Kókflaska kom upp um kaldrifjaðan morðingja

Einar Þór Sigurðsson skrifar
Sunnudaginn 17. desember 2017 21:30

Kókflaska kom upp um kaldrifjaðan morðingja
Þann 24. nóvember árið 1989 fór hin átján ára gamla Amanda Stavik út að skokka skammt frá Bellingham í Washington-ríki ásamt hundinum sínum. Hundurinn kom aftur heim en Amanda, sem var allaf kölluð Mandy, skilaði sér ekki til baka.

Nokkru síðar fannst lík Mandy í á skammt frá og taldi lögregla að henni hafi verið nauðgað áður en henni var ráðinn bani. Lögregla safnaði lífssýnum og á árunum sem á eftir fylgdu gáfu rúmlega 50 einstaklingar, sem mögulega lágu undir grun, DNA-sýni til að útiloka þátttöku sína í voðaverkinu.

Einn neitaði þó ávallt að gefa sýni, Timothy Forrest Bass sem bjó í sömu götu og Mandy. Bass, sem er fimmtugur bakari, er sagður hafa montað sig af því við samstarfsfélaga sinn að hafa komist upp með morð eitt sinn. Samstarfsfélagi Bass brá því á það ráð að koma kókflösku, sem Bass hafði drukkið úr, til lögreglu. Lögregla framkvæmdi DNA-rannsókn á kókflöskunni og komu niðurstöðurnar heim og saman við lífssýnin sem tekin voru á vettvangi morðsins árið 1989.

Bass var handtekinn í vikunni vegna gruns um morð af fyrstu gráðu, mannrán og nauðgun. Hann á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af