Frá örbirgð til auðlegðar

Kenneth Noye var dugnaðarforkur í æsku – Hann lenti ungur á refilstigum vafasamra vinnubragða

Kolbeinn Þorsteinsson skrifar
Miðvikudaginn 12. júlí 2017 21:00

Kenneth Noye fæddist í Bexleyheath í Kent-sýslu á Englandi árið 1947. Faðir hans sá um rekstur pósthúss og móðir hans var framkvæmdastjóri hundaveðhlaupabrautar.
Noye varð ungur að árum afar vinnusamur og sagði skilið við nám fimmtán ára að aldri. Hann sinnti mörgum störfum og var stoltur af því. Í upphafi bar hann út dagblöð og mjólk og tók að sér ýmis viðvik í verslunum. Hann seldi prógrömm á hundaveðhlaupabrautum og reyndi fyrir sér með blaðsöluturn í miðborg London.

Hneigðist til glæpa

En glæpahneigð gerði einnig vart við sig hjá hinum vinnusama Noye og hann fékk tækifæri til að skoða fangelsisveggi að innanverður áður en hann náði 23 ára aldri, eftir að hafa verið gripinn glóðvolgur við að höndla með stolna bíla.

En 23 ára kvæntist hann Brendu, dóttur verkfræðings, og drap aðeins niður fæti í prentunargeiranum og á áttunda áratug síðustu aldar vann hann á næturvöktum í prentsmiðju í Fleet Street í London.

Stofnar flutningafyrirtæki

Noye hugnaðist þó ekki að vinna fyrir aðra til lengdar og ákvað að verða sjálfstæður. Hann stofnaði flutningafyrirtæki með höfuðstöðvar í niðurníddu hjólhýsi fyrir aftan bílskúr í West Kingsdown í Kent.
Síðan haslaði hann sér völl í byggingargeiranum og enn síðar í lóða- og jarðabraski sem hann hagnaðist ágætlega á.

Árið 1977 kom snurða á þráðinn og Noye fékk eins og hálfs árs skilorðsbundinn dóm fyrir að ólöglega skotvopnaeign.

Einbýlishús og snekkja

En fyrir tilstilli ábatasams reksturs komst Noye í álnir og 1980 byggði hann tíu svefnherbergja setur í Tudor-stíl skammt frá West Kingsdown. Til að bæta um betur þá keypti hann einbýlishús á Kýpur og snekkju að andvirði 700.000 sterlingspunda.

En eins og dæmin sanna þá vill mikið meira og 26. nóvember, 1983, réðust sex vopnaðir menn inn í Brink’s Mat-vöruhúsið á Heathrow-flugvelli.

Þeir helltu bensíni yfir öryggisverðina og hótuðu að bera að þeim eld hefðu þeir sig ekki hæga.
Sexmenningarnir höfðu á brott með sér heilmikinn ránsfeng, þar á meðal 6.800 gullstengur, platínum og demanta. Heildarverðmætið var um 26.369.778 sterlingspund.

Innanbúðarmaður handtekinn

Öryggisvörður að nafni Anthony Black hafði verið í vitorði með ræningjunum og gaf hann lögreglu upp nafn eins þeirra. Einn af öðrum lentu þeir í höndum lögreglunnar sem hafði Noye sterklega grunaðan um aðild að ráninu. Á meðan Noye var til rannsóknar vegna ránsins, 1983, varð hann leynilögreglumanni, sem hafði hann undir eftirliti, að bana. Noye bar við sjálfsvörn og var sýknaður.

Árið 1986 var Noye sakfelldur fyrir að höndla með þýfi úr Brink’s Mat-ráninu, dæmdur til að greiða samtals 700.000 sterlingspund og úrskurðaður í 14 ára fangelsi. Þær voru frekar kaldar kveðjurnar sem hann sendi kviðdómurum: „Ég vona að þið drepist öll úr krabbameini.“

Fer huldu höfði

Því fer fjarri að Kenneths sögu Noye hafi lokið þegar þarna var komið sögu. Hann afplánaði sjö ár og sneri heim þar sem honum tókst að láta lítið á sér bera um tveggja ára skeið.

Þann 19. maí, 1996, var Noye á ferð á M25-þjóðveginum, skammt frá Kent, og lenti þá saman við annan ökumann, Stephen Cameron. Til ataka kom og urðu lyktir þær að Noye stakk Cameron til bana.

Í kjölfarið beið Noye ekki boðanna og flúði land og það var ekki fyrr en árið 1998, eftir tveggja ára leit, sem hann fannst á Spáni.

Noye var framseldur til Englands sjö mánuðum síðar og 14. apríl, 2000, fékk hann lífstíðardóm. Noye áfrýjaði dómnum tvisvar; árið 2001 og 2004, en hafði ekki árangur sem erfiði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af