Lögregla taldi að fíkniefni væru framleidd í húsinu: Það sem hún fann var miklu, miklu verra

Einar Þór Sigurðsson skrifar
Miðvikudaginn 3. janúar 2018 14:41

Óhugnanleg sjón blasti við lögreglumönnum sem framkvæmdu húsleit í húsi einu í Harris County í Houston í Bandaríkjunum skömmu fyrir jól. Lögregla hafði fengið ábendingar frá áhyggjufullum nágrönnum þess efnis að framleiðsla á metamfetamíni færi fram í húsinu.

En lögregla fann engin merki um fíkniefnaframleiðslu í húsinu – þó fíkniefni hefðu vissulega fundist – heldur fann hún fjögurra ára dreng sem var illa farinn á líkama og sál. Móðir piltsins og stjúpfaðir bjuggu í húsinu og eru þau grunuð um að hafa haldið honum föngnum inni í litlum, lokuðum skáp tímunum saman á hverjum degi. Þar að auki reyndist drengurinn vera með leifar af metamfetamíni í líkama sínum.

Í frétt News.com.au, sem fjallar um málið, kemur fram að drengurinn hafi sagt lögreglu að „vinir hans“ væru kakkalakkar og rottur sem spókuðu sig um í þeim sama skáp og honum var haldið föngnum í.

Lögfræðingur sem gætir réttinda drengsins, Rachel Leal-Hudson að nafni, segir að drengurinn hafi tjáð lögreglu að hann þyrfti að dúsa í skápnum í fleiri, fleiri klukkutíma á hverjum degi. Þá hafi honum verið refsað fyrir slæma hegðun og honum komið fyrir ofan á ísskáp. Tjáði hann lögreglu að hann hefði orðið hræddur í hvert skipti sem honum var komið fyrir á ísskápnum enda fallið nokkuð hátt fyrir ungan dreng ef illa færi.

Drengnum var komið fyrir í umsjá félagsmálayfirvalda meðan málið er í rannsókn. Lögregla getur ekki svarað því hversu lengi þetta ástand hefur varað á heimili hans. Margt bendi þó til þess að það hafi varað lengi miðað við lýsingar hans.

Móðir piltsins, April Burrier, var handtekin og á hún yfir höfði sér ákæru fyrir að stefna velferð sonar síns í hættu. Faðir drengsins, Robert Dehard, sagði við lögreglu að hann hafi látið drenginn í hendur móður sinnar eftir þakkargjörðarhátíðina í lok nóvember. Hann kveðst ætla að fara fram á forræði yfir honum. Óvíst er hvort af því verði þar sem Robert hefur sjálfur komist í kast við lögin vegna fíkniefnamála og neitað að skila inn prófi því til staðfestingar að hann noti engin fíkniefni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af