Hans Fróði Hansen, fyrrverandi landsliðsmaður Færeyja í knattspyrnu, hefur verið dæmdur í þriggja ára og níu mánaða fangelsi fyrir aðild að viðbjóðslegu kynferðisbrotamáli. Dómur í málinu var kveðinn upp í Lyngby í Danmörku í morgun.
Hans Fróði lék á Íslandi um tíma. Sumarið 2004 spilaði hann 13 leiki með Fram og sumarið 2005 spilaði hann 15 leiki með Breiðablik. Þá spilaði hann 26 landsleiki fyrir Færeyjar.
Í frétt BT í Danmörku kemur fram að Hans Fróði hafi verið fundinn sekur um að hvetja 43 ára konu til að brjóta kynferðislega á barnungum syni sínum. Þetta gerði hann í gegnum spjallforrit á netinu, en brotin sem Hans Fróði var sakfelldur fyrir fóru fram á tímabilinu júní til september á síðasta ári. Var hann sakaður um að hvetja konuna í alls 41 skipti til að brjóta á drengnum.
Hans Fróði er sagður hafa haldið fram sakleysi sínu í málinu og talið að hann væri að ræða við konuna um fantasíur og draumóra. Dómarar í málinu voru því ekki sammála og sögðu að enginn vafi léki á því um hvað samtölin snerust og hvert markmiðið með þeim var.
Hans Fróði er sagður hafa beðið um nektarmyndir af bæði móður og syni og myndir af brotum móðurinnar á drengnum. Móðir drengsins var sakfelld í þessu sama máli í mars síðastliðnum og hlaut hún, eins og Hans Fróði, þriggja ára og níu mánaða fangelsi.
Saksóknari í málinu, Bente Schnack, fór fram á fimm ára fangelsi því hann taldi að Hans Fróði hafi ráðið ferðinni í samskiptunum. Dómari taldi hins vegar að bæði hann og móðir drengsins væru í raun jafn sek og jafn ábyrg gjörða sinna.
Auk þess að sæta þriggja ára fangelsi var Hans Fróði dæmdur til að greiða fórnarlambinu hundrað þúsund krónur danskar, tæplega 1,7 milljónir íslenskra króna. Lögmaður Hans Fróða segir að dómnum verði áfrýjað.