Iryna Zarutska, 23 ára kona frá Úkraínu, var á leið heim úr vinnu þetta örlagaríka kvöld þegar hinn 35 ára gamli Decarlos Brown Jr. stakk hana fyrirvaralaust í hálsinn.
Á hrollvekjandi upptöku úr öryggismyndavél í vagninum sést þegar Iryna situr í símanum í sæti sínu og fyrir aftan hana situr Decarlos. Hann dregur skyndilega upp eggvopn og stingur Irynu beint í hálsinn. Hann sést svo ganga í rólegheitum burt á meðan Irynu blæðir út.
Iryna kom sem flóttamaður frá Úkraínu til Bandaríkjanna í kjölfar innrásar Rússa árið 2022.
Brown hefur eytt stærstum hluta sinna fullorðinsára í fangelsi og var á skilorði þegar hann stakk Irynu. Samt sem áður var blásið til söfnunar fyrir hann á vefnum GoFundMe þar sem fram kom að hann væri fórnarlamb bilaðs réttarkerfis. Var markmiðið með söfnuninni að safna fyrir lögfræðikostnaði hans.
„Þó það sem gerðist í Blue Line-lestinni hafi verið harmleikur, þá má ekki gleyma því að Decarlos Brown Jr. hefur kerfisbundið verið svikinn af réttarkerfinu og geðheilbrigðiskerfinu í Norður-Karólínu og ber því ekki alla ábyrgð á því sem gerðist,“ sagði meðal annars í lýsingu söfnunarinnar.
Þegar fregnir af söfnuninni fóru á flug braust út mikil reiði á samfélagsmiðlum, að því er segir í frétt Mail Online. Þessi gagnrýni virðist nú hafa orðið til þess að forsvarsmenn GoFundMe fjarlægðu söfnunina af vefsíðunni.
Önnur fjáröflun sem fjölskylda Irynu stofnaði er hins vegar enn í gangi og hafa hátt í tíu milljónir króna safnast þegar þetta er skrifað. Í lýsingu söfnunarinnar kom fram að hún hafi farið til Bandaríkjanna í „leit að öryggi frá stríðinu“ og „í von um nýtt upphaf“ áður en hún var myrt.