fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024

Rússnesk meistaraverk

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 14. nóvember 2017 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nítjánda öldin var gullöld í rússneskum bókmenntum og þá komu fram nokkrir af fremstu skáldsagnahöfundum bókmenntasögunnar. Flestir bókmenntaunnendur kannast við skáldsögur Dostojevskís og Tolstojs, nú eða leikrit og smásögur Antons Tsjekhovs, þó ekki væri nema af afspurn. Smásagnaperlur eru hluti af þeim fjársjóði sem fólginn er í þessum rússneska bókmenntaarfi og bókin Sögur frá Rússlandi, sem hér er til umfjöllunar, færir okkur 11 slíkar gersemar eftir 8 höfunda.

Það er bókaútgáfan Ugla sem stendur að útgáfunni en Áslaug Agnarsdóttir valdi sögurnar og þýddi þær úr frummálinu. Sögurnar eru allar samdar á tímabilinu frá því eftir 1800 og fram að rússnesku byltingunni 1917. Þessi valdatími keisara var vissulega tímabil kúgunar og mikillar misskiptingar en skoðanakúgun, sem vissulega var til staðar þá, var heldur minni en á valdatíma bolsévismans eftir 1917, enda eru sumar sagnanna gegnsýrðar þjóðfélagsádeilu. Rithöfundar sem deildu á hið sovéska þjóðskipulag enduðu hins vegar iðulega í gúlaginu. Í áhrifamikilli sögu Dostojevskís, Jólatré og brúðkaup, endurspeglast stéttaskipting samfélagsins í niðurskipan barna á jólaskemmtun. Sagan lýsir einnig illmennsku sem knúin er áfram af taumlausri græðgi. Önnur saga eftir Dostojevskí, Litli drengurinn við jólatré Krists, er átakanleg lýsing á hlutskipti hinna snauðustu í óréttlátu og mannúðarlitlu samfélagi, sagan er nánast melódramatísk sem var dæmigert fyrir Dostojevskí, en engu að síður mjög áhrifamikil.

Sagan Spaðadrottningin eftir Púshkín kallast á við fyrri sögu Dostojevskís í lýsingu á taumlausri fégræðgi sem veldur misnotkun á öðru fólki. Spaðadrottningin er snilldarlega vel fléttuð og meginhugmyndin meistaraleg. Sagan ber merki aldursins að því leyti að 20. aldar smásaga með sama söguþræði væri líklega þéttari í sér og með minni útúrdúrum. Það sama má segja um frábæra sögu eftir Túrgenev, Múmú, þar sem eins og víðar í bókinni er deilt hart á yfirstéttina, en sagan er eftirminnileg lýsing á lífsbaráttu mállauss manns og hunds hans sem er honum það kærasta í lífinu.

Forsagan í Múmú er fulllöng og hefði jafnvel verið skorin burt í nýrri sögu. Útúrdúrarnir lýta þó hvorki Múmú né Spaðadrottninguna, þetta eru einkenni en ekki gallar. Þetta er hins vegar nefnt hér vegna þess að í þessari bók er líka að finna efni sem er ótrúlega nútímalegt. Sálrænt innsæi Antons Tsjekhovs er til dæmis tímalaust og kemur vel fram í þeim tveimur sögum eftir hann sem eru í bókinni. Kímni Tsjekhovs er frábær og stenst líka tímans tönn, sálarflækjur eru settar í spauglegt ljós en auðvelt er fyrir nútímafólk að samsama sig persónunum.

Sagan Þrjú dauðsföll eftir Tolstoj er líka ótrúlega framsækið verk og uppbygging sögunnar er með þeim hætti að minnir mun meira á bókmenntir 20. aldar en þeirrar 19. Margslungin saga sem undirstrikar meðal annars mismuninn á hlutskipti hinna dauðvona og þeirra sem eru í fullu fjöri. Aðeins hugur nánustu syrgjenda er óskiptur hjá hinum látna, fyrir aðra heldur lífið bara áfram.

Allar sögurnar í bókinni eru framúrskarandi en snilld höfundanna birtist með mismunandi hætti. Á meðan Spaðadrottningin er frábærlega fléttuð er sagan Herramaðurinn frá San Francisco eftir Ívan Búnin stórkostlega stíluð og heillandi myndræn. Dostovjevskí hittir lesandann í hjartastað með sínu efni en saga Tolstojs fær lesandann til að hugsa dýpra.

Íslenskur texti bókarinnar er afskaplega lipur og fallegur. Það er sagt að í hverri einustu bók sé að finna einhverjar prentvillur en ég rakst þó ekki á eina einustu við lesturinn. Vandað er til útgáfunnar í hvívetna. Hnitmiðuð æviágrip um alla höfundana er að finna aftast. Bókin er innbundin og kápan er falleg og smekkleg. Þetta gerir bókina að afar góðri gjafavöru, ekki bara jólagjöf heldur ekki síður útskriftargjöf. Hér haldast útlit og innihald í hendur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Chelsea væri í fallsæti án Palmer

Chelsea væri í fallsæti án Palmer
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Slot staðfestir viðræður við Liverpool

Slot staðfestir viðræður við Liverpool
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“

Grænkerar harma auglýsingar forsetaframbjóðenda – „Borða pulsur úr gösuðum þjáðum svínum“
433Sport
Fyrir 15 klukkutímum

Staðfestir að hann sé ekki hættur – Endurkoma á næstunni

Staðfestir að hann sé ekki hættur – Endurkoma á næstunni
Fókus
Fyrir 17 klukkutímum

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra

Aðeins ein sýning á einstakri mynd um þjálfara körfuboltaliðs fatlaðra
433Sport
Fyrir 17 klukkutímum

Fær óvænt tækifærið aðeins 34 ára gamall

Fær óvænt tækifærið aðeins 34 ára gamall