fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Svanhvít: „Sársaukinn, hræðslan, sorgin og máttleysið sem við gengum í gegnum þessa nótt“

Vill opna á umræðuna um fósturmissi – „Skrítið að syrgja eitthvað sem varla var“

Auður Ösp
Miðvikudaginn 5. apríl 2017 17:25

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við sáum strax að þetta væri lífsreynsla sem okkur fannst óþarfi að við burðuðumst með með ein,“ segir Svanhvít Lilja Viðarsdóttir en hún telur þörf á aukinni umræðu um fósturlát í samfélaginu. Svanhvít og eiginmaður hennar, Kristján Ingi Arnarsson gengu í gegnum fósturmissi fyrir tveimur mánuðum og segist Svanhvít undrast hversu lítið sé talað um þessi mál í samfélaginu. Þeir sem missi barn á meðgöngu sitja því oft einir í sorginni.

Alltaf sorg og brostnir draumar

Svanhvít og Kristján eignuðust soninn Viðar Örn í byrjun árs 2015 og fengu að þær fréttir fyrir nokkrum mánuðum að von væri á nýjum erfingja. Í samtali við blaðamann segir Svanhvít að þeir sem gangi í gegnum fósturlát upplifi ósjaldan ákveðið skilningsleysi frá samfélaginu, sérstaklega þegar fósturlát á sér stað snemma á meðgöngunni. Það megi ekki gleyma að þeir sem missa barn á meðgöngu upplifi sömu sorgartilfinningar og þeir sem missa fullvaxta barn.

Eitt af hverjum tíu

Það kallast fósturlát þegar fóstur deyr áður en það hefur náð nægilegum þroska til þess að geta lifað sjálfstætt. Venjulega er talað um fóstur þegar meðgangan hefur ekki náð 22 vikum eða ef fóstrið er léttara en 500 g.

Talið er að 10-20 prósent allra þungana endi í fósturmissi, en þessar tölur eru þó eitthvað á reiki. Þetta þýðir þó að 1 af hverjum 10 eða jafnvel 1 af hverjum 5 þungunum endi með fósturláti. Þetta kemur fram á Vísindavef HÍ.

Á Íslandi fæðast um 4000 börn á ári og því má gera ráð fyrir að fósturlát séu að minnsta kosti 400 og allt upp í 800 ár hvert.

Algengast er að fósturlát verði á fyrstu 12 vikum meðgöngunnar og er það venjulega kallað snemmkomið fósturlát. Talað er um síðkomið fósturlát þegar komið er fram í 12.-22. viku.

Aukin hætta er á fósturláti eftir því sem móðirin er eldri, en þó getur hent allar konur að missa fóstur.

„Þó svo að þú hafir ekki haldið á barninu eða kysst það þá ertu samt búin að bindast því einhverjum böndum og tilfinningum. Og þó þetta gerist snemma á meðgöngu þá er maður samt orðinn meðvitaður um að það sem maður ber í legi sínu sé eitthvað stórkostlegt. Án þess að ætla að gera lítið úr sorg þeirra sem missa barn seinna á meðgöngu eða eftir að úr móðurkvið er komið, þá er þetta alltaf sorg og brostnir draumar.“

Svanhvít ákvað á dögunum að rita pistil um reynslu sína og birta opinberlega, meðal annars í þeim tilgangi að hjálpa öðrum í sömu stöðu.

„Í raun skrifaði ég fyrst bara fyrir mig sjálfa, til að koma öllum þessum tilfinningum niður og reyna að átta mig á þessu öllu saman. Svo fór ég að hugsa um það sem læknirinn sagði við okkur, að þetta væri í raun miklu algengara en fólk gerir sér grein fyrir, að ef konur eru yfirhöfuð að stunda barneignir að þá séu miklar líkur á að þær gangi í gegnum þetta amk einu sinni. Þá fannst mér svo skrítið hvað maður heyrir sjaldan um þetta og flestir sitja bara einir með sorgina, sem hentar að sjálfsögðu einhverjum en ég bara varð að koma þessu frá mér,“ segir hún en viðbrögðin við skrifunum voru að hennar að sögn gífurleg. Meðal annars fékk hún send skilaboð frá einstaklingum sem þökkuðu henni fyrir og deildu með henni eigin reynslu af fósturmissi.

„Að geta talað um þetta svona opið og að flestir sem ég þekki viti af þessu, og auðvitað miklu fleiri núna, hefur hjálpað mér að vinna úr þessu ennþá betur. Og þetta er að sjálfsögðu allt gert í samráði við manninn minn þar sem hann gengur líka í gegnum sama ferli og ég. Og við styðjum hvort annað.“

Hræðileg nótt

„Næstum því tveir mánuðir. Í dag eru næstum tveir mánuðir frá því við hjón gengum í gegnum hræðilega erfiða reynslu. Tveir mánuðir frá því við misstum eitthvað sem var svo lítið en hefði getað orðið svo stórkostlegt og yndislegt. Tveir mánuðir síðan fóstrið byrjaði að fara. Fóstrið sem var að við héldum 9 vikna og 4 daga. Fóstrið sem við sáum nokkrum vikum fyrr í svart hvítu á skjá hjá kvennsjúkdómalækni, sex vikna gamalt í leginu og með hjartslátt. Fóstrið sem hafði misst hjartsláttinn og hætt að þroskast. Sem hafði verið dáið inní mér í einhverja daga eða vikur og við grunlaus um það sem beið okkar,“ ritar Svanhvít í pistil sínum og lýsir því næst sársaukanum, hræðslunni, sorginni og máttleysinu sem þau hjón gengu í gegnum umrædda nótt.

„Við skoðun á spítala daginn eftir var legholið orðið tómt. Legið sem áður bar fóstur sem veitti okkur gleði, hamingju og tilhlökkun.“

„Þessa hræðilegu nótt. Ekkert sem við gátum gert, ekki einu sinni verkjastillt. Við hringdum á marga staði og fengum sömu svör, að þessi blæðing þyrfti ekki að þýða að fóstrið væri að fara. Þegar leið á nóttina fórum við að átta okkur á hvert þetta stefndi. Við skoðun á spítala daginn eftir var legholið orðið tómt. Legið sem áður bar fóstur sem veitti okkur gleði, hamingju og tilhlökkun.

Erfitt verkefni

Svanhvít lýsir því hvernig síðustu vikur hafa verið erfiðar og skrítnar fyrir þau hjónin og segir skrítið að „syrgja eitthvað sem varla var.“

„Syrgja von og hugmynd um það sem myndi verða. Myndir í huganum af fjölskyldunni sem myndi stækka í september. Hugmynd um hvernig lífið myndi breytast og vaxa. Framundan er erfitt verkefni og það að segja frá þessari lífsreynslu er hluti af því, hluti af því að ekki gleyma heldur að læra að lifa með henni.

Læra að virkilega skilja hversu mikið kraftaverk hver og eitt barn sem fæðist í heiminn er. Að vera þakklát fyrir það kraftaverk sem fyllir líf okkar af svo mikilli gleði hvern einasta dag, tveggja ára orkuboltann okkar. Þakklát fyrir það að geta orðið ófrísk því það eitt er svo sannarlega ekki sjálfgefið, þó við þurfum aðeins að hafa fyrir því.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta