fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024

Leynilistasafnið

Umhverfislist og útilistaverk í íslenskri náttúru

Kristján Guðjónsson
Fimmtudaginn 18. ágúst 2016 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

eftir Kristján Guðjónsson


Listaverk leynast víðar en á söfnum og í stofnunum. Útilistaverk hafa orðið æ algengari á Íslandi á undanförnum árum og áratugum, ekki aðeins styttur af fyrirmennum eða minnismerki á torgum bæja heldur ýmiss konar umhverfisverk sem smíðuð eru inn í og leika sér með náttúruna og umhverfið í kringum sig. DV svipaðist um eftir leyndum listaverkum víðs vegar um land og komst að því að nokkrir af þekktustu myndlistarmönnum heims eiga verk, misvel falin í íslenskri náttúru. Meðfylgjandi er kort sem listelskir ferðalangar geta notað til að finna nokkrar af þessum földu perlum á ferð sinni um landið. Listinn er alls ekki tæmandi og eru lesendur hvattir til að senda blaðamanni ábendingar um fleiri slík verk, eða benda á þau í athugasemdakerfi dv.is.


1. Hreinn Friðfinnsson – Third House (Hafnarfjörður)

Málmgrind lítils kofa hefur verið komið fyrir á óþekktum stað í hrauninu fyrir utan Hafnarfjörð. Verkið er frá 2011 en á rætur sínar að rekja til ársins 1974 þegar Hreinn byggði lítinn kofa á röngunni – bárujárn að innan og veggfóður að utan – á þessum sama stað í hrauninu. Hreinn hefur aldrei viljað gefa upp nákvæma staðsetningu á húsinu, því hann vill að fólk rambi óvænt á það.


2. Todd McGrain – Geirfuglinn (Reykjanes)

Bronsstytta af geirfugli eftir bandaríska myndlistarmanninn Todd McCrain stendur á Valahnúki og horfir fuglinn til Eldeyjar en talið er að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn þar. Verkið er hluti af stærra verkefni sem helgað er útdauðum fuglum. Verkið er hins vegar mjög umdeilt þar sem það þykir óþægilega líkt verki Ólafar Nordal frá 1998, styttu af geirfugli sem stendur í flæðarmálinu við Skerjafjörð í Reykjavík.


3. Richard Serra – Áfangar (Viðey)

Verkið Áfangar eftir bandaríska myndlistarmanninn Richard Serra, einn virtasta listamann samtímans, samanstendur af 18 stuðlabergssúlum sem standa tvær og tvær saman og mynda hring um Viðey. Það er góður göngutúr að rölta milli allra súlnanna.


4. Yoko Ono – Imagine Peace Tower (Viðey)

Annað verk í Viðey er ljóskastari japönsku listakonunnar Yoko Ono, Imagine Peace Tower, sem varpar sterkri ljóssúlu upp í himininn samfellt frá sólarlagi til miðnættis frá fæðingardegi eiginmanns hennar Johns Lennon, 9. október, til dánardags hans, 8. desember.


5. Sigurjón Ólafsson – Hávaðatröll og lágmyndir (á Búrfellsvirkjun)

Vatnsaflsvirkjanir eru einhver stærstu inngrip í óspillta náttúru sem um getur. Hefð hefur skapast fyrir því að setja upp listaverk á eða við þessi tröllauknu mannvirki, kannski sem annað dæmi um ægilegan sköpunarkraft mannsins og umbreytingu hans á náttúrunni. Búrfellsvirkjun var fyrsta stórframkvæmd opinbera virkjunarfyrirtækisins Landsvirkjunar, en hún var fullgerð 1969. Á framhlið stöðvarhússins er stór lágmynd eftir Sigurjón Ólafsson og fyrir framan það er einnig verkið Hávaðatröllið eftir hann.


6. Steinunn Þórarinsdóttir – Voyage (Vík)

Voyage, eða ferðalag, er koparstytta sem hallar sér og horfir út á sjóinn við Reynisfjöru. Hún á sér systurstyttu í hafnarbænum Hull í Englandi, en mikil tengsl hafa verið milli bæjanna á síðustu árhundruðum.


7. Claudio Parmiggiani – Íslandsviti (Sandskeið)

Tólf metra hár viti ítalska listamannsins Claudio Parmiggiani frá 2000 stendur á Sandskeiði rétt fyrir utan Reykjavík og lýsir þar dag og nótt út í tómið. Það fer ekki mikið fyrir vitanum, en hann sést vel frá þjóðveginum.


8. Þorgerður Ólafsdóttir – Strandstóll (Hjalteyri)

Árið 2014 var stór strandstóll úr timbri með góðu útsýni yfir fjörðinn byggður sem hluti af sýningunni Phishing the Landscape, sem haldin var í Verksmiðjunni á Hjalteyri.


9. Jason Rhoades, Paul McCarthy – Macy’s (Eiðar)

Rhoades og McCarthy, tveir af þekktustu myndlistarmönnum seinni hluta 20. aldarinnar, settu saman upp útibú bandarísku verslunarkeðjunnar Macy‘s á Eiðum. Þar stendur verslunin enn, ein og yfirgefin í íslenskri náttúru.


10. Sigurður Árni Sigurðsson – Sólalda (á Sultartangastöð)

Á steypuvegg fyrir ofan stöðvarhús Sultartangastöðvar í Þjórsá eru sautján stálplötur sem standa út úr veggnum í mismunandi lengd. Verkið leikur sér að samspili ljóss og skugga sem nær hámarki á sumarsólstöðu.


11. Eva Ísleifsdóttir – Hooked / Kræktur (Bíldudalur)

Stórum öngli hefur verið krækt í höfnina í Bíldudal. Verkið var sett upp sem hluta af myndlistarsýningunni Places/ Staðir í júlí 2016.


12. Gjörningaklúbburinn – Móðir jörð er að tæknivæðast (við Vatnsfellsvirkjun)

Frá verki Finnboga Péturssonar er gott útsýni yfir verk Gjörningaklúbbsins, hitt verkið sem sigraði í samkeppni Landsvirkjunar um listaverk við virkjunina. Verkið er gróðurþríhyrningur sem hefur rafmagn til hitunar og vatn til vökvunar. Þríhyrningurinn, sem er fullur af íslenskum heiðagróðri, á jafnt að vísa í útlit vatnsaflsvirkjana og „play“-takka á raftækjum.


13. Guðjón Ketilsson – Hvernig gengur? (Seyðisfjörður)

Símaklefi Guðjóns Ketilssonar frá 2004, sem nefnist Hvernig gengur?, er minnisvarði um komu sæsímastrengsins til Seyðisfjarðar einni öld fyrr.


14. Ragna Róbertsdóttir – Bakka-Bíó (Bakkadalur, Ketildölum)

Bíóbekkjum hefur verið komið fyrir í húsarúst sem hefur staðið óhreyfð í áratugi við hús Rögnu í Bakkadal. Þar er hægt að fá sér sæti og njóta þess magnaða sjónarspils sem náttúran býður upp á. Innsetningin var afhjúpuð á myndlistarsýningunni Places/Staðir í júlí 2016.


15. Finnbogi Pétursson – Tíðni (í nágrenni Vatnsfellsvirkjunar)

Listaverkið Tíðni frá 2005 stendur við Vatnsfellsstöð á leiðinni upp á Sprengisand. Verkið er 20 metra löng manngeng orgelpípa úr steini. Í henni er blágrýtisfjöður sem myndar tón í norðanvindi, tíðnin er sú sama og tíðni rafmagns 50 Hz.


16. Jónína Guðnadóttir – Hringiða (við Kárahnjúkavirkjun)

Hringiða er útilistaverk og útsýnishringur fyrir ofan hina ægilegu Kárahnjúkavirkjun. Verkið er hringlaga platti eða stétt gerð úr grjóti af svæðinu. Á stéttina er ritaður texti úr Völuspá og er letrið smíðað úr áli.


Mynd: Goddur

17. Lukas Kühne – Tvísöngur (Seyðisfjörður)

Hljóðskúlptúrinn Tvísöngur frá 2012 eftir þýska listamanninn Lukas Kühne er staðsettur fyrir ofan Seyðisfjarðarbæ. Hann samanstendur af fimm sambyggðum, steinsteyptum hvelfingum af mismunandi stærð, hver hvelfing fyrir sig hefur eigin tíðni sem samsvarar einum tóni í fimmundarsöng og virkar sem magnari fyrir þann tón.


18. Haukur Halldórsson og Erling Thoroddsen – Heimskautsgerðið (Raufarhöfn)

Hugmyndin að Heimskautsgerðinu á Melrakkaás við Raufarhöfn kom frá Erling Thoroddsen hótelstjóra en Haukur Halldórsson listamaður teiknaði gerðið. Heimskautsgerðið, sem er að hluta innblásið af Stonehenge í Bretlandi og dvergatali Völuspár, myndar hring sem er rúmlega 50 metrar í þvermál, með fjórum hliðum, sem vísa í höfuðáttirnar, ásamt bendisteini í miðju.


19. Samúel Jónsson – listaverk og byggingar (Selárdalur við Arnarfjörð)

Í Selárdal í Ketilsdalahreppi í Arnarfirði eru mörg verk eftir Samúel Jónsson, bónda og alþýðulistamann – sem oft var nefndur listamaðurinn með barnshjartað. Þar er meðal annars kirkja sem hann hannaði og smíðaði sjálfur og litríkar styttur af mönnum og dýrum.


20. Jón Gunnar Árnason – Flateyjar-Freyr (Flatey)

Á Tortu á austasta stað Flateyjar stendur Flateyjar-Freyr frá 1973, útskorinn rekaviðardrumbur með myndarlegan trélim, eftir Jón Gunnar sem dvaldi eins og fleiri listamenn oft í eynni á áttunda áratugnum. Gestir taka sig oftar en ekki til og hengja þara og skeljar á goðið – og þá hefur komið fyrir að óprúttnir aðilar hafi stolið síspenntu trétyppinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“

Sendiherra Trump á Íslandi þykist vera kúreki í kosningabaráttu sinni – „Það er ekki hægt að skálda þetta“
433Sport
Fyrir 4 klukkutímum

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“

Hvetur United til að horfa í óvænta átt: Harðhausinn aftur heim? – ,,Gæti smellpassað“
Eyjan
Fyrir 5 klukkutímum

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins til liðs við kosningateymi Katrínar
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Vonar að United tapi 5-0 eftir hegðun eins leikmanns – ,,Hann ætti að skammast sín“

Vonar að United tapi 5-0 eftir hegðun eins leikmanns – ,,Hann ætti að skammast sín“
Fókus
Fyrir 7 klukkutímum

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood

Læknar hafa áhyggjur af áberandi aukaverkunum Ozempic – Augljóst meðal elítunnar í Hollywood
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“

Guardiola: ,,Þurfum að skoða það í lok tímabils“
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Goðsögn Manchester United hefði viljað fá að spila þarna á ferlinum

Goðsögn Manchester United hefði viljað fá að spila þarna á ferlinum
433Sport
Fyrir 18 klukkutímum

Fyrrum stjóri Manchester United staðfestir viðræður

Fyrrum stjóri Manchester United staðfestir viðræður