Einstaklingur sem hugðist hnupla ilmvatnsglasi úr verslun í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum í gær tók sprettinn út úr versluninni þegar lögreglumaður mætti á staðinn. Sá síðarnefndi hljóp hnuplarann uppi og var hann látinn borga fyrir ilmvatnið.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Þá segir lögregla að fyrr í vikunni hafi annar fingralangur einstaklingur reynt að stela fótakremi með því að taka það úr kassanum og skilja umbúðirnar eftir. Viðkomandi var einnig látinn borga kremið sem kostaði nær sex þúsund krónur.
Þá segir lögreglan að nokkrir ökumenn hafi verið kærðir fyrir of hraðan akstur á Suðurnesjum það sem af er vikunni. Sá sem hraðast ók mældist á yfir 140 kílómetra hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Þá voru fáeinir teknir úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur.
Nokkuð var um umferðaróhöpp en engin alvarleg slys á fólki í þeim.