fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Stefán kom að félaga sínum látnum: „Ég vissi að þetta væri hann en heilinn leyfði mér ekki að fatta það“

Auður Ösp
Fimmtudaginn 15. mars 2018 16:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í mörg ár var sektarkennd“

„Akkúrat á þessum tímapunkti þá vildi heilinn á mér ekki leyfa mér að átta mig á því að þetta væri hann,“ segir Stefán Jakobsson tónlistarmaður en hann varð fyrir átakanlegri lífsreynslu þegar hann var 19 ára gamall. Stefán var þá fenginn til að taka þátt í leit að þremur mönnum, eftir að bát þeirra hvolfdi á Mývatni. Nokkrum klukkustundum eftir slysið kom hann að einum þeirra, samstarfsfélaga í Kísiliðjunni, látnum í fjörunni.

Stefán er þekktastur sem söngvar þungarokksveitarinnar Dimmu en hann vinnur nú að sinni fyrstu sólóplötu. Í samtali við Harmageddon í morgun greindi Stefán frá því að eitt laganna á plötunni ber heitið Vatnið. Textinn í laginu er uppgjör hans við þessa lífsreynslu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Íslenskir miðlar greindu frá þessum hörmungaratburði í október árið 1999. Mennirnir þrír, sem fórust í slysinu höfðu farið út á vatnið um sex leytið að kvöldi til til að gera við slitinn ljósleiðara, en um var að ræða samstarfsfélaga Stefáns auk tveggja starfsmanna Landsímans.

Þegar líða tók á kvöldið fór veður snarversnandi með þeim afleiðingum að bátur þremenningana fórst. Umfangsmikil leit björgunarsveita og Landhelgisgæslu var sett á stað og var Stefán á meðal þeirra sem tóku þátt í leitinni.

Ljósmynd/Skjáskot af vef timarit.is
Ljósmynd/Skjáskot af vef timarit.is

„Ég er sendur með, ég var að vinna þarna á vatninu á þessum tíma og er sendur með þeim sem eru að leita,“ rifjar Stefán upp.

„Ég vissi í rauninni ekki neitt hvað ég var að fara að gera. Ég vissi ekki að ég væri að fara að leita að dánum mönnum. Ég hélt bara að ég væri að fara að sækja kallana.“

Hann segir mennina hafa verið á á litlum bát og í rauninni illa búnir. „Þeir fara bara í vatnið, báturinn sekkur. Það veit náttúrlega enginn nákvæmlega hvað gerðist vegna þess að enginn þeirra lifði af.“

Ljósmynd/Skjáskot af vef timarit.is
Ljósmynd/Skjáskot af vef timarit.is

„Um kvöldið fer ég svo að leita og rétt eftir miðnætti er ég að leita með einum kalli og finn samstarfsmann okkar í fjörunni. Hann liggur í klaka, svona sex metra frá bakkanum,“ rifjar Stefán upp og kveðst gera ráð fyrir að þarna hafi verið liðnar rúmlega fjórar klukkustundir frá því að báturinn fórst.

Ljósmynd/Skjáskot af vef timarit.is
Ljósmynd/Skjáskot af vef timarit.is

„Þá vissi ég alveg að hinir myndu ekki finnast á lífi heldur af því að ég vissi að þeir voru ekki í björgunarvesti. Þannig að þeir voru ekkert að fara að fljóta þarna yfir, það var rosa kalt og hrikalegt veður.“

Fram kemur í frétt Dags frá 28. október 1999:

„Í fyrrinótt fannst síðan lík eins mannsins þar sem það var við ísröndina ásamt braki úr bátnum. Hann var klæddur björgunarvesti en það munu hinir tveir ekki hafa verið og enginn þeirra í flotgalla. Þyrlan fann svo bátinn þar sem hann hafði sokkið um 300 metra frá frá landi.

Stefán kveðst ekki hafa meðtekið það strax að hann hafi verið að koma að félaga sínum látnum.

„Akkúrat á þessum tímapunkti þá vildi heilinn á mér ekki leyfa mér að átta mig á því að þetta væri hann. Það var svo mikill klaki í fjörunni að ég sá í raun bara vestið. Þannig að þessum tímapunkti þá vildi heilinn ekki segja: „Þarna er samstarfsfélagi þinn. Ég vissi alveg að þetta væri hann en heilinn leyfði mér ekki að fatta það.“

Stefán var í fylgd með öðrum manni við leitina en var að eigin sögn komin langt á undan honum á staðinn, enda léttur á fæti. Hann þurfti að dvelja aleinn í fjörunni um stund eftir að hann fann lík mannsins þar sem að talstöðin var biluð.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Þannig að ég var alveg aleinn þarna, ég veit ekki hvað lengi. Kannski tvær mínútur, kannski tíu mínútur, ég hef ekki hugmynd um það.“

Hann segir textann við lagið „Vatnið“ vera nokkurs konar lokauppgjör við þennan atburð og þetta augnablik þegar hann gerði sér grein fyrir alvarleika málsins.

„Fram að þessu hélt ég að þetta væri bara eitthvað stuð: við værum bara að fara að leita að þessum köllum og sækja þá og fara í kaffi,“ segir hann og bætir við að í mörg ár hafi hann fundið fyrir sektarkennd og átt erfitt með að horfast í augu við þessa lífsreynslu.

„Nú er ég orðinn sáttur við þennan atburð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun