fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Keisaraynjan sem var treg í taumi

Dáð og virt en myrt af ítölskum anarkista

Kolbrún Bergþórsdóttir
Sunnudaginn 27. ágúst 2017 10:59

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegnar hennar, sem dáðu hana, kölluðu hana Sisi en hún hét Elísabet og fæddist á aðfangadag árið 1837. Hún var fjórða í röðinni af níu börnum bæverska hertogans Maxmillian Josefs og Ludoviku prinsessu, sem var hálfsystir Lúðvíks I konungs Bæjaralands. Sisi varð snemma býsna ákveðin og sérlynd og var þess vegna sögð hafa erfiða skapgerð. Hún var ætíð treg í taumi. „Feimin og villt, vel menntuð, hrifnæm og með tilhneigingu til þunglyndis,“ er umsögn eins ævisagnaritara hennar.

Frjáls andi og hirðlíf

Fimmtán ára gömul var hún heitbundin Franz Jósef, 22 ára ríkiserfingja Austurríkis, sem varð ástfanginn af henni við fyrstu sýn. Fáar sögur fara af ást hennar til hans. Þegar tilkynnt var um trúlofun þeirra var hún ekki spurð álits. Það tæpa ár sem leið frá trúlofun þeirra fram að giftingu reyndist Sisi erfiður skóli. Hið agaða, reglufasta hirðlíf sem hún varð nú að vera hluti af átti ekki við frjálsan anda eins og hennar. Kröfur hirðlífsins rændu hana lífsgleði og hún saknaði æskuheimilisins og systkina sinna. Einungis mánuði eftir brúðkaup sitt skrifaði Sisi: „Ó, hvers vegna yfirgaf ég veginn sem hefði leitt mig til frelsis.“

Sisi var gift kona einungis sextán ára gömul. Hún þótti nógu gömul til að fæða börn en of ung til að ala þau upp. Tengdamóðir hennar tók að sér uppeldi barnanna og Sisi gat aldrei fyrirgefið henni að hafa tekið þau frá sér. Börnin voru fjögur: Soffía, Giselle, Rúdolf og Marie-Valerie. Soffía lést tveggja ára og Sísi þjáðist eftir það af þunglyndi. Dauði einkasonar hennar árið 1889 var annað áfall sem Sisi jafnaði sig aldrei á. Rúdolf og ástkona hans fundust látin í veiðikofa í Mayerling og talið er að þau hafi svipt sig lífi.

Óvenjulega sterkur persónuleiki Sisi gerði að verkum að fjölskylda manns hennar leit hana hornauga. Hún var talin vanþakklát og almennt til vandræða. „Ég var ofsótt og ranglega dæmd. Þau særðu mig og rægðu mig. En Guð sem getur séð inn í sál mína veit að ég hef aldrei gert neinum mein,“ sagði hún.

Ljósmynd frá árinu 1867.
Prúðbúin Ljósmynd frá árinu 1867.

Fáránleg stofnun

Franz Jósef varð keisari Austurríkis og konungur Ungverjalands þrettán árum eftir giftingu þeirra Sisi. Hann unni konu sinni alla tíð en tilfinningar hans voru ekki endurgoldnar. „Hjónaband er fáránleg stofnun,“ sagði Sisi seint á ævinni við yngstu dóttur sína. „Þú ert seld fimmtán ára gömul þegar þú ert enn lítil stúlka og látin sverja eið sem þú skilur ekki og munt sjá eftir næstu þrjátíu árin eða lengur, en þér er ókleift að rjúfa hann.“

Ævi Sisi var ekki hamingjurík. Hún eyddi eins miklum tíma fjarri eiginmanni sínum og hún gat. Hún lét byggja hús uppi í sveit þar sem hún skrifaði og málaði. Daglega hélt hún til fjalla í langar gönguferðir. „Ég átti einskis annars völ en að lifa eins og einsetumaður,“ sagði hún. „Það er erfitt að lifa í einangrun en maður venst því að lokum. Náttúran er mun þakklátari en mannlegar verur.“

Upptekin af útlitinu

Sisi var alla tíð afar upptekin af útliti sínu, en fegurð hennar var rómuð. Eftir 32 ára aldur neitaði hún á sitja fyrir á myndum því hún vildi ekki láta sjást að aldurinn hefði áhrif á útlit hennar. Hún var 172 sentimetrar á hæð og varð aldrei þyngri en 50 kíló. Hún hafði andstyggð á feitum konum og yngsta dóttir hennar varð fyrir áhrifum af því og varð skelfingu lostin þegar hún, barn að aldri, hitti Viktoríu Englandsdrottningu í fyrsta sinn. Sisi stundaði strangar æfingar og svelti sig til að viðhalda hinum granna líkama. Hún var mikil og áköf hestakona og fór einnig í langa göngutúra. Hún svaf lítið og las um nætur. Hún orti ljóð sem voru undir miklum áhrifum af skáldskap Heine.

Þetta var uppáhaldsmynd eiginmanns hennar af henni.
Sisi með sitt síða hár Þetta var uppáhaldsmynd eiginmanns hennar af henni.

„Ég miðaði á hjartað“

Í septembermánuði 1898 voru Sisi og vinkona hennar, Szátaray greifynja, í Genf á leið til hafnarinnar en þar ætluðu þær að taka bát sem flytja átti þær til Montreux. Þar beið þeirra ítalski anarkistinn Luigi Lucheni. Hann átti sér það takmark í lífinu að komast í sögubækur fyrir að hafa drepið háttsetta persónu. Í þessum tilgangi hafði hann komið til Genf. „Ég hafði heitið því að drepa einhvern tignarmann: prins, konung eða forseta – þetta er allt sama tóbakið,“ sagði hann síðar. Þegar hann kom auga á keisaraynjuna hljóp hann til hennar og beygði sig eins og hann væri að líta undir sólhlíf hennar. Um leið stakk hann hana í brjóstið. Keisaraynjan féll til jarðar og ódæðismaðurinn flúði af vettvangi.

Sisi virtist ekki kenna sér meins. Hún reis upp og sagði við vinkonu sína: „Þetta var ekkert. Komdu, við verðum að flýta okkur í bátinn.“ En þegar þangað var komið náfölnaði hún og síðan leið yfir hana. Henni var gefið vatn og þegar hún rankaði við sér stundi hún: „Hvað hefur komið fyrir mig?“ Hún missti aftur meðvitund og þegar losað var um klæði hennar sást blóðblettur, ekki stærri en smámynt á brjósti hennar. „Guð minn góður, þeir hafa drepið hana,“ hrópaði greifynjan. Keisaraynjan lést nokkru síðar. Ódæðismaðurinn var fljótlega handtekinn. „Ég ætlaði að drepa hana. Ég miðaði á hjartað,“ sagði hann þegar hann frétti af dauða keisaraynjunnar. Hann var dæmdur í lífstíðarfangelsi og hengdi sig þar árið 1910.

Sisi var sextug þegar hún lést. Þegar eiginmaður hennar fékk fréttir af dauða hennar lét hann fallast ofan í sófa og stundi: „Mér er ekki hlíft við neinu.“

Fjörtíu og fjórum árum eftir að hafa komið til brúðkaups síns í vagni sem dreginn var af átta hvítum hestum sneri Sisi til sömu kirkju í líkvagni sem dreginn var af átta svörtum hestum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 3 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar