„Þeir tóku mig fyrir á þennan hátt og undir þeim formerkjum að eitt skyldi yfir alla ganga; ég var ekkert merkilegur, hafði ekki unnið mér inn neina sérstaka virðingu fyrir framkomu mína og störf. Ég var ekki vinur þeirra, fyrirmynd eða neitt annað,“ segir grínistinn og fyrrum borgarstjórinn Jón Gnarr á Facebook og vísar þar í umræður Frosta Logasonar og Mána Péturssonar í útvarpsþættinum Harmageddon, sem snerust um Jón og Banksy málið svokallaða.
Jón komst í fréttirnar fyrr í mánuðinum vegna myndlistarverks sem hann tjáði sig um að hafa fengið að gjöf frá hinum stórfræga götulistamanni Banksy, á meðan hann var borgarstjóri Reykjavíkur. Strangar reglur gilda um gjafir til kjörinna fulltrúa og hefur Jón því sætt töluverðri gagnrýni vegna málsins. Jón hefur gefið þau svör að listaverkið sé gjöf sem hann fékk þegar hann var borgarstjóri og sé ekki ekki upprunalegt verk eftir Banksy, heldur veggspjald.
Fjallað var um málið í útvarpsþættinum Harmageddon þann 13. nóvember síðastliðinn þar sem þeir Frosti Logason og Máni Pétursson setja spurningarmerki við trúverðugleika svarsins frá fyrrum borgarstjóranum. „Það er eitthvað skrítið við þetta,“ sagði Máni. „Keypti hann kannski þetta plakat úti í búð og sagði svo að Banksy hafi gefið sér þetta?“
Máni gagnrýndi viðbrögð almennings við þessari umræðu og þótti fólk tala undir rós frekar en að ræða hvort þarna væri stuldur eða lygi á ferð. Frosti tók fram að Jón Gnarr væri „fínn náungi,“ en þá bætti Máni við að hann væri enn þá fínn náungi þó hann hefði tekið listaverkið með sér heim.
„Hvers konar djöfulsins meðvirknissamfélag er þetta?“ spurði Máni meðal annars. „Okkur finnst Davíð Oddsson ekki vera fínn náungi. Hefði hann tekið þetta verk, væri þá ekki frussuskita yfir hann út um allt?“
Þann 26. nóvember síðastliðinn ritaði Jón pistil þar sem hann gagnrýndi fréttaflutning Fréttablaðsins, Vísis og Morgunblaðins af málinu og segir miðlana þrjá hafa tekið höndum saman og „fabrikerað“ fréttir um hinn meinta listaverkaþjófnað.
Jón ritar færslu á facebooksíða fyrr í dag þar sem hann deilir hlekk á viðtal Silfursins við Frosta Logason. Þar ræðir Frosti um Klausturmálið svokallaða og umræðuna sem orðið hefur á samfélagsmiðlum og einkennist af opinberri smánun. Segir Frosti umræðuna minna á gapastokk miðalda.
Jón segist sjálfur hafa lent í álíka einelti þegar Bansky málið var í umræðunni. „Það byrjaði á því að blaðamaður gaf sé einhverjar forsendur, sem voru ekki byggðar á neinu nema hans eigin innantómu spekúlasjónum. Facebook logaði af hneikslan fólks, sem taggaði mig gjarnan í vandlætingu sinni. Ég hafði engin tök á að svara þessum dylgjum öllum beint heldur varði mig með statusum á facebook. Þegar það varð svo lýðum ljóst að hér var ekki um nein verðmæti að ræða, þetta var bara plaggat og ég var ekki fábjáni sem hafði labbað út með rándýrt listaverk undir hendinni og væri heldur ekki sá siðblindi skattsvikari sem sumir héldu að þeir hefðu gripið glóðvolgan þá snérist umfjöllunin. Fjölmiðlar viðurkenndu engin mistök, heldur var þetta upphlaup allt mér sjálfum að kenna og enda væri ég greinilega bjáni sem hefði gefið misvísandi upplýsingar.
Ég sá engan annan tilgang í þessu en að reyna að koma einhverju höggi á mig og niðurlægja mig úrþvíað það var ekki hægt að krossfesta mig fyrir neitt. Fólk sem hélt uppi vörnum fyrir mig var gjarnan skilgreint sem eitthvað klapplið eða sagt meðvirkt. Mér fannst glatað að sjá hvað margir, af fólki sem ég taldi mig þekkja og ætti að þekkja mig, virtist tilbúið að trúa uppá mig vafasömum hlutum. Allt í einu átti ég ekkert inni fyrir verk mín og störf, var ekki hafinn yfir neinn vafa.“
Jón tekur sem dæmi umræður um málið í útvarpsþætti Harmageddon. Hann hafi verið tekinn þar fyrir og gefið í skyn að hann væri lygari, þó svo að þáttastjórnendur hefðu aldrei þekkt hann af neinum lygum.
„Þeir hafa soldið sérhæft sig í því að taka fyrir illa gefna ræfla eða einhverja sem hafa gert einhver mistök eða brotið af sér og opinberlega smána viðkomandi.“
Jón líkir upplifun sinni við það að fara í gegnum tollinn í Bandaríkjunum: „þar sem þú ert hugsanlegur glæpamaður nema ekkert finnist sem sanni á þig glæp, þá er þér sleppt í gegn en yfirleitt bara fyrir vafann.“
„Og þessi ósmekklega árás var ekki bara á mig heldur á alla fjölskylduna mína og heimilið okkar,“
ritar Jón en Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík og Miðflokkurinn hafa nú lagt fram fyrrirspurn til borgarlögmanns varðandi það hvort Jón sé hugsanlega skaðabótaskyldur gagnvart borginni. Jón býst við því að þurfa „áfram að sitja undir lágkúru og fíflagangi“ þar til niðurstaða liggur fyrir.
„Þegar niðurstaðan liggur fyrir mun ég prenta út tvær myndir og afhenda borginni þannig að við getum öll haldið áfram að niðurlægja okkur.“