Læknafélag Íslands bendir á að læknar geta orðið fíklar eins og aðrir. Félagið hefur sent frá sér tilkynningu þar sem brugðist er við frétt Stöðvar 2 um að 500 læknar hafi ávísað lyfjum á eigin kennitölu á árinu 2018. Félagið bendir að í flestum tilvikum hafi verið ávísað í litlu magni og í langflestum tilvikum séu eðlilegar skýringar á ávísunum, til dæmis: „…starfstengdar lyfjaútskriftir lækna sem annast vakta- og vitjanaþjónustu eða þurfa að bregðast við í bráðatilfellum utan heilbrigðisstofnana, en í einhverjum tilvikum lyf til eigin nota. LÍ telur að þær tölur sem fram koma í fréttinni bendi almennt til ábyrgra lyfjaávísana íslenskra lækna…“
Í tilkynningunni er bent á að læknar geti eins og aðrir orðið áfengis- og fíknisjúkdómi að bráð. Ekkert bendi til þess að slíkt sé algengara meðal íslenskra lækna en annarra starfsstétta. Segir einnig í tilkynningunni að í þeim tilfellum þegar læknar fari í meðferð vegna fíknar leggi þeir tímabundið inn leyfi sitt til að ávísa ávanabindandi lyfjum. Einstaka sinnum komi fyrir að fíkn þeirra leiði til sviptingar á réttindum til að ávísa lyfjum, tímabundið eða til lengri tíma.