„Þessi nýi mælir í Víðidal við Elliðaárnar hefur algerlega slegið mann út af laginu. Í logni verða þarna séstakar aðstæður til myndunar kuldapolla, sem jafnharðan gefa sig um leið og hreyfir vind. Þannig var það í fyrrinótt (31. jan) að frostið fór í 20,0 stig á mælinum og reyndist það mesta þá í byggð á landinu.“
Þetta segir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á Facebook-síðu sinni. Kalt hefur verið í veðri að undanförnu og hafa mælar á höfuðborgarsvæðinu sýnt nokkuð lágar tölur, að minnsta kosti lægri en gengur og gerist. Einar bendir á að langt sé liðið síðan mælir í Reykjavík sýndi svo mikið frost.
„Gerðist síðast 1983, 17. janúar þegar lágmarksmælir veðurstöðvarinnar á Hólmi norðan Elliðavatns sýndi -20,6°C í kuldakasti sem þá var. Stöðin var aflögð skömmu síðar.
-15,1°C mælidist á Veðurstofunni 19. nóvember 2004 og -14,9°C 7. mars 1998 í einu mesta kuldakasti suðvestanlands frá hafísárunum hinum síðari. Hólmur og Víðdalur hefðu áreiðanlega farið yfir 20 stigin ef þar hefði verið mælt!“
Einar hefur fundið fyrir frostinu á eigin skinni, ef svo má að orði komast, því rafgeymir í bílnum hans gaf sig í gær eins og hann segir frá á Facebook-síðu sinni.