fbpx

Beittur tónn

Bókardómur

Kolbrún Bergþórsdóttir
Þriðjudaginn 14. nóvember 2017 21:30

Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, skýtur föstum skotum að Hæstarétti í nýrri bók sinni „Með lognið í fangið – Um afglöp Hæstaréttar eftir hrun“.

Í inngangi bókarinnar kemur fram að markmið Jóns sé að draga upp mynd af starfi Hæstaréttar síðustu ár en að sérstök áhersla sé lögð á að meta hvernig dómstóllinn hefur staðið sig við að fást við þau dómsmál sem tengst hafa efnahagshruninu árið 2008. Niðurstaða Jóns er sú að dómstóllinn fái falleinkunn fyrir þau störf.

Jón Steinar tekur jafnframt fram í inngangi bókarinnar að bókin fjalli ekki um hann sjálfan heldur um Hæstarétt. Mörg af þeim atvikum og dómum sem hann fjallar um eru þó tengd höfundinum með beinum eða óbeinum hætti og kemst lesandinn því vart hjá því tengja persónu Jóns við efnistök bókarinnar, einkum fyrri hluta hennar. Þannig byrjar bókin til dæmis á umfjöllun um skipun Jóns í Hæstarétt árið 2004 og lýsingum á því hvernig sitjandi dómarar hafi þá beint og óbeint reynt að koma í veg fyrir að hann yrði skipaður. Sú gagnrýni hefur komið fram áður sem og umfjöllun um málarekstur Jóns gegn Þorvaldi Gylfasyni fyrir dómstólum.

Það breytir þó engu um það að rauði þráðurinn í bókinni er gagnrýni á störf Hæstaréttar. Og sú gagnrýni er beitt, beittari en oft áður í skrifum Jóns. Sumt af því sem Jón tekur til hefur komið fram áður en í síðari hluta bókarinnar má finna ný atriði, þar sem fjallað er um dómsmál tengd hruninu. Margt af því sem Jón nefnir þar er sláandi og hlýtur að vekja lesandann til umhugsunar. Dæmin eru mörg og verða ekki rakin nánar hér en grunnstef Jóns Steinars er að ákvarðanir Hæstaréttar hafi fremur ráðist af hugarástandi dómara en lögfræðilegum rökstuðningi. Hugarástandinu lýsir Jón sem vinsældakapphlaupi, þannig að dómarar Hæstaréttar hafi ætlað sér að sýna almenningi að þeir myndu standa sig í að láta þrjótana í hruninu finna fyrir því. Þá hafi margir dómara verið vanhæfir til að dæma á málum bankamanna vegna fjármálaumsvifa þeirra sjálfra á árunum fyrir hrun. Afleiðing þessa hafi meðal annars verið sú að grunnréttindum sakaðra manna til réttlátrar málsmeðferðar hafi verið ýtt til hliðar.

Margt af því sem Jón Steinar nefnir í bókinni þarf að taka með fyrirvara enda eru margar hliðar á lögfræðilegum álitamálum, ekki síst í jafn flóknum og viðkvæmum málum eins og þeim sem Jón fjallar um. Hann gætir sín þó jafnan á því, eins og hans er von og vísa, að rökstyðja sínar fullyrðingar og gagnrýni eins og kostur er. Ef umfjöllun Jóns er rétt og sanngjörn þá blasir við að Hæstiréttur er og hefur verið á rangri braut síðustu árin. Slíkt væri grafalvarlegt fyrir réttarríkið og samfélagið. Það væri því æskilegt ef þeir sem vita betur eða sjá hlutina með öðrum hætti en Jón Steinar myndu bregðast við gagnrýni hans opinberlega og rökstyðja með einhverjum hætti að Jón Steinar sé á villigötum. Jón raunar kallar beinlínis eftir því enda hafi viðbrögð við gagnrýni hans á Hæstarétt síðustu ár verið dræm. Þaðan kemur einmitt titill bókarinnar, Með lognið í fangið. Það verður spennandi að sjá hvort þessi nýja samantekt Jóns, með enn beittari tóni en fyrr, muni leiða til þess að það fari að hvessa.

Bókinni er skipt upp í átta kafla en í viðauka er að finna safn af greinum og pistlum sem Jón hefur birt í fjölmiðlum síðustu misserin. Í heild er bókin rúmlega 200 blaðsíður, en hún er afar læsileg og vel skrifuð. Jón Steinar skrifar skemmtilegan texta og þó að umfjöllunarefnið sé að mörgu leyti þungt þá ætti bókin að vera aðgengileg öllum hópum, ekki einungis áhugamönnum um lögfræði. Þá er bókin brotin upp reglulega með teiknuðum myndum, myndatextum og tilvitnunum sem lífga upp á hana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

433
Fyrir 10 klukkutímum

Það sem Ferguson sagði við leikmenn er hann hætti – Fjölmiðlar skemmdu fyrir

Það sem Ferguson sagði við leikmenn er hann hætti – Fjölmiðlar skemmdu fyrir
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Fékk sér húðflúr með nafni besta vinar síns sem féll frá í fyrra

Fékk sér húðflúr með nafni besta vinar síns sem féll frá í fyrra
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Þriggja bíla árekstur á Reykjanesbraut

Þriggja bíla árekstur á Reykjanesbraut
433
Fyrir 13 klukkutímum

Leikjahæsti leikmaður í sögu Fram mun þjálfa liðið

Leikjahæsti leikmaður í sögu Fram mun þjálfa liðið