fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fókus

Guðmundur heimilislæknir er ósáttur við Læknafélagið: „Andstaðan við veipur stafar bara af þekkingarleysi“

Ari Brynjólfsson
Miðvikudaginn 21. nóvember 2018 20:00

Þessi veipar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Læknafélag Íslands vill að sala á rafrettum, eins og hún er í dag, verði stöðvuð án tafar. Ef ekki þá verði árangurinn sem Íslendingar hafa náð í að minnka tóbaksreykingar barna að engu. Í ályktun LÍ frá aðalfundi félagsins nýverið segir að það þurfi að bregðast við í ljósi nýbirtra lýðheilsuvísa frá Landlækni sem sýna að ríflega einn af hverjum fimm tíundu bekkingum reyktu rafrettur einu sinni eða oftar í mánuði. Núverandi fyrirkomulag sé óásættanlegt þar sem rafrettur séu hættulegar og það eigi að einskorða sölu á rafrettum og rafrettuvökva við apótek til að það sé aðeins hægt að nota þessi tæki sem hjálpartæki til að hætta að reykja tóbak. Þessu eru ekki allir læknar sammála. Það er óhætt að fullyrða að læknar séu sammála um að rafrettur séu skaðminni en tóbaksreykingar, en spurningin er hvort rafretturnar séu að eyðileggja árangurinn í tóbaksforvörnum og hvort þær geri það að verkum að ungmenni leiðist út í tóbaksreykingar.

Reynir Arngrímsson, formaður LÍ, segir í samtali við DV að það megi víða sjá árangurinn í að minnka sígarettureykingar ungmenna. Vísar hann í skýrslu frá Rannsóknum og Greiningu frá 2015: „Þar sjáum við að góður árangur í tóbaksvörnum meðal barna hafði náðst áður en rafrettur komu á markað og þær náðu útbreiðslu. Það er því ekki hægt að halda fram að minnkun tóbaksreykinga hjá börnum á þessum aldri sé tengd rafrettunotkun. Það er hreinlega rangt. Sá árangur hafði náðst áður og var til staðar þegar farið var að selja þessi efni hérlendis.“

Árangurinn neftóbaki og veipum að þakka

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, sérfræðingur í heimilislækningum, segir í samtali við DV að með þessu áliti um takmörkun á sölu sé Læknafélagið að reyna að koma í veg fyrir að fólk hætti að reykja. „Þetta stafar auðvitað bara af þekkingarleysi. Ég velkist ekki í vafa um að þau samþykki þetta álit í góðri trú, en veip er bara svo margfalt heilsusamlegri kostur en að reykja. Það eru engar rannsóknir sem benda til þess að veipið sé að leiða ungmenni út í tóbaksreykingar. Ég óttast það að ef aðgengi að veipum yrði skert þá séum við að loka útgönguleiðum frá reykingum og þá fyrst munum við sjá árangurinn verða að engu,“ segir Guðmundur

Guðmundur Karl Snæbjörnsson, sérfræðingur í heimilislækningum.

Karl.

„Þetta stafar auðvitað bara af þekkingarleysi. Ég er í engum vafa að þau samþykki þetta álit í góðri trú, en veip er bara svo margfalt heilsusamari kostur en að reykja. Það eru engar rannsóknir sem benda til þess að veipið sé að leiða ungmenni út í tóbaksreykingar. Ég óttast það að ef aðgengi að veipum yrði skert þá séum við að loka útgönguleiðum frá reykingum og þá fyrst munum við sjá árangurinn verða að engu,“ segir Guðmundur Karl. „Þessi árangur sem við höfum náð hér á landi er nefnilega engu öðru að þakka en munntóbakinu og veipunum, engu öðru.“

Guðmundur telur ályktun LÍ byggða á hræðslu við fikt unglinga, dregur hann í efa tölur úr lýðheilsuvísum Embættis landlæknis um að einn af hverjum fimm tíundubekkingum hefði notað rafrettu síðastliðinn mánuð. „Unglingur sem prófar veip í partíi eða fær að smakka hjá vini sínum þá er talað um viðkomandi sem notanda. Svona brenglun á raunveruleikanum gengur bara ekki upp og hræða. Til að setja hlutina í samhengi þá hafa nær allir unglingar fundið á sér af áfengi en við erum ekki að tala um neinn faraldur í því samhengi.“

Guðmundur Karl segir að árangur fram til ársins 2014 megi að miklu leyti rekja til notkunar ungmenna á neftóbaki sem notað sé sem munntóbak. „Ég vinn í Svíþjóð, þar sjáum við mikla og stöðuga heildarnotkun á tóbaki en sá heilsufarslegur árangur sem felst í að minnka reykingar er fyrst og fremst snusinu að þakka. Hér á landi hefur sala neftóbaks aukist um 330% frá árinu 2001. Á þeim tíma sjáum við hraða niðursveiflu á reykingum í öllum aldurshópum, yngri sem eldri. Frá því að veipið fór að ryðja sér til rúms þá hafa tölur yfir reykingar ungmenna hrunið. Reykingar tíundubekkinga héldust óbreyttar í 10 prósentum um nokkurra ára skeið. Síðan hrundu þær tölur og í dag komnar niður í aðeins 1,7%. Við erum að tala um heil 60% frá 2016 til 2018. Á sama tímabili hurfu nánast tölur yfir 14 ára sem reykja. Þessi árangur sem við höfum náð hér á landi er nefnilega engu öðru að þakka en munntóbakinu og veipunum, engu öðru.“

Hann lítur ekki á sig sem talsmann rafrettna að öðru leyti en til að hjálpa fólki að hætta að reykja. „Þetta snýst allt um að koma í veg fyrir dauða fólks og því markmiði erum við öll sammála. Hundruð manns deyja hér á ári af völdum reykinga. Fólk er ekki að deyja af völdum munntóbaks eða veipa. Við þekkjum engan skaða af veipi hingað til og nýjustu rannsóknir sína ekki neina alvarlega sjúkdóma af munntóbakinu. Við erum að tala um 98% skaðlausara en reykingum. Engan skaða af veipi sem hafa verið á markaðnum á annan áratug, yfir 40 miljónir notenda, þúsundir rannsókna og tugir miljóna sem hafa náð að hætta reykja með þeim. Enginn skaði komið fram, nema ef væri erting í hálsi fyrir einstaka notendur sem einfalt að bregðast við með breyttu hlutfalli vökvans. Við höfum bara ímyndaðan framtíðarskaða sem er þó hverfandi ef nokkur verður í samanburði við reykingarnar.“

Harðlega gagnrýndur

Guðmundur Karl vill lítið blanda sinni persónu inn í umræðuna. Hann er umdeildur meðal lækna fyrir afstöðu sína í þessum málum, honum var úthýst úr 1.600 manna hópi íslenskra lækna á Facebook og kærður til siðanefndar Læknafélagsins af læknum Krabbameinsfélags Íslands. Hann hefur fengið hótunarbréf frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni fyrir afstöðu sína og segir að hann hafi fengið harða gagnrýni á sig persónulega.

„Ef einhver hefði sagt mér fyrir nokkrum árum að ég yrði einhver talsmaður fyrir rafrettur eða gegn tóbaksneyslu þá hefði ég sennilega hlegið einna mest að því. Ég fór að lesa mér til um þetta og kynnti mér málið til hlítar, síðan ákvað ég að tala fyrir þessu því að þetta skiptir þúsundir manns máli, heilbrigði fólks og ótímabæra dauðdaga. En af ýmsum ástæðum erum við því miður oft orðin hálf dofin fyrir þeirri staðreynd. Ég er alls ekki eini læknirinn á þessari skoðun hér á landi, það eru bara ekki margir aðrir sem vilja taka þennan slag. Ég skil það vel miðað við þann óhróður og árásir sem ég fengið á mig og gerði mér grein fyrir hvað ég var að koma mér út í, þegar í upphafi, vegna eðli málsins.“

Getur verið að þú hafi rangt fyrir þér?

Guðmundur hlær og segir: „Ég hef verið spurður að þessu áður, auðvitað ekki. En við skulum ekki halda að við vitum hinn endanlega sannleik, það bætist við. Þannig eru vísindin, stöðug hreyfing í þeirri þróun. Eitt er þó víst að við vitum miklu meira í dag en að það sé á nokkurn hátt réttlætanlegt að við sitjum með hendur í skauti og horfum á fólk veikjast og deyja fyrir aldur fram, eða reyna halda aftur af fólki sem vill breyta til bætts heilsufars. Standa í vegi fyrir fólki með þeim hætti er einfaldlega siðlaust. Gleymum ekki heldur að allar lækningar, kannski með undantekningu meðferðar sýklalyfja, eru í raun allt skaðaminnkandi aðgerðir.“

Þegar fólk notar rafrettu blæs það ekki frá sér reyk heldur gufu. Guðmundur Karl segir að gufan sé skaðlaus öðrum í umhverfinu og það sé rangt að hún sé ertandi fyrir lungu. „Gufan er 99,7% vatnsgufa og sykra. Afgangurinn er snefilefni sem eru engum hættuleg og langt innan viðurkenndra viðmiðunarmarka. Það hefur ekki einu verið hægt að mæla magn nikótíns í sumum rannsókna. Það myndi vera þér skaðlaust með öllu þótt það væru 10 manns inni með þér í herbergi að veipa, en til samanburðar, með því að vera í herbergi með sígarettureyk í þrjá tíma þá færðu í þig sama magn af nikótíni og er í einum tómat.“

Áhrifin svipuð og af kaffi

Því hefur verið haldið fram að ef ungmenni byrja að nota veip án nikótíns til þess að falla inn í hópinn leiði það til notkunar á nikótíni og á endanum til reykinga. Því hafnar Guðmundur alfarið. „Þetta virkar ekki þannig með veipur. Án þess að fara djúpt ofan í fíknilækningar þá er ekkert sem bendir til þess að ungmenni sem byrja að veipa fari út í að reykja sígarettur. Fólk hefur áhyggjur af því að það gerist en það er alls ekki þannig. Það er líka miklu auðveldara að hætta að veipa en að reykja.“

Nikótínið sjálft, er það ekki skaðlegt? Til dæmis fyrir æðakerfið?

„Við munum seint ef nokkurn tímann koma til með að finna neina sjúkdóma af völdum nikótínsins sjálfs. Engin í dag. Áhrifin af nikótíni á æðakerfið er svipað og af kaffi. Jafnvel vægari.“

Erum við að tala um eitthvað svipað og magn af blásýru í möndlum?

„Það eru öll efni skaðleg í of miklu magni, svona fræðilega séð, en sem betur oftast þegar farið er út fyrir raunveruleikasviðið. Vatn nauðsynlegt til að lifa, en getum drukknað líka í vatni. Nú eru menn að tala um að það mælist formalín í veipgufu, það er vissulega efni sem notað er við varðveislu líka en þetta er líka efni sem við öll öndum frá okkur, ekki reykjandi, veipandi heldur allir. Í raun efni sem er nauðsynlegt efnahvörfum alls lífsins, bæði í dýra- og plönturíkinu. Án þess deyjum við samstundis. Þetta er í svo ótrúlega litlu magni í útöndunarlofti og við eðlilegar aðstæður í veipugufu að það tekur því ekki að tala um það.“

Engin lög banna rafrettur innandyra. „Í nýju lögunum sem taka gildi 1. mars á næsta ári þá er fyrirtækjum og veitingahúsum í sjálfsvald sett hvort þau banni veip innandyra eða ekki. Það er hins vegar almenn kurteisi að veipa ekki þegar fólk vill það ekki, gildir engu hvort um gufan sé skaðlaus.“

Ert þú að segja að stjórnvöld á Íslandi og læknar séu að beita sér gegn vöru sem er skaðlausari en kaffi og getur komið í veg fyrir dauða hundruð manns á ári?

„Já. Það er alveg hárrétt. Ef við erum að tala um einhverja hættu sem stafar af veipi þá er það hugsanlega tengt einstaka bragðefnum. Þau geta verið mjög mismunandi, en þá erum við að tala um hverfandi áhættu samanborið við skaðsemi tóbaksreykinga. Sumir krydda matinn sinn, jafnvel á ólíkan hátt og mismunandi, og nota jafnvel mismunandi liti við matargerðina til að auka lystaukann. Er það rangt?“

Guðmundur Karl andvarpar djúpt þegar hann er spurður hvers vegna það sé þá í gangi herferð gegn veipum. „Engin einföld skýring, en þetta er bara erfitt fyrir tóbaksvarnafólkið, hugmyndakerfi þeirra til áratuga eru bara ekki að gera sig lengur, það situr eftir fastir í úreltum hugmyndaheimi tóbaksvarna á meðan fólk sér um þetta sjálft og hættir að reykja út frá eigin vali, ekki út frá þvingunum. Allir vita að reykingar skaða heilsuna og drepa fólk. Andstaðan við veipur stafar bara af þekkingarleysi. “

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“

Margrét Friðriks tekur upp nýtt nafn – „Finnst það koma með ferskan blæ inn ì mitt líf“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun