Karlmaður á sextugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 5. mars næstkomandi vegna gruns um ítrekaðan þjófnað á varningi úr Fríhöfninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Þegar hann var handtekinn nú síðast í flugstöðinni fundust í fórum hans fundust sjö sígarettukarton, áfengi og ilmvötn, samtals að verðmæti um 125 þúsund krónur.
Þetta kemur fram í tilkynningu sem Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur sent frá sér.
„Talið er að maðurinn tilheyri hópi manna af erlendum uppruna sem stundi með skipulögðum hætti þjófnað á dýrum varningi úr verslunum í flugstöðinni en þó aðalega á sígarettum. Kom fyrst til afskipta af hópnum í ágúst 2018 og fór þá hluti hópsins af landinu en karlmaðurinn er búsettur hér á landi hefur haldið uppteknum hætti.“
Þá segir í tilkynningunni:
„Stundaði hópurinn að kaupa ódýra flugfarmiða og skrá sig til flugs en í stað þess að fara í flugið lét hópurinn greipar sópa um verslanir í brottfarasal flugstöðvarinnar. Upp komst þegar háttarlagið þegar tollverðir í flugstöð Leifs Eiríkssonar stöðvuðu ferðir einstaklinga úr hópnum. Við húsleit heimilum grunaðra lagt hald á mikið magn sígarettukartona og annarskonar varnings sem talin er vera úr verslunum í flugstöðinni.“