fbpx
Mánudagur 28.júlí 2025
Fréttir

Þórhildur segir Sighvat ráðast á sig og vera í vörn fyrir Jón Baldvin – sinn gamla vin og flokksfélaga

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 31. janúar 2019 16:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Geta valdamiklir menn fengið ættingja sína nauðungarvistaða og þannig forðast ásakanir um ofbeldi? Er þetta það sem gerðist í máli Jóns Baldvins Hannibalssonar og dóttur hans, Aldísar Schram? Um þetta takast þau núna á í ritdeilu, þau Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, formaður þingflokks Pírata, og Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra.

Aldís Schram hefur ásakað föður sinn, Jón Baldvin Hannibalsson, um kynferðisbrot og sifjaspell. Jafnframt hefur hún haldið því fram að hún hafi verið nauðungarvistuð fyrir áhrif hans, í þeim tilgangi að þagga niður í henni.

Þórhildur skrifaði fyrir skömmu grein í Stundina sem styður þennan málflutning Aldísar. Þar segir hún meðal annars: „Staðreyndin er sú að það er fáránlega auðvelt að fá varnarlausa manneskju nauðungarvistaða á Íslandi.“ Segir Þórhildur að þörf sé á lagabreytingum hvað þetta varðar: „Framkoma samfélagsins, stjórnkerfisins og heilbrigðiskerfisins við Aldísi Schram er áfellisdómur yfir réttarríkinu á Íslandi og undirstrikar brýna þörf á víðtækum lagabreytingum til aukinnar verndar þeirra sem vistaðir eru nauðugir á geðdeild.“ Þórhildur skrifar enn fremur:

„Frásögn Aldísar dregur  upp þá mynd að þarna hafi valdamikill maður í samfélaginu í krafti stöðu sinnar getað svipt dóttur sína frelsinu og ærunni. Þetta gat hann án nokkurs viðnáms frá því kerfi sem á að standa vörð um réttindi hennar. Jafnvel með fullu samþykki og aðstoð þessa sama kerfis.“

„Staðan í dag er sú að ekkert í íslenskum lögum kemur í veg fyrir að sagan hennar Aldísar endurtaki sig. Í íslenskum lögum er ekkert sem tryggir að valdamiklir menn misnoti ekki stöðu sína og kerfið til þess að læsa þolendur sína og ásakendur inn á geðdeild og draga þannig úr trúverðugleika frásagna þeirra. Því miður er það svo á Íslandi í dag að lagaramminn sem gildir um nauðungarvistanir, hin svokölluðu lögræðislög, er svo veikur að það kæmi ekki á óvart þótt fleiri óhugnanleg dæmi um þetta leyndust í fortíðinni.“

Sighvatur: Ályktun Þórhildar eins víðs fjarri sannleikanum og verða má

Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra og fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, skrifaði skömmu eftir að grein Þórhildar birtist harðorða grein í Morgunblaðið, þar sem meðal annars segir:

Þessi ályktunarorð eru eins víðs fjarri sannleikanum og verða má. Að formaður þingflokks á Alþingi Íslendinga skuli kjósa að gefa af samfélagi sínu slíka mynd – að valdsmenn geti lokað hvern og einn inni á geðdeild, sem þeir telja sig eiga sakir við – er ekki bara vert alvarlegra athugasemda heldur alvarlegs ámælis.

Sighvatur bendir á að ákvæði um nauðungarvistun og lögfræðissviptingu séu ströng. Rekur hann í stuttu máli hvað til þurfi til að hægt væri að nauðungarvista einstakling. Tilmæli til ættingja um slíkt komi frá lækni. Vilji ættingjar sækjast eftir nauðungarvistun þurfi þeir að óska eftir úrskurði sýslumanns. Tilmælum til hans þurfi að fylgja rökstuðningur læknis sem hafi fengist við vandamál sjúklingsins og lagt til nauðungarvistun. Enn fremur segir: „Þá eru ákvæði þess efnis, að engan megi senda til vistunar á geðdeild sjúkrahúss lengur en viðkomandi yfirlæknir telur þörf á.“

Sighvatur segir ásakanir Þórhildar fráleitar og eftir að hafa rakið þau skilyrði sem þurfa til nauðungarvistunar, segir hann:

Hversu gerólíkt er þetta ferli ekki frá því, sem látið hefur verið í veðri vaka? Að valdamiklir menn (væntanlega karlmenn) geti að eigin frumkvæði látið nauðungarvista andmælendur sína, látið lögreglu mæta til heimilis þeirra þar sem viðkomandi er settur í járn, honum ekið í lögreglubíl á næsta geðsjúkrahús, fluttur þangað inn í járnum, settur þar í klefa, látinn halda sig þar nánast upp á vatn og brauð og látinn sæta meðferð eins og geðsjúkur væri – og allt að ástæðulausu.

Þórhildur: Ómerkileg varnarræða fyrir gamlan flokksfélaga og vin, Jón Baldvin

Þórhildur Sunna svarar síðan skrifum Sighvats í grein sem birtist á Vísir.is í dag. Segir hún grein hans einkennast af vanþekkingu á málaflokknum og hún sé full af staðreyndavillum. Segi hún hann meðal annars rugla saman lögræðissviptingu og nauðungarvistun:

„Nú hef ég rannsakað íslensku lögræðislögin töluvert í störfum mínum fyrir Landssamtökin Geðhjálp. Ég get því frætt Sighvat um að lögræðissvipt manneskja hefur orðið fyrir því að dómari hefur svipt hana réttinum til að taka sjálfstæðar ákvarðanir í eigin lífi (sjálfræði og fjárræði) og skipað lögráðamann til að taka ákvarðanir fyrir hana. Sá getur m.a. ákveðið að vista eigi viðkomandi einstakling á stofnun gegn vilja sínum.

Nauðungarvistun þýðir hins vegar að sjálfráða manneskja er vistuð á stofnun gegn vilja sínum til að fá meðferð við alvarlegum geðsjúkdómi. Dómari þarf ekki og hefur aldrei verið skylt að koma að slíkum beiðnum, samkvæmt íslenskum lögum.“

Þórhildur bendir jafnframt á að í flestum lýðræðisríkjum þar sem nauðungarvistun sé beitt þurfi beiðni um hana að fylgja læknisvottorð tveggja óháðra lækna með sérþekkingu á geðheilbrigði. Þessar kröfur séu ekki í íslenskum lögum um lögræðissviptingu og nauðungarvistun.

Þá segir Þórhildur að Sighvatur leggi sér orð í munn er hann skrifar að hún telji að valdsmenn geti lokað hvern og einn inni á geðdeild sem þeir eigi sökótt við:

„Auðvitað er það ekki svo að hvaða ráðamaður sem er geti látið nauðungarvista fólk án tilefnis og jafnvel til að koma höggi á pólitíska andstæðinga sína. En að valdamaður eins og Jón Baldvin Hannibalsson hafi getað fengið dóttur sína nauðungarvistaða að ósekju í þeim tilgangi að þagga niður í henni, og það margoft, er alls ekki útilokað miðað við þágildandi og núgildandi lög um nauðungarvistun.“

Í lok greinar sinnar sakar Þórhildur Sighvat um að ráðast á sig með ómerkilegum hætti í vörn sinni fyrir gamlan félaga, Jón Baldvin:

„Lögin okkar komast ekki nálægt því að innihalda fullnægjandi varnir til að hindra misnotkun á þessu ferli. Óskandi væri, að Sighvatur Björgvinsson einbeitti sér að því að hvetja okkur til dáða sem viljum breyta þessum ólögum, frekar en að ráðast að mér með ómerkilegri varnarræðu fyrir gamlan flokksfélaga og vin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Hvora leiðina er best að keyra hringveginn? – Önnur leiðin er styttri

Hvora leiðina er best að keyra hringveginn? – Önnur leiðin er styttri
Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Lögðu á miðjum vegi og á móti umferð – „Vorum næstum búin að klippa hurðina af bílnum þegar við keyrðum fram hjá“

Lögðu á miðjum vegi og á móti umferð – „Vorum næstum búin að klippa hurðina af bílnum þegar við keyrðum fram hjá“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Okur í íslensku bakaríi – „Bon apetit bankareikningurinn minn“

Okur í íslensku bakaríi – „Bon apetit bankareikningurinn minn“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dó í farþegaflugi skammt frá Íslandi – Nú veit enginn hvar líkið er niðurkomið

Dó í farþegaflugi skammt frá Íslandi – Nú veit enginn hvar líkið er niðurkomið