Að drekka í sig heiminn

Einar Már Guðmundsson skrifar um ævintýraþrá og ástina í nýjustu bók sinni Passamyndir

Kristján Guðjónsson
Sunnudaginn 3. desember 2017 22:00

Það er ljúfsár og hressileg nostalgía sem svífur yfir vötnum í Passamyndum, nýjustu bók Einars Más Guðmundssonar – þeirri tuttugustu og áttundu á tæplega fjórum áratugum. Bókin byggir að nokkru leyti á eigin reynslu Einars frá því á seinni hluta áttunda áratugar síðustu aldar. Hér rifjar sögumaðurinn, Haraldur M., upp afdrifaríkt sumar í lífi sínu, þegar hann var ungur og ævintýragjarn róttæklingur með skáldadrauma. Þetta sumar heldur hann til Noregs með félaga sínum þar sem þeir ætla að púla í byggingarvinnu uppi á fjalli, safna peningi, stefna svo í ferðalag, drekka í sig heiminn, fá innblástur fyrir listsköpun og kannski finna sjálfa sig í leiðinni.

Atburðarásin er kannski ekki jafn æsileg, og ferðalagið hefðbundnara en það sem Jörundur hélt í forðum og Einar sagði frá í síðustu skáldsögu sinni, verðlaunabókinni Hundadögum. En þar sem sögumaðurinn ferðast eftir þjóðbrautum og úr alfaraleið verða á vegi hans ýmsir einstakir karakterar, ógleymanleg atvik og að lokum sjálf ástin sem setur stórt strik í reikninginn og breytir öllum áætlunum. Það er sem sagt tekist á við sígild þemu þroskasögunnar: hugsjónir og skáldskap, vonir og vonbrigði, langanir, lærdóm og kannski umfram allt ástina. Þarna er einhver eilífð þó að tímarnir hafi eflaust breyst.

Blaðamaður DV sló á þráðinn til Einars Más – sem var nýlentur úr upplestrarferð um Brasilíu – og ræddi við hann um ferðalög og Passamyndir, róttækni og ástina, Rósku og Knut Hamsun.

Tímaflakk á sannleikanum

Það virðist nokkuð ljóst að Passamyndir er (að minnsta kosti að einhverju leyti) byggð á reynslu og minningum Einars sjálfs frá þessum tíma, rímar til dæmis um margt við það hvernig hann hefur sagt frá eigin ævi í viðtölum í gegnum tíðina. Engu að síður ber bókin undirtitilinn, skáldsaga.

Af hverju segir þú að þetta sé „skáldsaga“?

„Ég held að merking orðsins skáldsaga sé alltaf á reiki. Það er til dæmis stundum sagt að sagnfræði eins og hún var stunduð í fornöld sé skyldari skáldsögum nútímans en sagnfræði nútímans. Mörkin á milli staðreyndar og sögu vilja þannig færast úr stað, alveg eins og hugarórar geta orðið að vísindum – stafræni heimurinn hefði til dæmis verið hreinn súrrealismi fyrir nokkrum misserum. Það er því svona tímaflakk á sannleikanum,“ útskýrir Einar.

„Ég hef einhvern tíma sagt að því dýpra sem þú kafir því hærra fljúgir þú. Þessi óvissa eða mörk eru að mínu mati ákveðinn drifkraftur. Eins merkir orðið saga á íslensku allt þetta, sanna sögu og skáldsögu. Þetta eru skemmtileg landamæri eða kannski engin landamæri. Það sem mér finnst hins vegar frjóast við skáldsöguna er frelsið. Skáldsagan er að því leyti aðferð. Staðreyndirnar eru þarna en þú getur líka búið þær til eða spunnið út frá þeim í allar áttir. Einhvers konar sannleikur er líka inni í myndinni, en sannleikurinn er líka varasamur leikur eins og dæmin sanna. Þess vegna skáldar maður, ævi sína og annað,“ segir Einar, en hans eigin upplifun og fjölskylda hafa einmitt verið efniviður í aðrar skáldsögur hans, sem tengjast að vissu leyti innbyrðis.

„Haraldur, sögumaður Passamynda, er bróðir Páls sem er aðalpersónan í Englum alheimsins. Rabbi, bróðir þeirra, var sögumaður í ættarþríleiknum Fótspor á himnum, Draumar á jörðu og Nafnlausir vegir. Útlínur eru oft réttar en þar fyrir innan ríkir frásögnin, tímarnir eins og ég miðla þeim. Þess vegna eru heimarnir mjög ólíkir.“

Myndir þú segja að allar sögur sem við segjum um okkur, allar frásagnir, séu einhvers konar skáldskapur?

„Að einhverju leyti. Þegar fólk segir sögu er það að túlka veruleikann. Við þekkjum það úr svo mörgum áttum, þetta nánast fornkveðna, að þegar fimm menn lýsa sama hlutnum þá gerir enginn það eins. Það á sér alltaf stað einhver endurvinnsla á atvikum. En skáldsagan og skáldskapurinn vinnur síðan með þessa þætti og þróar þá upp á annað plan.“

Sannleikurinn er varasamur leikur eins og dæmin sanna, þess vegna skáldar maður, ævi sína og annað

Það er einbeiting í útúrdúrnum

Hugtakið „skáldævisaga“ kemur, að ég held, upphaflega frá Guðbergi Bergssyni en hefur heyrst nokkuð reglulega í umræðum á undanförnum árum þegar rætt er um rithöfunda sem nálgast eigin ævi með tæki skáldskaparins að vopni. Að vissu leyti gæti hugtakið átt við um Passamyndir, en Einar segist ekki hafa velt þessu mikið fyrir sér – þetta sé ekki beint hans ær og kýr.

„Mér finnst svolítið skrítið að ævisaga skáldsins eigi að vera sérstök bókmenntagrein, frekar en annarra stétta – hvað með ævisögur múrara? Þótt það sé auðvitað áhugavert hvernig tiltekinn höfundur verður til þá langaði mig í þessari bók frekar að lýsa því sem á vegi þessa manns verður, til að mynda þessir vinnustaðir, til að mynda róttæknin, bókmenntirnar og vinirnir. Ég held að þegar listamaður er að skrifa um sjálfan sig og sína mótun, þá skiptir hann sem slíkur í rauninni minnstu máli. Það er frekar hvernig heimurinn kemur til þessarar persónu.“

Frásögnin fer eins og oft í verkum Einars í ýmsar áttir, út og suður, og sögumaður þarf að hafa sig allan við að týna sér ekki í hinum fjölmörgu hliðarsögum. Útúrdúrinn minnir mann kannski umfram allt á það hvernig sögur hafa verið sagðar munnlega frá örófi alda en verður að sérstöku stílbragði á blaði.

Er það eðli sumra sagna að þær skuli sagðar með krókaleiðum og útúrdúrum – eða áttu bara svona erfitt með að einbeita þér að aðeins einni sögu í einu?

„Ég hugsa að það sé nú talsverð einbeiting í útúrdúrunum, en þetta hefur fylgt mér eiginlega alveg frá Riddurum hringstigans, að vaða úr einu í annað og segja margar sögur í einu. Það er samt alltaf einhver línuleg frásögn sem auðvelt er að rekja og tengja sig við, ef út í það er farið. Það á til dæmis bæði við Riddara hringstigans og Passamyndir. Munnlega frásögnin er svo mín frásögn. Það er auðvitað talsverð hefð að baki henni en svo er þetta bara minn stíll.

Sögurnar eru í sama „úníversi“, og útúrdúrarnir þannig partur af sögunni, til dæmis bækurnar sem Haraldur vísar í í Passamyndum og allir karakterarnir sem orðið hafa á vegi hans. Þetta er eins og að leggja af stað í ferðalag eða ganga í gegnum skóg, maður villist og finnur nýja stíga og nýja þræði, og sagan gerist þannig. Þess vegna finnst mér aðferðin oft verða til eftir á, að leggja af stað með hugmynd sem síðan hleður utan á sig – ekki fyrirfram gefna skilgreiningu.“

Þegar allt var hægt

Einar segir að Passamyndir og sögurnar í henni hafi lengi kallað á hann, en það hafi tekið tíma að finna rétta tóninn.

„Eins og ljóst er þá byggir bókin á þessari ferð og vinnunni í Noregi, á fjallinu, og öllum þeim uppákomum sem maður lenti í þegar maður var að drekka í sig heiminn af ungæðislegri forvitni. Og ég held að maður þurfi ákveðna fjarlægð á þetta. Í gegnum tíðina hef ég oft skrifað eitthvað út sem er hluti af þessari sögu, og það er reyndar þannig með allar mínar sögur – þetta er svolítið fram og aftur blindgötuna. Maður skrifar eitthvað og svo leggur maður það frá sér og fær svo nýtt sjónarhorn á það seinna,“ útskýrir hann. „Kannski snerist þetta um að finna tóninn, hvernig tímarnir hafa mótað þann sem segir söguna.“

Var skemmtilegt að dvelja í þessum heimi, hverfa aftur til þessara tíma á áttunda áratugnum?

„Já. Ég finn mikla fegurð og sköpun í þessum tímum. Það sem svífur um í loftinu er svolítið anarkí, pönk og svoleiðis. Það var þessi leit að frelsi sem einkenndi tímana og einkennir kannski alla tíma þegar grannt er skoðað. Þegar maður horfir til baka þá var, með einhverjum hætti, allt hægt. Þegar sögur eiga sér svona langan aðdraganda koma svo margar tengdar sögur þegar maður hellir sér út í þetta – tímarnir koma til manns. Þá vaknar þessi skrítna tilfinning að það séu 40 ár síðan en á sama tíma finnst manni þetta hafa verið í gær. Ég held að þetta sé vegna þess að þótt umgjörðin í kringum okkur breytist – „tímarnir“ – þá breytumst við ekkert rosalega mikið sjálf, atriði eins og ástin og hugsjónir, löngun til að breyta heiminum eða einhverju ástandi eru þarna alltaf, einhvers staðar í andrúmsloftinu, og auðvitað speglast í því vonir og vonbrigði og söknuður og sitthvað fleira,“ segir Einar.

Það eru einmitt þessi sígildu viðfangsefni mannsins „þessi eilífð“ sem Einar Már segist finna í skáldsögum Knuts Hamsun. En í bókinni kallar hann ítrekað fram sögur þessa meistara norskra bókmennta, aðallega Pan og Sult, sem eru skrifaðar á síðasta áratug nítjándu aldar, löngu áður en skáldið talaði máli nasista og var dæmdur fyrir föðurlandssvik. Sögumaðurinn mátar kjarnann í verkum Hamsuns við sína eigin tíma og finnur þar samsvörun – enda er þar, eins og í öllum bestu bókmenntunum, einhver eilífur sannleikur, að sögn Einars.

„Maður tók stundum upp sleggjudómana um Hamsun frá Laxness – og við erum svolítið alin upp við það. En þrátt fyrir alla hans annmarka og þó að tímarnir hafi breyst þá sér maður alltaf þessa eilífð í sögunum. Það er einhver kjarni í verkunum hans og þess vegna eru áhrif hans svo gígantísk, maður sér það hvort heldur sem er hjá Paul Auster, Isaac Bashevis Singer, Thomas Mann, eða Jorge Luis Borges. Það eru ógurlega margir sem standa í þakkarskuld við hann.“

Ég finn mikla fegurð og sköpun í þessum tímum. Það sem svífur um í loftinu er svolítið anarkí, pönk og svoleiðis.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Hnignun róttækninnar

Ekki alls ólíkt Einari sjálfum á yngri árum hefur aðalpersóna Passamynda, Haraldur M., verið virkur þátttakandi í pólitískum mótmælaaðgerðum og sökkt sér ofan í róttæka pólitíska hugsun. Ein eftirminnilegasta persónan í þessu sambandi er kvikmyndagerðarkonan Rúna, og ítalskur kærasti hennar, Federico – þau eru villtar, skapandi og örlátar persónur, hálfgerðir mentorar sem hafa mikil áhrif á Harald. En þegar hann heimsækir þau til Rómar eftir Noregsdvölina fær hann hálfgert áfall þegar hann sér hvernig fíkniefnaneysla er farin að hafa lýjandi áhrif á þau – upplifir kannski á sinn hátt endalok 68-hreyfingarinnar. Þessar persónur hljóta að vera að einhverju leyti byggðar á listakonunni Rósku og eiginmanni hennar Manrico. Þegar hann er spurður um áhrif Rósku varar Einar þó við að leggja hana að jöfnu við persónuna í bókinni.

„Rúna er Rúna og Róska var Róska. Alveg eins og Páll í Englum alheimsins er Páll, og Pálmi bróðir minn var Pálmi. Því er ekki að leyna að mínar persónur eiga sér alltaf fyrirmyndir og ég þarf að hafa mikinn áhuga á persónunni og þykja mjög vænt um hana. Þannig er það með Rósku. Hún hafði mikil áhrif á mig þegar ég var unglingur og sá mótunartími var tími róttækninnar. Hvernig þetta síðan allt fór er önnur saga, og hana er ég að segja í Passamyndum, eða hluta hennar. Hluti af hnignun róttækninnar var innan frá. Fólk höndlaði ekki frelsið sem boðað var. En breyskleiki fólksins breytir ekki því sem það stóð fyrir,“ segir Einar.

„Í bókinni er ég að lýsa þessari róttækni sem kom til mín sem unglings, meðal annars með Ítölunum í kringum Rósku. Maður var svo opinn fyrir þessu, og þess vegna voru það mikil vonbrigði – eða kannski frekar sjokk – þegar fólkið hafði misst þetta. En ég er alls ekki að dæma fólkið sem slíkt,“ segir hann.

„Í bókinni ýja ég að þeirri kenningu sem hefur stundum verið sett fram, til dæmis um ítölsku vinstrihreyfinguna, að dópið hafi hreinlega lagt hana í rúst. Þetta var svolítið landlægt þar á þessum tíma, en gerðist til dæmis ekki með sama hætti í Frakklandi – þar sem þessi arfur lifði miklu lengur. Það er þó erfitt að segja að þetta hafi bara verið eitthvað sem vonda mafían stjórnaði. Það verður að vera einhver sem segir „já, takk.“ Partur af þessu lá kannski í þessari barnslegu trú á breytt hugarástand. Og kannski er það ekki einu sinni bara spurning um dóp eða ekki dóp. Löngunin í breytt ástand og rómantíkin gagnvart því í skáldskap og þjóðfélagsfræðum liggur miklu dýpra – við þekkjum það til dæmis alveg frá 19. öldinni hjá Rimbaud og Baudelaire, og svo seinna í súrrealismanum.“

Allt snýst um ástina

Annað meginviðfangsefni bókarinnar er hin rómantíska ást – Haraldur M. hittir Ingu, konuna sem á eftir að verða lífsförunautur hans í Ósló. Andrúmsloftið er uppfullt af hrifningu og þrá en lýsingar á þessu unga ástarsambandi eru hins vegar ekkert mjög fyrirferðarmiklar – „Less is more, ætli það sé ekki málið,“ veltir Einar fyrir sér, þegar hann er spurður um þetta

„En svo er þarna líka einhver togstreita, óttinn við að binda sig, af því að persónurnar í sögunni, Haraldur og Jonni, eru leitandi og hin ríkjandi viðhorf voru að maður gæti ekki þjónað öllu í senn listinni, ástinni og ævintýrunum. En kannski er þetta allt sama tóbakið þegar öllu er á botninn hvolft og allt snýst um ástina í einni eða annarri mynd. Þess vegna kalla ég fram gamlar ástarsögur eins og sögur Knuts Hamsun. Þar er einhver eilífð þó að tímarnir hafi breyst,“ segir hann.

„Mér finnst þetta dálítið stórbrotið, hvernig fólk finnur hvert annað. Líklega eru þetta „element“ úr þroskasögunni, en sígilda þroskasagan hafði oft yfirstéttarblæ yfir sér og sálarkvalir. Það er því gaman að setja íslenska draumóramenn inn í það mynstur, þessa hópa sem verða til með velferðarþjóðfélaginu, eða hvað við eigum að kalla það, eins konar stéttleysingja sem þvælast um á vegunum, vinna hér og hvar og eru í skólum og eru að reyna að skapa sér sjálfstæða tilveru en vita ekkert hvað bíður þeirra.“

Þetta æviskeið sem þú ert að lýsa, þessi mótunarár þegar fólk er að upplifa heiminn í fyrsta skipti á eigin forsendum, lenda í ævintýrum og kynnast sjálfu sér, er örugglega svipað spennandi og kraftmikið á öllum tímum. Ef maður ber tíma Passamynda saman við samtímann veltir maður því hins vegar fyrir sér hvort sambærilegar þroskaferðir, sjálfskipuð einangrun fjarri heimahögunum sé yfirhöfuð möguleg í dag á sama hátt og áður, með sítengingu internetsins sem heldur alltaf öðrum fætinum heima. Hver er þín tilfinning fyrir þessu?

„Það er áhugavert hvernig þroskasögur gerast á ólíkum tímum, í mismunandi umhverfi. Við erum á allt öðrum tímum í minni sögu en í Sulti eftir Hamsun og Vefaranum mikla frá Kasmír eftir Laxness. Hitt er alveg rétt og ótrúlega merkilegt að pæla í hvernig heimsmyndin breytist, og reynslan. Ég held að reynslan sé bæði öðruvísi og sú sama. Ungt fólk á „kraftmiklu æviskeiði“ er enn að þvælast um og leita að markmiðum. Er sítengingin kannski bara form? Ég meina, heimurinn hefur minnkað, minna mál að ferðast, breyttur efnahagur og allt það. Þess vegna er full ástæða til að miðla þessari „on the road“-tilfinningu. Heimurinn var fjarlægur en heillandi – og er hann það ekki enn? Það má eflaust bera saman tímana og „fílósófera“ á ýmsa vegu,“ segir Einar.

„Ég sé það líka sem aðal sagnalistarinnar að miðla tímunum, varðveita minninguna, segja frá því liðna af því að það skiptir máli, til að mynda hugsjónirnar, þær koma og fara … og svo koma þær aftur. Svo er það líka bara þessi reynsla að vinna og vera til, kynnast skaplyndi mannanna eins og það er orðað hjá Hómer. Þetta heillar mig – veruleikinn – ekki bara að tengjast listinni í gegnum vangaveltur heldur líka þessa vinnu, að grafa skurði og vera staddur á meðal fólks sem leitar að haldreipi í óreiðunni, og kynnast nýju fólki og verða ástfanginn og sjá sjálfan sig.“

Ég finn mikla fegurð og sköpun í þessum tímum. Það sem svífur um í loftinu er svolítið anarkí, pönk og svoleiðis.
Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 1 klukkutíma

Sjáðu hvað Jordan Pickford var með skrifað á vatnsbrúsa sinn í gær

Sjáðu hvað Jordan Pickford var með skrifað á vatnsbrúsa sinn í gær
Fréttir
Fyrir 1 klukkutíma

Fékk óþægileg skilaboð frá Pólverjum á Íslandi eftir frétt um Sjálfstæðisgönguna: „Stillir mér upp sem óvin pólsku þjóðarinnar“

Fékk óþægileg skilaboð frá Pólverjum á Íslandi eftir frétt um Sjálfstæðisgönguna: „Stillir mér upp sem óvin pólsku þjóðarinnar“
Eyjan
Fyrir 2 klukkutímum

Hagnaður Hallgrímskirkju dugar fyrir rekstri án ríkisstyrkja

Hagnaður Hallgrímskirkju dugar fyrir rekstri án ríkisstyrkja
Lífsstíll
Fyrir 2 klukkutímum

Axarkast veitir útrás og er góð skemmtun í hóp

Axarkast veitir útrás og er góð skemmtun í hóp
Pressan
Fyrir 4 klukkutímum

Danskur ráðherra yfirheyrður vegna morðmáls – Reynt að saga líkið í sundur

Danskur ráðherra yfirheyrður vegna morðmáls – Reynt að saga líkið í sundur
Fréttir
Fyrir 4 klukkutímum

Elsti skjólstæðingur Fjölskylduhjálpar Íslands er 97 ára – Geta líklega ekki aðstoðað alla sem þurfa aðstoð fyrir jólin

Elsti skjólstæðingur Fjölskylduhjálpar Íslands er 97 ára – Geta líklega ekki aðstoðað alla sem þurfa aðstoð fyrir jólin