Menning

Ólgandi unglingshjarta

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Sunday, December 10, 2017 19:00

Skáldsagan Smartís, eftir Gerði Kristnýju, er uppvaxtarsaga sem gerist í Reykjavík um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Sögusviðið er ekki víðfeðmt, Hlíðahverfið og Hvassaleitið eru veröld aðalpersónunnar, þótt hún skreppi líka aðeins niður í miðbæ og út í sveit. Helstu sögupersónur, fyrir utan aðalpersónuna, eru vinkonurnar Steina og Olga og sveitastelpan Hildur. Merkilegur afi, afskiptalausir foreldrar, skrollandi amma og typpakarl koma einnig við sögu ásamt fleiri forvitnilegum karakterum.

Sagan er vel skrifuð eins og við er að búast enda Gerður meðal okkar bestu rithöfunda. Hún fer létt með að endurskapa heiminn eins og við þekktum hann fyrir rúmum þrjátíu árum þótt margt komi líka á óvart. Ég veit ekki hvort það var blokkahverfið, afskiptaleysi foreldranna eða einmanaleiki aðalpersónunnar, eitthvað við þessa sögu fékk mig til að hugsa til Austur-Evrópu, eða Sovétríkjanna. Ætli fábreytta samfélagið okkar hafi ekki bara verið álíka bælt á þessum tíma?

Þrátt fyrir agað yfirbragð ólgar unglingshjarta aðalpersónunnar, sérstaklega þegar kemur að vinkonumálum. Hún leggur mikið upp úr því að halda sambandi við Olgu og Steinu en á sama tíma finnst henni hún ekki tilheyra þeim eða þykja þær sérlega skemmtilegar. Hún virðist líta á þessar vinkonur sem félagslega fylgihluti, eitthvað sem maður verður að eiga til að vera „alvöru“ unglingur. Að sumu leyti minnti karakterinn mig á persónuna Sögu Norén úr dansk/sænsku glæpaþáttunum Broen. Á einhverfurófinu, með snert af asperger. Í tilfinningalegu leikriti, stöðugt upptekin við að gera úttekt á umhverfi sínu. Eins og unglingur að leika ungling. Kannski fylgir þessi tilvistarkreppa bara því að vera unglingur?

Í einum kafla heimsækir hún skólasystur sína Maju, annan kláran bókaorm sem hefði kannski getað orðið sálufélagi hennar. Sú þótti ekki nógu töff til að láta sjá sig með í skólanum. Því miður. Svona er félagslíf unglinga harðneskjulegt.
Um leið og sagan hefur bæði kaldan og alvörugefinn undirtón er hún líka mjög fyndin. Ég hló að minnsta kosti upphátt í nokkur skipti. Til dæmis yfir þessum bút í sjöunda kafla þar sem sögupersónan er komin í sumarvinnu í eldhúsi Landspítalans. Þar er skemmtilegt persónugallerí eldri kvenna og unglingsstúlkna. Meðal annars Sinatra-aðdáandinn Þóra, sem bar nafn söngvarans fram með áherslu á fyrsta atkvæðið, eins og hún væri að tala um Sinalco, og kynbomban Unnur Karls, fyrrverandi fegurðardís sem hafði kynnst öllu fræga fólkinu í Ameríku, eða svo gott sem.

„Hitti þennan einu sinni í partíi,“ sagði hún (Unnur) yfir öxlina á mér í einni kaffipásunni þar sem ég sat yfir gömlum Tíma og las grein um David Bowie. Greinin fjallaði aðallega um bróður hans sem Framsóknarmenn sögðu þjást af geðsýki. Hann hafði því löngum dvalið á sjúkrahúsi „að undanteknum fáeinum tímabilum þegar hann var göngudeildarsjúklingur. Uggur Bowies um blundandi geðveiki í honum sjálfum magnaðist við þróun þessara mála,“ fullyrti Tíminn.

„Hvernig var hann?“ spurði ég spennt.

„Æi, hann virtist eitthvað slæmur á tauginni,“ sagði Unnur.

„Kannski var það bara eitthvað tilfallandi. Menn geta ekki alltaf verið tipptopp.“

„Sinatra er allaf tipptopp,“ sagði Þóra sem hafði verið að hlusta á okkur og sló með bláum Bic penna í plakatið (af Sinatra) fyrir ofan sig. Glaðbeitt augnaráð Franks hvikaði ekki af okkur. Hatturinn haggaðist ekki. Tennurnar alltaf jafnhvítar. Engin geðsýki í hans ætt.

  1. kafli bls. 86

Smartís ætti að höfða bæði til unglinga og fullorðinna. Þetta er að minnsta kosti engin sérstök unglingabók þótt hún fjalli um ungling á níunda áratug síðustu aldar.

Persónulega þóttu mér lýsingar á hlutum frá eitístímabilinu svolítið fyrirferðarmiklar. Svipað og í Netflix-þáttunum Stranger Things þar sem allir leikmunir, flíkur og annað sem sést í þáttunum, virðist hafa verið keypt akkúrat árið 1983. Þetta var það eina sem truflaði mig við annars afbragðs góða sögu sem endar einmitt, líkt og góður lokaþáttur, á hápunkti sem gefur von um gott framhald. Hvað gerist næst? Trúlofast hún? Fær hún arf?

Ég bíð spennt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

FréttirMenning
í gær
Ólgandi unglingshjarta

Partý í Hörpu: Sextugir undirheimastrákar á Sónar Reykjavík

Menning
í gær
Partý í Hörpu: Sextugir undirheimastrákar á Sónar Reykjavík

Hljóðrænn hernaður Kode9

Menning
Fyrir 3 dögum síðan
Hljóðrænn hernaður Kode9

Daníel og Nýdönsk hlutu flest tónlistarverðlaun

Menning
Fyrir 3 dögum síðan
Daníel og Nýdönsk hlutu flest tónlistarverðlaun

Á vígvelli hljóðanna

Menning
Fyrir 6 dögum síðan
Á vígvelli hljóðanna

Fólkið í blokkinni

Menning
Fyrir 8 dögum síðan
Fólkið í blokkinni

Orðrómur í Víetnam ógnar nashyrningum: „Oft lifandi þegar hornið er hoggið af“

Menning
Fyrir 10 dögum síðan
Orðrómur í Víetnam ógnar nashyrningum: „Oft lifandi þegar hornið er hoggið af“

Myndband: Flóttamaður Stebba Jak

Menning
Fyrir 11 dögum síðan
Myndband: Flóttamaður Stebba Jak

Myndband: Önnur tilfinning Rari Boys

Mest lesið

Ekki missa af