fbpx
Fókus

Ingvar Þór færði ljósmæðrum einstaka gjöf fyrir að koma syni hans heilbrigðum í heiminn

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 12. október 2018 16:30

Ingvar Þór og Ragna Sólveig ásamt syninum og dóttur Ingvars Þórs.

Ingvar Þór Gylfason hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir einstakar myndir sem hann hefur málað síðastliðin tvö ár, en hann er sjálfmenntaður í listinni. Af þeim málverkum sem hann hefur málað er þó eitt sem stendur hjarta hans nær en önnur, Ljósið, málverk sem hann færði ljósmæðrum sem þakklætisvott fyrir að koma syni hans heilbrigðum í heiminn.

„Það eru tvö ár síðan ég byrjaði að mála á striga, en ég hef teiknað síðan ég var barn. Ég hef alltaf verið góður að teikna og verið í alls konar list í gegnum árin,“ segir Ingvar aðspurður um þennan hæfileika sem hann opinberaði fyrir tveimur árum, en hann vinnur sem verkfræðingur hálfan daginn og ver hinum helmingnum í að mála, smíða og skapa það sem honum finnst skemmtilegt.

„Þetta byrjaði þannig að ég, Ragna Sólveig Þórðardóttir, unnusta mín, systir hennar og dóttir mín, vorum í útilegu árið 2016. Við keyptum liti og pappír fyrir stelpurnar til að lita og í einhverju gríni málaði ég vatnslitamynd af norn. Þá sagði unnusta mín að ég yrði að kaupa liti og striga og fara að mála af alvöru. Hún ýtti mér í að opna Facebook-síðu og síðan þá er þetta búið að vera eins og einhver lygasaga. Viðtökurnar hafa verið mjög góðar og oft eru myndirnar seldar áður en ég er búinn að mála þær. Þetta er ótrúlegt fyrir mig.“

Ingvar málar flestallt, og mikið eftir pöntunum, þótt honum finnist skemmtilegra að mála frjálst og á tveimur árum er hann búinn að mála og selja eða gefa um 200 myndir. „Ég mála dansara, ballerínur, hesta, fugla, Star Wars-myndir. Ég hef prófað landslag, maður prófar flest allt.“

Ljósmæður veittu Ingvari Þór og Rögnu einstakan kærleik og þjónustu

Í lok september í fyrra kom sonur Ingvars Þórs og Rögnu í heiminn, annað barn hans og fyrsta barn hennar. „Það þurfti inngrip, þar sem hann var í erfiðleikum með að komast í ljósið. Unnusta mín var svæfð og þurfti að gangast undir bráðakeisara og það var mikill hamagangur,“ segir Ingvar Þór.

„Við þurftum að reiða okkur á ljósmæður bæði í fæðingunni og í eftirleiknum, bæði upp á andlega heilsu hennar og mína, og hún með líkamann. Það var ótrúlegt og maður átti aldrei orð yfir hvað maður fékk mikinn kærleik og þjónustu frá þeim. Ellen Bára var með okkur í heimaþjónustunni og það var ótrúleg lukka að hafa hana. Hún bjargaði okkur bara – maður kom heim úr svona rosa inngripi og konan gat ekki hlúð að barninu. Ég sá bara að það hefði verið auðvelt að fara einhverja erfiða leið andlega. Einnig var fjöldi spurninga sem brann á okkur. Maður skilur ekki hvað þetta er dýrmætt fyrr en maður þarf á því að halda. Ellen Bára kom til okkar að kvöldi til. Hún sendi mig út að kaupa lyf og var svo heilt kvöld hjá okkur af því að hún sá að við þurftum á aðstoð að halda.“

Þegar kjarabarátta ljósmæðra stóð sem hæst fékk Ingvar Þór þá hugmynd að mála mynd handa þeim og gera eftirprentun af henni til að selja og ágóðinn færi í verkfallssjóð ljósmæðra. Eftir að þær sömdu ákvað hann hins vegar að gefa þeim málverkið sem þakklætisvott. Verkið hangir þar sem gengið er inn á sængurlegu- og fæðingardeild Landspítalans.

Ingvar Þór hefur einnig verið duglegur að gefa myndir og bjóða upp málverk fyrir margs konar málefni. „Í fyrra bauð ég upp eina mynd í mánuði og gaf til Krabbameinsfélagsins um 900 þúsund krónur. Það er mikilvægt að gefa af sér.“

Ragna Gestsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Fjórða Naked Gun myndin í vinnslu – verður Bill Hader nokkuð Drebin?

Fjórða Naked Gun myndin í vinnslu – verður Bill Hader nokkuð Drebin?
Fókus
Fyrir 14 klukkutímum

Sveinn Hjörtur er kominn í hundana – Gengur daglega með hunda úr hundaathvarfi

Sveinn Hjörtur er kominn í hundana – Gengur daglega með hunda úr hundaathvarfi
Fókus
Í gær

Vinkonuhópur klæðir sig í mismunandi gervi sama leikara á hrekkjavöku – Útkoman er frábær!

Vinkonuhópur klæðir sig í mismunandi gervi sama leikara á hrekkjavöku – Útkoman er frábær!
Fókus
Í gær

Lestrarvinir er skemmtilegt verkefni sem sameinar fjölskyldur og bókelska sjálfboðaliða

Lestrarvinir er skemmtilegt verkefni sem sameinar fjölskyldur og bókelska sjálfboðaliða
Fókus
Í gær

Elín Kára – „Ert þú alltaf að hætta þegar upprunalega planið gengur ekki upp í fyrstu tilraun?“

Elín Kára – „Ert þú alltaf að hætta þegar upprunalega planið gengur ekki upp í fyrstu tilraun?“
Fókus
Í gær

Tókstu eftir öllum þessum draugum í The Haunting of Hill House?

Tókstu eftir öllum þessum draugum í The Haunting of Hill House?
Fókus
Í gær

Fjölmenni í 10 ára afmæli UNICEF og Te & Kaffi – 10 daga söfnunarátak

Fjölmenni í 10 ára afmæli UNICEF og Te & Kaffi – 10 daga söfnunarátak
Fókus
Í gær

Ragga nagli – „Föstur eru að eiga sitt stjörnumóment í sviðsljósinu um þessar mundir“

Ragga nagli – „Föstur eru að eiga sitt stjörnumóment í sviðsljósinu um þessar mundir“