Uppreisn í Folsom-fangelsinu

Sjö fangar í Folsom ákváðu að brjótast út í frelsið – Við tók blóðug atburðarás – Verðirnir voru afburða skyttur

Kolbeinn Þorsteinsson
Föstudaginn 16. mars 2018 22:00

Árið 1937 höfðu nokkrir alhörðustu fangar í hinu alræmda Folsom-fangelsi í Kaliforníu, ýmislegt á prjónunum, hugnaðist enda lítt dvölin innan veggja fangelsisins.

Um hádegisbil létu fangarnir til skarar skríða. Þeir voru Wesley E. Eudy, Clyde „Mad Dog“ Stevens, Albert Kessel, Fred Barnes, Robert Lee Cannon, Bennie Kucharski og Ed Davis.

Undir því yfirskini að þeir þyrftu að fá viðtal við fangelsisstjórann, Clarence A. Larkin, komu sjömenningarnir honum og William J. Ryan, yfirmanni fangelsisvarðanna, í opna skjöldu, vopnaðir hnífum af ýmsum gerðum.

Fangelsisstjórinn stunginn

„Við ætlum út, skítseiðin ykkar,“ hvæsti Eudy og hann og félagar hans þrengdu að Larkin og Ryan inni á skrifstofu fangelsisstjórans.

Ryan lét engan bilbug á sér finna og nánast gelti: „Sleppið vopnunum og hunskist héðan út.“ Hann talaði fyrir daufum eyrum og eins og gráðugir úlfar réðust þeir til atlögu gegn Larken sem mátti sín lítils gegn margnum. Larkin var stunginn tólf sinnum og lá óvígur. Ryan hafði verið haldið í skefjum á meðan af Davis en svo kom röðin að honum. „Þú munt gera það sem ég segi þér,“ urraði Davis á Ryan. „Við ætlum okkur út, skilurðu það – jafnvel þótt ég þurfi að drepa til þess.“

Frelsi hvað sem það kostar

Ryan sá ekki ástæðu til að efast um sannleiksgildi orða Davis. Hann vissi að Davis var enginn nýgræðingur þegar kom að morðum, mannránum, ránum og flótta úr fangelsum.

Larkin vildi ekki játa sig sigraðan þrátt fyrir allt og sagði að fangarnir myndu aldrei sleppa: Ef þið takið mig sem gísl munu verðirnir skjóta – þannig eru fyrirmælin.“

Stevens sagði að hann gæfi dauðann og djöfulinn í öll fyrirmæli og ef þeir þyrftu að klofa yfir Larkin dauðan til að öðlast frelsi þá yrði svo að vera.

Blekkingar Larkins

Davis vafði vír um háls Larkins, aðferð sem hann fyrr meir hafði beitt til að fá sínu framgengt. „Þú færð Davis-meðferðina,“ sagði hann mjúkmáll. Hann bætti við að ef einhver varðanna færi að skjóta þá myndi Larkin ekki þurfa að kemba hærurnar.

Þrátt fyrir að Larkin væri ekki uppgjöf í hug, þá lét hann í hið andstæða skína: „Þið vinnið strákar. Hvað gerist næst er undir ykkur komið.“

Davis skipaði Larkin að hringja í vörðinn í turninum fyrir ofan þá, Joe Brady, og skipa honum að láta skotvopn sitt síga niður. Síðan átti Larkin að sjá til þess að komið yrði með bifreið hans svo fangarnir gætu komist út um fangelsishliðið. Davis lagði áherslu á fyrirmælin með því að herða vírinn um háls Larkins.

Vörður drepinn

Með brögðum tókst Larkin að ná sambandi við Jack Whelan, úrræðagóðan ritara sinn, í stað Joe Brady og með því að tala undir rós setti hann Whelan inn í aðstæður, en þóttist allan tímann vera að ræða við Brady.
Síðan lagði hann símtólið á borðið, þannig að Whelan heyrði hvað sagt var, og sagði. „Brady neitar að afhenda riffilinn. Hann segist munu fylgja skrásettum fyrirmælum út í ystu æsar.“

Davis svaraði að bragði, og Whelan heyrði hvert einasta orð, að þeim væri fúlasta alvara.

Nánast í sömu andrá hófu viðvörunarhornin upp söng sinn og 15 verðir með alvæpni komu sér fyrir fyrir ofan aðalhliðið.

Auk þess ruku verðir að skrifstofu Larkins og ruddist einn þeirra, H.E. Martin, inn, þrátt fyrir viðvörun Larkins. Martin var yfirbugaður af sjömenningunum og stunginn til bana.

Narraðir út á opið svæði

Eftir að hafa banað Martin sneru fangarnir sér að Larkin og létu bræði sína bitna á honum og veittu honum fleiri stungusár.

Öðrum verði sem bar þar að, John Solberg, datt það snjallræði í hug að hæða fangana og mana þá í að yfirgefa skrifstofuna. Honum til mikillar undrunar gerðu þeir það. „Komum strákar. Þeir skjóta ekki ef við höfum Larkin og Ryan,“ öskraði Davis.

Í þéttum hnapp yfirgáfu glæpamennirnir skrifstofuna og Cannon og Eudy héldu hnífum sínum þétt að hálsi fangelsisstjórans.

„Við drepum Larkin ef þú lætur okkur ekki fá riffilinn þinn,“ hrópaði Davis til Bradys.

Blýfylltar kylfur og kutar á lofti

„Komið aðeins undan þakskegginu, svo ég sjái,“ kallaði Brady á móti. Fangar sem voru í fangelsisgarðinum upphófu þá hróp og háreysti og verðir með brugðnar, blýfylltar kylfur réðust til atlögu við Davis og félaga.
Kylfur brutu bein og það glampaði á blöð hnífa uppreisnarfanganna. Larkin var stunginn og skorinn af Cannon og hneig til jarðar.

Byssuskot hitti Clyde Stevens á milli augnanna og „Mad Dog“ Stevens var dauður áður en líkaminn snerti jörð. Vörður að nafni James Kearns særðist illa.

Úr einum turninum, númer 21, voru R.T. Howard og Albert Strong. Þeir höfðu góða yfirsýn og nýttu sér hana óspart. Slíkt hið sama gerði Harry B. Trader í turni númer 13.

Markviss skothríð

Banvæn og hnitmiðuð skot þeirra hittu skotmörk sín. Kucharski tók sinn hinsta andardrátt og Barnes fékk skot í bringuna. Eudy féll til jarðar þar skammt frá og Kessel fékk skot í gegnum hálsinn. Davis fékk blýfyllta kylfu í höfuðið og hann féll til jarðar með brákaða höfuðkúpu. Þegar þarna var komið sögu var búið að berja alla meðvitund úr Cannon.

Skyndilega skall á dauðaþögn ef undan eru skildar sársaukastunur og vein særðra og deyjandi. Þessi blóðugi sunnudagur í Folsom hafði nánast runnið sitt skeið.

Hinir lifandi og hinir dauðu

Á spítala litu læknar á áverka Larkins, Ryans, Kearns og þeirra fimm fanga sem enn voru í tölu lifenda, Barnes, Kessels, Davis, Cannons og Eudys. Þegar upp var staðið varð lífi Larkins ekki bjargað, en Kearns og Ryan, sem hafði verið stunginn sjö sinnum, lifðu af. Sömu sögu er að segja af þeim fimm sjömenninganna sem særðust. Þrátt fyrir að útlitið væri ekki gott fyrir þrjá þeirra; Barnes, Kessel og Eudy, þá náðu þeir allir það góðri heilsu að hægt var að rétta yfir þeim og taka þá af lífi árið eftir.

Byggt á frásögn Jacks Whelan, ritara fangelsisstjórans

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 8 klukkutímum

Manchester United hafði samband við lögregluna – City gæti verið í veseni

Manchester United hafði samband við lögregluna – City gæti verið í veseni
Lífsstíll
Fyrir 8 klukkutímum

Klifurhúsið: Það er engin leið að hætta að klifra

Klifurhúsið: Það er engin leið að hætta að klifra
Matur
Fyrir 9 klukkutímum

Léttist um tæplega áttatíu kíló: Hér er leyniuppskriftin hennar

Léttist um tæplega áttatíu kíló: Hér er leyniuppskriftin hennar
433
Fyrir 9 klukkutímum

Sár því hann fær ekki að mæta Ronaldo í kvöld

Sár því hann fær ekki að mæta Ronaldo í kvöld
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum
Veiparar Íslands
Lífsstíll
Fyrir 10 klukkutímum

Dekraðu við þig á Snyrtistofunni Dimmalimm

Dekraðu við þig á Snyrtistofunni Dimmalimm
433
Fyrir 10 klukkutímum

Stóðst ekki væntingar hjá Manchester United – ,,Þetta gerðist of hratt“

Stóðst ekki væntingar hjá Manchester United – ,,Þetta gerðist of hratt“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Hörður ræðir erfiða tíma hjá FH – ,,Óli Jó gaf skít í þessa pabba-pólitík“

Hörður ræðir erfiða tíma hjá FH – ,,Óli Jó gaf skít í þessa pabba-pólitík“
Lífsstíll
Fyrir 12 klukkutímum

Thai Nuddstofan: Aldagamlar aðferðir, ótrúleg virkni

Thai Nuddstofan: Aldagamlar aðferðir, ótrúleg virkni