsælt lag Bob Marley fyrir Hyundai
Menning
Fyrir 5 dögum

Viðhafnartónleikar í október: Sálin kveður

Viðhafnartónleikar í október: Sálin kveður
Menning
Fyrir 9 dögum

Bókin á náttborði Steingerðar

Bókin á náttborði Steingerðar
Menning
Fyrir 10 dögum

Skjárýnirinn: „Geggjaðir þættir um nörda sem eru alltaf alveg að meika það“

Skjárýnirinn: „Geggjaðir þættir um nörda sem eru alltaf alveg að meika það“
Menning
Fyrir 11 dögum

Frægur leikstjóri mælir með Björk: „Besta plata í heiminum til þess að ríða við“

Frægur leikstjóri mælir með Björk: „Besta plata í heiminum til þess að ríða við“
Menning
Fyrir 11 dögum

Tónleikar Jessie J: Hver er Sebastian á bílaleigunni?

Tónleikar Jessie J: Hver er Sebastian á bílaleigunni?
Menning
Fyrir 13 dögum

Orange is the New Black: Fangarnir í Litchfield snúa aftur í júlí

Orange is the New Black: Fangarnir í Litchfield snúa aftur í júlí
Menning
Fyrir 13 dögum

Vinnuslys Jeremy Renner breytti öllu: Með tölvuteiknaða handleggi í nýrri kvikmynd

Vinnuslys Jeremy Renner breytti öllu: Með tölvuteiknaða handleggi í nýrri kvikmynd