Hjón í Sandgerði sem grunuð eru um gróf kynferðisbrot gegn börnum sínum játuðu sök að hluta þegar ákæra gegn þeim var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Þetta kemur fram í frétt RÚV en þar segir að fyrirtaka í málinu fari fram þann 5. nóvember næstkomandi.
Málið hefur vakið mikinn óhug og hefur fólk innan réttarvörslukerfisins sagt eitt það „ógeðslegasta í sögunni“.
Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan í júlí en þá voru hjónin handtekin. Konan sat í gæsluvarðhaldi í tvær vikur í kjölfar handtökunnar en var síðan látin laus. Konan játaði sök að hluta í sumar og var því sleppt úr haldi í kjölfarið. Hún sagðist þá hafa verið mjög ölvuð þegar nauðgunin átti sér stað og gerði lítið úr eigin þætti í málinu.
Hún var úrskurðuð aftur í gæsluvarðhald í haust og staðfesti Landsréttur úrskurðinn. Í honum kemur fram að parið sé ákært fyrir að hafa nauðgað dóttur konunnar, stjúpdóttur mannsins, og tekið allt upp á myndbönd og að hafa tekið ljósmyndir. Þau eru einnig ákærð fyrir að hafa gefið stúlkunni áfengi og fyrir framleiðslu barnaníðsefnis. Myndbandsupptökur eru meðal rannsóknargagna í málinu. Um þær sagði í úrskurði Landsréttar:
Meðal rannsóknargagna eru myndbandsupptökur sem fundust í myndavél í fataskáp á heimili ákærðu. Sjá og heyra megi af þeim myndskeiðum að þáttur ákærðu í brotum gegn A sé mikill, og sé hún aðalmaður í brotum ákærða að mati ákæruvaldsins, þar sem hún taki virkan þátt í brotum gegn stúlkunni.
Í frétt RÚV kemur fram að hjónin séu ákærð fyrir brot gegn dóttur konunnar, maðurinn er sagður hafa nauðgað henni í félagi við móður hennar auk þess að taka hreyfi- og ljósmyndir af brotunum. Í öðru lagi eru þau ákærð fyrir kynferðisbrot gegn barni og brot í nánu sambandi með því að hafa framið brotið að dóttur þeirra viðstaddri. Hún hafi því horft upp á foreldra sína brjóta gegn systur sinni.
Í frétt DV þann 10. október kom fram að hjónin hefðu kynnst í Skóla Krists, Ljósafosskóla í Grímsnesinu. Í viðtalinu fyrir nokkrum árum var manninum lýst sem verkamanni á Akranesi sem hafi verið atvinnulaus. Hann hafi alltaf verið mjög trúaður en eftir að hann missti vinnuna hafi hann farið í Skóla Krists, þar sem hann kynntist konunni, sem var úr Garðinum. „Þau giftu sig skömmu síðar og saman hafa þau lifað í ástinni og trúnni,“ sagði í viðtalinu sem birtist í Skessuhorni.
Karlinn sagðist ekki kvíða framtíðarinnar þrátt fyrir að vera enn atvinnulaus. „Það er gott að geta dreift huganum þegar maður er atvinnulaus. Annars kvíði ég ekki framtíðinni og legg allt í drottins hendur,“ sagði maðurinn og vitnaði í áttunda kafla Rómverjabréfs þar sem stendur: „Við vitum að þeim sem Guð elska samverkar allt til góðs.“