fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Fókus

Kokkteilariddarinn Teitur

Maðurinn sem kann að gera góða kokkteila úr brennivíni

Ritstjórn DV
Laugardaginn 30. apríl 2016 20:30

Maðurinn sem kann að gera góða kokkteila úr brennivíni

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er mikil list að blanda góða kokkteila, en á Íslandi leggja barir í auknum mæli áherslu á að bjóða gestum upp á fjölbreytta og litríka drykki, oft með óvæntu innihaldi. Barþjónar etja líka kappi í kúnstinni að blanda, og finna upp nýja kokkteila, en ein slík keppni, Besti Brennivínskokkteillinn, var haldin í Tjarnarbíói á dögunum.

Sá sem bar sigur úr býtum var Teitur Ridderman Schiöth sem starfar á Slippbarnum, en kokkteillinn hans, með nafninu Svartafell, þótti bera af.

Kannski að flaskan klárist

Blaðakona sló á þráðinn til Teits til að grennslast fyrir um hvernig í ósköpunum sé farið að því að gera íslenskt brennivín gott á bragðið. Sjálf hef ég átt sömu brennivínsflöskuna inni í skáp í árafjöld, og opna hana ekki nema í ítrustu neyð, eða þegar landkynningar er þörf.

„Það er hægt að gera góða hluti úr hverju sem er. Samspilið milli brennivínsins og annarra hráefna er lykilatriði. Þú gætir til dæmis prófað heima að nota ferskan sítrus og sykur út í brennivínið. Útkoman er þá ferskur kúmenkokkteill sem mundi alveg virka heima.“

Ég bað hann fyrir alla muni að útskýra þetta nánar fyrir mér og hér er uppskriftin:

1,5 hlutar brennivín
1 hluti ferskur sítrónusafi
3/4 hlutar sykursíróp (sykur og vatn soðið saman)

Þetta verður prófað við fyrsta tækifæri á heimili blaðakonu. Athugið að þetta er ekki uppskrift að verðlaunakokkteilnum, hún er dálítið flóknari.

Hér blandar meistarinn vinnigskokkteilinn Svartafell.
Kúnst Hér blandar meistarinn vinnigskokkteilinn Svartafell.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Einfalt er oft gott

Tal okkar berst nú að gómsætum kokkteilum, og ég minnist á Basil Gimletinn sem hægt er að fá á Slippbarnum, en hróður hans hefur borist víða. „Hann er vinsælasti kokkteillinn okkar og gott dæmi um einfaldan kokkteil sem er mjög góður. Gimlet, klassískur ginkokkteill sem samanstendur af gini, sítrus og sykri. Við bætum í hann basil og svörtum pipar, og það lyftir honum á annað plan.“

Yfirleitt kvikna hugmyndir að nýjum kokkteilum þegar Teitur er í vinnunni, umkringdur áfengi og öðrum innihaldsefnum. Árangurinn er þó ekki alltaf vís, en í um þriðjungi tilfella dettur barþjónninn knái niður á eitthvað sem virkar ljómandi vel, en oftar er vinnan á bak við góðan kokkteil dálítið flóknari.

Augnaráð kúrekans

Teitur játar fyrir mér að vinningskokkteillinn Svartafell hafi raunar tilheyrt þrjátíu prósentunum – fullskapaður við fyrstu blöndun. Ef til vill var það að þakka því að þegar Teitur blandaði hann, sat stór og mikill maður við barinn, með stóran og mikinn kúrekahatt á höfði. „Kannski var svona mikil pressa á mér því hann sat þarna. Ég er mikill aðdáandi Joe Frii og hann var í heimsókn á barnum til að kynna okkur bittera sem hann framleiðir.“
Blaðakona hváir, enda ekki alveg með viðeigandi orðfæri á hreinu. „Bitterar eru bragðefni sem við notum í kokkteila. Dálítið eins og salt og pipar í mat. Joe mætti með fullan kassa af mismunandi bitterum og bauð mér að gera hvað sem ég vildi. Svo sat hann þarna og horfði á mig undan hattinum og ég gat ekki annað en staðið mig.“

Innblásinn af Íslandi, Ítalíu og risastórum kúreka!
Svartafell Innblásinn af Íslandi, Ítalíu og risastórum kúreka!

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þegar Teitur lýsir fyrir mér kokkteilnum Svartafelli gerist eitthvað í röddinni hans. Það liggur greinilega mikil ástríða þar að baki. „Með íslenska brennivíninu nota ég ítalskan amaro-líkjör sem heitir Montenegro. Svo ákvað ég að nota rabarbarabitterinn hans Joe, sem er algjört nammi, og dálítið hindberjasíróp sem gefur fallegan lit og ferskan ávaxtakeim.“ Nafnið vísar til hins fjallstóra Joe sem varð vitni að sköpuninni, og að sjálfsögðu ítalska líkjörsins, en glöggir hafa kannski áttað sig á að nafn hans merkir það sama.

Lærdómur og gott partí

Teitur hóf barþjónsferil sinn fyrir fjórum árum, en hann vann áður sem þjónn, og sótti barþjónanámskeið í Taílandi. Hann hefur margsinnis tekið þátt í keppnum á Íslandi en þetta er í fyrsta sinn sem hann lendir í fyrsta sæti. „Ég er auðvitað mjög ánægður og líka spenntur fyrir því að fara til New Orleans á Tales of the Cocktail-hátíðina, en það er hluti verðlaunanna. Það verður mikill lærdómur, og auðvitað eitt stórt partí í leiðinni. Á svona viðburði er líka frábært að kynnast fólki í bransanum og mynda sambönd sem geta nýst síðar.“

Í lok samtals okkar Teits get ég ekki lengur setið á mér og spyr hann hvaðan þetta mikilfenglega nafn komi, Teitur Ridderman Schiöth. „Eftirnafnið er danskt, en upprunalega frá Þýskalandi. Ridderman er nafn sem afi minn bar síðastur manna á Íslandi, og ég tók það upp í hans minningu.“ Ég sting upp á því að Teitur marki sér sérstöðu sem riddari kokkteilanna, rétt eins og Joe er kúrekinn með bitterana og stóra hattinn. Honum líst prýðilega á!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður

Íslensk hundanöfn hafa tekið miklum breytingum – Þetta hétu hundarnir á öldum áður
Fókus
Í gær

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta