Fókus

„Annaðhvort bugast maður eða rís upp“

Inga Sæland rifjar upp æskuna og segir frá hugsjónum Flokks fólksins

Ágúst Borgþór Sverrisson skrifar
Föstudaginn 11. ágúst 2017 19:00

Ýmislegt hefur drifið á daga Ingu Sæland sem ekki hefur farið hátt í fjölmiðlum. Til dæmis er hún fyrsta lögblinda konan sem útskrifast með BA-gráðu í lögfræði frá lagadeild HÍ en Inga er einungis með tæplega 10 prósent sjón vegna veikinda snemma í æsku. Í fyrra stofnaði hún Flokk fólksins sem hefur verið mikið í fréttum undanfarið vegna góðrar útkomu í skoðanakönnunum. Nýjasta könnun sýnir að flokkurinn fengi fimm menn kjörna ef kosið yrði til Alþingis nú. Enn fremur hefur Inga verið gagnrýnd fyrir að etja saman hælisleitendum og öryrkjum, nokkuð sem hún frábýður sér og telur vera grófar rangfærslur. Flokkur fólksins hefur verið kallaður popúlistaflokkur, en þá nafngift lætur Inga sér í léttu rúmi liggja.

Viðtalið fór fram á skrifstofu Flokks fólksins að Hamraborg 10. Látlaus og snyrtileg húsakynni, en úr norðurgluggum er frábært útsýni yfir Fossvoginn. Skrifstofan er sprungin utan af flokknum; hér er vandræðalaust hægt að halda fundi með um 60 manns en þörf er á mun stærri fundaraðstöðu. Flutningur bíður betri tíma og raunar bíður öll pólitík dálitla stund í þessu viðtali því fyrst viljum við fræðast um bakgrunn og ævi Ingu áður en hjólin fóru að snúast í pólitíkinni með stofnun flokksins í fyrra.

Í rauninni eru það algjör forréttindi að hafa fengið að alast upp í firðinum fagra, en ég var stundum lögð í einelti.

Nánast blind frá fimm mánaða aldri – einelti á Ólafsfirði

Inga er fædd á Ólafsfirði árið 1959 og bjó þar allar götur til ársins 1994 er hún flutti til Reykjavíkur, þá orðin 35 ára gömul.

„Faðir minn var verkamaður og sjómaður, átti litla trillu, dagróðrabát, og hann vann fyrir heimilinu eins og þá tíðkaðist. Mamma var heima með okkur fjögur börnin. Jólagjafirnar hjá mér voru nytsamar; ullarsokkar, vettlingar og kannski smá nammi með, það voru ekki Barbie-dúkkur, skautar eða hjól eins og hjá sumum öðrum börnum. Það var aðallega þannig sem ég fann að við höfðum ekki mikið á milli handanna. Hins vegar var alltaf nægur matur, mamma gaf okkur hafragraut og lifrarpylsu á morgnana og það var heitur matur í hádeginu og á kvöldin. En ávextir voru þá meiri lúxus en nú er og sáust bara á jólunum. Ég saknaði þess stundum að fá oftar ávexti þegar ég fann til dæmis appelsínulykt í skólanum. Við fengum líka sjaldan ný föt og vorum ekkert sérstaklega að tolla í tískunni, allt var nýtt sem hægt var að nýta,“ segir Inga og bætir við hlæjandi dálitlu dæmi um umhyggjusemi móður sinnar: „Hún gaf okkur alltaf meðal gegn njálg á haustin þó að ekkert okkar hafi nokkurn tíma fengið njálg. Hún var mikið í forvörnunum, hún mamma.“

Fimm mánaða gömul fékk Inga hlaupabólu með skelfilegum afleiðingum: „Ég fékk heilahimnubólgu upp úr því sem eyðilagði sjónstöðvarnar. Ég þekki ekki annað en að sjá mjög illa og er með tæplega 10 prósent sjón sem kallast lögblinda. Ég veit í rauninni ekki hvernig ég sé þótt ég sé stundum spurð um það, get ekki útskýrt það, þekki ekkert annað og er sátt við það, en mér finnst verst að vera í mikilli birtu því þá fæ ég alltaf ofbirtu. Ég sé best í hálfrökkri.“

Inga unir sér vel á flokksskrifstofunni.
Á vinnustaðnum Inga unir sér vel á flokksskrifstofunni.

Mynd: Brynja

Hvernig var að alast upp á Ólafsfirði?
„Í rauninni eru það algjör forréttindi að hafa fengið að alast upp í firðinum fagra, en ég var stundum lögð í einelti. Ég var alltaf með augun pírð út af því hvað ég sá illa, öll glennt í framan, og var strítt út af þessu. Það voru engin dökk gleraugu eða önnur úrræði fyrir sjónskerta krakka á þessum tíma. Svo skar ég mig líka úr á annan hátt, var mjög opin og alltaf syngjandi. Það er gert grín að börnum ef þau eru ekki eins og öll hin. En ég eignaðist frábærar vinkonur þegar ég óx úr grasi og það fékk mig til að gleyma fyrra áreiti. En eins og ég segi oft: Annaðhvort bugast maður eða rís upp undan áreiti, ég sjálf rís alltaf upp.“

Er að hugsa um að giftast honum aftur

Inga á fjögur börn með fyrrverandi eiginmanni sínum en þau giftust er hún var 18 ára og eignuðust fyrsta barnið þegar hún var 19 ára. Þau skildu fyrir mörgum árum.

„Ég og gamli erum samt ósköp góðir vinir í dag, hann hefur alltaf verið til staðar og tekið mér eins og ég er. Aldrei að vita nema ég biðji hans aftur innan tíðar því ekki yngjumst við með árunum. Ég hálfneyddi hann til að giftast mér í fyrra skiptið og hver veit nema það gerist aftur,“ segir Inga kankvís en þó að hún tali hér í léttum dúr er ljóst að hún ber hlýjan hug til fyrrverandi eiginmanns síns. Líf þeirra saman var ekki eintómur dans á rósum en erfiðleikarnir hófust fyrst fyrir alvöru með flutningnum til Reykjavíkur árið 1994:

„Hann handleggsbrotnaði þegar við vorum að flytja. Hann var þá að klára rafeindavirkjun og allt verklega námið þurfti að fara fram hér fyrir sunnan en bóklega hlutann tók hann í VMA. Ég var heima og sá um börn og bú. Það æxlaðist þannig að hann var handleggsbrotinn í sex ár vegna ítrekaðra læknamistaka. Sem dæmi fékk hann eitt sinn heiftarlega sýkingu undan stálplötu og skrúfum og þurfti að vera með lausa beinendana í heilt ár án þess að geta verið í gipsi. Við leituðum eftir aðstoð virts lögmanns hér í bæ varðandi mögulegt skaðabótamál en hann sló þetta út af borðinu þannig að eftir sat minn ástkæri og fjölskyldan öll með óbætanlegan skaða. Almenna reglan var sú á þessum tíma að læknamistök voru sjaldnast viðurkennd fyrir dómi. Þetta varð hins vegar til þess að öll okkar plön fóru í vaskinn og við lifðum í fátækt um tíma, leigðum hjá Öryrkjabandalaginu og þurftum að hafa fyrir því að öngla saman fyrir mjólkurpottinum og hrísgrjónapakkanum. Styrkurinn lá alltaf í samheldninni og yndislegu börnunum okkar sem aldrei á nokkrum tímapunkti hafa kvartað undan tilveru sinni og þeim tímabundnu erfiðleikum sem þau hafa gengið í gegnum með okkur.“

Lögfræði, sjómennska og söngur

„Á þessum tíma fór ég í nám, fyrst í öldungadeild MH og síðan í dagskóla. Eftir námið í MH fór ég í stjórnmálafræði við HÍ. Þetta var snúið þar sem engin bókleg úrræði voru í boði fyrir mig sem gætu komið til móts við sjónskerðingu mína. Ég lauk um 80 einingum í stjórnmálafræði og færði mig síðan yfir í lagadeildina. Þar neyddist ég til að viðurkenna vanmátt minn, ég einfaldlega gat ekki það sem ég var komin til að gera, engin úrræði voru í boði sem gátu aðstoðað mig við námið, ekkert lesefni var til staðar fyrir mig. Ég sneri aftur árið 2012 og tók upp þráðinn þar sem frá var horfið, og með hjálp Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir sjónskerta og blinda, sem prentaði allt námsefni og stækkaði fyrir mig, útskrifaðist ég með BA í lögfræði í fyrra, á afmælisdaginn hennar mömmu.“

Mynd: Brynja

Ég hef líka heyrt að þú hafir verið til sjós.
„Já, ég hef brallað margt þótt ég hafi aðallega verið heimavinnandi. Eitt sinn vantaði kokk á Ólaf Bekk. Edda vinkona var í heimsókn á Ólafsfirði og var til í að líta eftir börnunum fyrir mig á meðan ég skellti mér á sjóinn. Við fórum á Halann og mokfiskuðum. Bóndinn var þá á Sigurbjörginni og hafði farið út tveimur dögum á undan mér en ég kom á undan honum í land og með miklu hærri hlut!“

Inga tók síðan upp þráðinn í sjómennskunni löngu seinna, eða fyrir rúmlega áratug: „Ég varð kokkur á Sigurbjörgu og endaði með þeim í Barentshafi þrátt fyrir að halda að ég væri einungis að fara í hefðbundinn þriggja vikna túr hér á heimamiðum. Þetta var 40 daga úthald og ég var ein að elda ofan í 29 frábæra karla. Ég var hrikalega sjóveik á þessum tíma. Sem betur fer var spegilsléttur sjór í Barentshafinu en hvar sem hreyfði sjó varð ég veik. Strákarnir um borð voru rosalega hjálplegir. Það var ekkert grín fyrir mig svona sjónskerta að fara niður í frystinn og prika yfir allar rennurnar sem voru í veginum, en þeir voru svo sannarlega duglegir að sækja í matinn fyrir mig enda vildu þeir auðvitað fá að borða. Þegar ég var búin að vera þarna í um þrjár vikur þá var ég alveg tilbúin að búa þarna áfram. Mannskepnan er ótrúlega aðlögunarhæf og mér var farið að líða vel um borð. Okkur varð nú ekki um sel þegar öryggiseftirlitsmennirnir frá Murmansk stigu um borð með alvæpni. En við tókum vel á móti þeim og þeir gáfu skippernum glæsilega offiserahúfu og flösku af rússneskum vodka sem hann er ekki enn búin að opna. Þetta var ofsalega gaman – sérstaklega í endurminningunni. Ég hefði alveg verið til í annan túr.“

Eins og áður hefur komið fram hefur Inga verið sísyngjandi frá barnsaldri en hún hefur aldrei lært söng. Núna er nýkominn á Youtube baráttusöngur Flokks fólksins, Einn fyrir alla. Lagið er eftir Birgi Jóhann Birgisson. Blaðamaður hlýddi á lagið rétt fyrir viðtalið og óhætt er að segja að Inga syngur ljómandi vel. Við dveljumst ekki lengi við sönginn í spjalli okkar en það kemur fram að hún söng með nokkrum hljómsveitum á Ólafsfirði á unga aldri og tók síðan þátt í X-Factor árið 2006 þar sem henni vegnaði mjög vel og endaði í fjórða sæti. Inga segist hins vegar engan áhuga hafa á að taka þátt í slíku ævintýri aftur þó að alltaf finnist henni jafn gaman að syngja.

Samfylkingin brást

Þú stofnar Flokk fólksins í fyrra, hann tekur þátt í alþingiskosningunum, þinn málflutningur vekur athygli og flokkurinn fær vel mælanlegt fylgi. Hvarflaði einhvern tímann að þér þegar þú varst yngri að þú ættir eftir að stofna stjórnmálaflokk?

„Nei, aldrei. Afi minn var Alþýðuflokksmaður sem og öll mín fjölskylda. Hann bar alltaf út baráttublaðið Alþýðumanninn og af því blaði lærði ég að lesa fyrstu stafina. Ég var alltaf Alþýðuflokkskona og síðar gekk ég í Samfylkinguna og var í henni þar til ég sagði mig úr flokknum í fyrra um leið og ég stofnaði Flokk fólksins. Það er dálítið kaldhæðnislegt að núna ráðast engir harkalegar að mér eða dreifa um mig meiri óhróðri en Samfylkingarfólk. Þeir sem ég hélt að væru samstíga mér í hugmyndafræðinni. Það var greinilega misskilningur.“

En var Inga sátt eða ósátt við Samfylkinguna áður en hún yfirgaf hana?
„Ég var ósátt við hana eftir hrun því hún var í ríkisstjórninni þá og var annar hrunflokkana. Í þeirra umboði gerðist það sem gerðist. Í ríkisstjórninni sem tók við eftir hrunið þá stóð Samfylkingin ekki við gefin loforð, heldur þvert á móti. Hún sagðist ætla að reisa skjaldborg um heimilin en reisti með Steingrími úr VG skjaldborg um bankana og fjármálaöflin, en gjaldborg um heimilin. Þau tóku afstöðu gegn okkur, almenningi í landinu. Allir þessir hundruð milljarða á baki almennings sem við höfum þurft að borga, tíu þúsund fjölskyldur á götunni og eru enn að missa heimili sín. Þetta eru bara svik, hrein og klár svik.“

Á látlausri skrifstofunni.
Enginn íburður Á látlausri skrifstofunni.

Mynd: Brynja

Inga lýsir augnablikinu þegar hún ákvað endanlega að stofna nýjan flokk og ekki varð aftur snúið:
„Ég var með skólatöskuna á bakinu þegar ég heyrði frétt á RÚV um skýrslu UNICEF um fátæk börn á Íslandi. Þar kom fram að 9,1 prósent barna leið hér mismikinn skort. Ég fékk kökk í hálsinn, átti bágt með að trúa eigin eyrum og ákvað á því augnabliki að ég skyldi stofna stjórnmálaflokk til að berjast gegn þessari ömurlegu öfugþróun. Nú hefur komið í ljós að 25 prósent barnanna okkar búa við óviðunandi húsakost.

Ég fór strax að kynna mér hvað þyrfti til að stofna flokkinn og notaði til þess þá grunnþekkingu í lögfræði sem ég hef. Það kom fljótt í ljós að það er sáraeinfalt að stofna stjórnmálaflokk. Öllu erfiðara er að fá fólk með sér sem heldur áfram að draga með manni vagninn og heldur áfram að berjast. Það sem mér finnst svo fallegt við Flokk fólksins er að allan tímann hef ég getað staðhæft og staðið við það að við erum í þessu af hugsjón og engu öðru. Hér er enginn á launum. Ég hef aldrei unnið lengri vinnudag og nú og fyrir akkúrat ekkert kaup eins og ég hef gert fyrir Flokk fólksins síðan í janúar 2016.“

Þjóðarskömm að skattleggja fátækt

Við víkjum að helstu stefnumálum Flokks fólksins en þar ber einna hæst að lækka skatta á þá sem verst hafa kjörin jafnframt því að hækka örorkubætur. Inga vill að þeir lægst launuðu hafi skattleysismörk upp að 300.000 krónum:
„Það er þjóðarskömm að skattleggja fátækt. Það gengur ekki að segja að maður sé með 280.000 krónur frá almannatryggingum en taka síðan af því 60.000 í skatt. Að byrja að skattleggja fólk við tæplega 146.000 krónur er fráleitt. Fólk sem er með undir 300.000 krónum í tekjur á mánuði á ekki að borga skatt. Það þýðir ekki að básúna 300.000 króna lágmarkslaun um næstu áramót þegar útborguð laun verða einungis um 238.000. Við getum ekki lifað sómasamlega af því.“

Ég myndi a.m.k. vilja jafna það þannig út að þeir sem eru með miklu hærri laun myndu ekki fá að njóta þess að vera skattlausir upp að 300.000 krónum

Hvernig myndirðu fjármagna þessar skattabreytingar? Myndirðu hækka skatt á þá sem hafa hærri laun?
„Ég myndi a.m.k. vilja jafna það þannig út að þeir sem eru með miklu hærri laun myndu ekki fá að njóta þess að vera skattlausir upp að 300.000 krónum. Síðan er alltaf spurning hvernig útfærslan yrði til að stangast ekki á við jafnræðisreglu. Við myndum finna leiðir til þess. Ég vil líka að örorkubætur verði að lágmarki 300.000 krónur.“
Inga minnir á að áður voru bætur almannatryggingar ekki skattlagðar:

„Fram til 1988 voru almannatryggingabætur ekki skattlagðar. Þegar litið er til þess hvernig löggjafinn hefur ákveðið þróun almannatrygginga þá segir orðrétt samanber annan málslið 69. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007: „Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs“. Hér ætti ekki að vefjast fyrir neinum hvað átt er við með þessu ákvæði 69. gr., þ.e. ákvörðun þeirra á að taka mið af almennri launaþróun í landinu og þær eiga aldrei að hækka minna en sem nemur neysluverðsvísitölunni, en það er í raun varnaglinn í greininni, sá varnagli sem ríkisstjórnin notar alltaf þegar verið er að hækka laun hjá okkur. Ef þeir væru að taka mið af launaþróun eins og meginreglan er þá myndi þetta hækka miklu meira. Síðan fara þeir að skattleggja þetta. Ef hins vegar þróunin hefði orðið eins og hún hefði átt að vera þá fengi öryrki í dag ekki undir 320.000 krónum á mánuði til ráðstöfunar. Með þessu viðmiði erum við þó ekki að tala um þessa happdrættisvinninga sem kjararáð er að útbýtta til sérvalinna, heldur einungis um eðlilega launaþróun.“

Lífeyrissjóðirnir eiga að taka þátt í fjármögnun félagslegs húsnæðis

„Um 1.100 manns eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði. Það sem núverandi borgarstjórn hefur lagt áherslu á er að þétta endalaust byggð. Fyrir hvern? Þessar eignir eru mög dýrar. Hvernig í veröldinni á að vera hægt að metta markaðinn ef okrað er á lóðum? Þó að ég sé lögblind þá sé ég auðar lóðir hér um alla borg, svo er alltaf verið að segja að það sé lóðaskortur. Það er enginn lóðaskortur, það eina sem vantar er viljann til að bjóða lóðir án þess að okra á þeim.
Lífeyrissjóðir ættu að taka þátt í að fjármagna byggingu á félagslegu húsnæði í samvinnu við ríki og sveitarfélög. Meginatriðið er að metta markaðinn svo sjálfgræðgisfélög á borð við Gamma og Reiti hætti að græða á ástandinu. Við eigum að stemma stigu við græðgisvæðingu á húsnæðismarkaðnum því þetta er hræðileg þróun.

Við viljum endurvekja félagslega húsnæðiskerfið og hafa þetta í anda gömlu verkamannabústaðanna þar sem vextir voru lágir. Það verður að gera fólki kleift að standa í skilum. Það getur ekki einu sinni farið í greiðslumat. Ég er talin fær um að borga 140 þúsund krónur í húsaleigu af mínum rýru örorkubótum en ég myndi ekki fá greiðslumat til að borga 140.000 krónur í mánaðarlegar afborganir af láni til eigin íbúðarkaupa.“

Inga minnir á að á meðan stjórnvöld stæra sig af velmegun í landinu sé um þriðjungur þjóðarinnar í basli: „Þorsteinn Víglundsson velferðarráðherra gefur það út að meðallaun í landinu séu 719.000 krónur. Þetta er móðgun við þjóðina. Þarna er verið að taka inn í jöfnuna milljónamæringa með margar milljónir og jafnvel milljónatugi í mánaðarlaun. Þeir eru að láta fólk fá 100.000 krónum minna útborgað á mánuði en sem nemur yfirlýstum viðmiðum velferðarráðuneytisins um lágmarksframfærslu. Þeir vinna ekki vinnuna sína. Þeir fara bara í langt sumarfrí.“

Hverju svararðu þeim sem myndu segja að ef lífeyrissjóðirnir fjárfesti of mikið í félagslegu húsnæði þá geti þeir ekki staðið við skuldbindingar sínar?
„Það er aðeins eitt sem lífeyrissjóðirnir hafa aldrei tapað á, aðeins eitt þar sem ávöxtunarkrafa þeirra hefur alltaf verið uppfyllt: Það er þegar þeir hafa lánað til eigenda sinna. Hins vegar getur maður spurt sig: Hvernig réttlæta þeir áhættufjárfestingu á borð við þá að stíga inn þegar stjórnendur og innherjar selja bréf sín í Högum vegna titrings á markaði með tilkomu Costco? Kaup þeirra í Högum voru hrein og klár áhættufjárfesting og hafa bréfin sem þeir keyptu þegar fallið um 32 prósent á þremur mánuðum. Lífeyrissjóðirnir hafa nú þegar tapað hátt í 12 milljörðum króna á þessum gjörningi. Það má minna á að lífeyrissjóðirnir fjárfestu í fatabúð í London og töpuðu við það 600 milljónum króna. Þeir hafa og viðurkennt að hafa tapað ríflega 600 milljörðum á hruninu. Hugsið ykkur hvernig okkur hefur verið haldið utan við umræðuna um það hvernig raunverulega er verið að „gambla“ með og misnota lífeyrissjóðina. 3.600 milljarðar eru eign okkar í þessu kerfi sem stjórnendur þess bera akkúrat enga virðingu fyrir. Tökum til dæmis lögboðaða staðgreiðslu skatta, almenna reglan er jú sú að af öllum skuli taka staðgreiðslu, en að sjálfsögðu þarf að koma með undanþágu fyrir einhverja sérútvalda, því þegar þú greiðir í lífeyrissjóð þá er ekki greidd staðgreiðsla af því, heldur er hún framkvæmd þegar þú færð útborgað úr sjóðnum, þ.e.a.s. ef þú lifir það lengi að geta yfirhöfuð nýtt þér þau áunnu réttindi sem þú hefur verið að stofna til í gegnum lífið. Í millitíðinni fær lífeyrissjóðurinn að „gambla“ með staðgreiðsluna af því sem tekið er af okkur. Þannig að ef þú deyrð eftir að hafa borgað milljónir inn í lífeyrissjóðinn og aldrei verið greiddur skattur af því inn í okkar sameiginlega sjóð, þá hverfur það í hítina.

Kaup þeirra í Högum voru hrein og klár áhættufjárfesting og hafa bréfin sem þeir keyptu þegar fallið um 32 prósent á þremur mánuðum.

Tökum til dæmis Framtakssjóðinn sem nýverið var að greiða starfsmanni sínum 20 milljónir í mætingarbónus fyrir að hafa afrekað það að mæta í vinnuna í þrjú ár. Þessi sjóður var einungis stofnaður á sínum tíma til að halda utan um eignirnar sem lífeyrissjóðirnir voru að safna á brunaútsölu eftir hrun. Í dag heldur sjóðurinn utan um tvær eignir og kostnaður við það er um 200 milljónir króna. Það ætti að vera sjálfsögð krafa lífeyriseigenda að þessi sjóður verði lagður niður á stundinni og eignirnar færðar til. Það er sama hvert litið er, spillingin flæðir út um allt og er svo gífurleg að það er ekki nokkur leið að líta undan.“

Mun hafa mikil áhrif hvort sem flokkurinn sest í stjórn eða stjórnarandstöðu

„Við erum ekki inni á þingi í dag en samt erum við að mínu mati öflugasta stjórnarandstaðan. Það er orðið svo lítið um hugsjónir. Þegar fólk er komið í álnir er eins og leggist yfir það einhver hula og það virðist eiga erfitt með að stíga niður til okkar hinna og horfast í augu við raunverulega stöðu almennings í landinu, fólksins sem það á að vera að vinna fyrir,“ segir Inga og segir að Flokkur fólksins muni hafa mikil áhrif hvort sem hann verður í stjórn eða stjórnarandstöðu.

„Stjórnarsamstarf snýst um málamiðlanir og auðvitað verða allir að gefa eftir. Þetta er eins og í hjónabandinu: maður getur ekki fengið allt sitt fram. En við munum aldrei gefa eftir þær kröfur að ráðist sé gegn fátæktinni í landinu og stungið á spillingarkýlunum. En hvað eru í rauninni margir tilbúnir til þess?“

Inga telur það misskilning að þingmenn í stjórnarandstöðu séu áhrifalausir: „Ég ætla ekki bara að sitja í stjórnarandstöðu til að hafa hægt um mig. Ég mun leggja fram þingmál eftir þingmál og ef meirihlutinn bregst við því með því að svæfa mál í nefndum eða stinga þeim undir stól þá mun ég halda öllu slíku til haga. Eftir eitt kjörtímabil koma kosningar að nýju og þá yrði vandlega rifjað upp hvernig fólk tók á málunum á nýloknu kjörtímabili.“

Búum í fjölmenningarsamfélagi

Inga vísar á bug ásökunum um að hún sé að etja saman hælisleitendum og öryrkjum, en gagnrýni hennar á störf Útlendingastofnunar hafa vakið hörð viðbrögð hjá mörgum.

„Við búum í fjölmenningarsamfélagi þar sem 10,6 prósent þjóðarinnar eru af erlendu bergi brotin og þetta frábæra og duglega fólk hefur hjálpað okkur að byggja upp samfélagið eins og við þekkjum það í dag. Það sem ég hef hins vegar gagnrýnt er að hér eru hælisleitendur látnir bíða í eitt, tvö eða jafnvel þrjú ár áður en þeir fá svar við umsóknum sínum og þá oftar en ekki er þeim vísað úr landi. Þessi bið er klár mannvonska að mínu mati. Mér blöskrar það þegar fjölskyldur með ung börn sem eru búnar að aðlagast samfélaginu og vinna hér baki brotnu, jafnvel farnar að tala íslensku, eru sendar úr landi.“

Norðmenn hafa hina svo kölluð 48 stunda reglu og telur Inga hana mun manneskjulegri en þá óvissu sem ríkir hér í málaflokknum. Sú regla felur í raun í sér að þeim sem eiga ekki rétt á hæli er vísað tafarlaust úr landi. Þeir sem fá hæli fá hins vegar úrlausn sinna mála fljótt.

„Ég á eftir að spyrja þessa háu herra sem eru að kalla mig öllum illum nöfnum: Vilja þeir hafa þetta einhvern veginn öðruvísi? Vill Logi Einarsson, minn fyrrverandi flokksbróðir, hafa þetta einhvern veginn öðruvísi? Þeir segja að ég sé að etja saman hælisleitendum og öryrkjum, það er ósatt, það er einungis þannig sem þeir kjósa að túlka það sem ég segi, spurning hvaða stimpil þeir vilja setja á sjálfa sig. Fólki væri nær að snúa bökum saman um þær hugsjónir að útrýma hér fátækt en að reyna að ata okkur auri og snúa út úr málflutningi mínum.“

Með harðan skráp en þó viðkvæm undir niðri

Inga Sæland er annáluð baráttukona sem kann að svara fyrir sig. Hún er í senn hörð og mjúk. Hún er þekkt fyrir hjálpsemi og hefur nýtt nýfengna lögfræðiþekkingu sína til að aðstoða fólk sem á um sárt að binda og á erfitt uppdráttar gegn kerfinu. Hún má hvergi aumt sjá og hefur líka eytt ómældri fyrirhöfn í að hjúkra lasburða gæludýrum sem örlögin hafa rekið til hennar.

En þrátt fyrir baráttuandann og hörkuna er stutt í viðkvæmnina og hún játar fyrir blaðamanni að gagnrýnin sem hún hefur orðið fyrir undanfarið hafi fengið nokkuð á hana:
„Það er þannig að ég hef orðið fyrir því að missa marga kæra ástvini af slysförum. Bróðir minn drukknaði á Siglufirði árið 1988, ég missti mág minn í slysi nokkru síðar og tengdason minn árið 2010. Þetta er ansi mikil sorg að bera og stundum þegar ég verð fyrir mótlæti eða stend í deilum þá blossar upp þessi sársauki í mér og gerir mig meyra.“

Inga er tilfinningarík kona. Það fer ekki framhjá blaðamanni sem á með henni þessa viðtalsstund á skrifstofu Flokks fólksins frá hádegi föstudaginn 4. ágúst. Við sitjum saman í eitthvað á annan tíma. Nærvera hennar er allan tímann afskaplega þægileg. Það er stutt í brosið og gamansemina og þó að við höfum aldrei hist áður, eingöngu talað saman í síma, streyma hlýir og afslappaðir straumar milli okkar. Við föðmumst að lokum og óskum hvort öðru góðrar helgar áður en við kveðjumst, ég til að skrifa greinina á meðan Inga Sæland safnar kröftum og býr sig undir næstu átök í sínu pólitíska starfi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Fókus
Fyrir 15 mínútum síðan
„Annaðhvort bugast maður eða rís upp“

„Hún var alltaf svo happy þetta helvíti“: Edda Björgvins sýnir á sér hina hliðina

Fókus
Fyrir 8 klukkutímum síðan
„Hún var alltaf svo happy þetta helvíti“: Edda Björgvins sýnir á sér hina hliðina

Ótrúlegur árangur – Par missti 175 kíló saman á einu ári

Fókus
Fyrir 10 klukkutímum síðan
Ótrúlegur árangur – Par missti 175 kíló saman á einu ári

Elma Sól var fórnarlamb ofbeldis: „Hann rændi mig æskunni“

Fókus
Fyrir 12 klukkutímum síðan
Elma Sól var fórnarlamb ofbeldis: „Hann rændi mig æskunni“

Scintilla Hospitality, Skipholti 25: Sérhannaðar gæðavörur til hótela og gististaða

Fókus
Fyrir 13 klukkutímum síðan
Scintilla Hospitality, Skipholti 25: Sérhannaðar gæðavörur til hótela og gististaða

Langar þig í Páskaegg nr. 11 frá Góu: Taktu þátt í dag!

Fókus
Fyrir 14 klukkutímum síðan
Langar þig í Páskaegg nr. 11 frá Góu: Taktu þátt í dag!

Einstök mottulistaverk til stuðnings Krabbameinsfélagi Íslands

í gær
Einstök mottulistaverk til stuðnings Krabbameinsfélagi Íslands

María Birta er pankynhneigð: „Breytist klárlega ekki neitt við það að hafa fundið sálufélaga minn í karlmanni“

Fókus
í gær
María Birta er pankynhneigð: „Breytist klárlega ekki neitt við það að hafa fundið sálufélaga minn í karlmanni“

Sunna Rós lenti í alvarlegri bílveltu með dóttir sína í bílnum: „Ég veit við munum velta útaf og deyja“

Mest lesið

Ekki missa af