Að minnsta kosti 14 eru látnir og tugir særðir eftir að til átaka kom milli mótmælenda og lögreglu í Nepal. Þar hafa þúsundir mótmælt samfélagsmiðlabanni ríkisstjórnarinnar sem var komið á fyrir helgi. Frá því á föstudag hafa netverjar átt erfitt með að nota vinsæla miðla á borð við Facebook, Instagram, X og YouTube en þessir miðlar höfðu ekki orðið við fyrirmælum ríkisstjórnarinnar um að skrásetja sig hjá upplýsingatækniráðuneyti landsins og samþykkja þar með að fylgja nepölskum lögum.
Mótmælendur segjast tilheyra svokallaðri Z-kynslóð sem samanstendur af einstaklingum sem fæddust á árunum 1997-2012. Upplýsingatækniráðherrann, Prithvi Subba, staðfestir í samtali við BBC að lögregla hafi þurft að grípa til valdbeitingar en ríkisstjórnin telur samfélagsmiðlabannið nauðsynlegan lið í baráttunni gegn falsfréttum, hatursorðræðu og netsvikum. Mótmælendur segja þessar skýringar halda engu vatni. Hér sé um fyrirslátt að ræða til að fela raunverulegan tilgang – ritskoðun og takmörkun tjáningarfrelsis. Hafa mótmælendur bent á að samfélagsmiðlar séu notaðir í lögmætum tilgangi, svo sem til samskipta, til dægrastyttingar, til fréttalesturs og til að afla tekna. Ríkisstjórnin sé hér að freista þess að kæfa alla gagnrýni í eigin garð og því um illa dulbúna spillingu að ræða.
Óeirðir brutust út í dag þegar mótmæli fóru fram við þinghúsið í höfuðborg Nepal, Kathmandu. Mótmælendur brutu sér leið framhjá varnargörðum og þjörmuðu þar að lögreglu sem hóf þá skothríð og hörfaði inn í þinghúsið.
„Stöðvið samfélagsmiðlabannið, bannið spillingu en ekki samfélagsmiðla,“ hrópuðu mótmælendur. Sökum óeirðanna hefur verið komið á útgöngubanni í hluta borgarinnar, einkum í nágrenni þinghússins og við forsetabústaðinn.
Ríkisstjórnin segist hafa ítrekað skorað á samfélagsmiðlana að skrá sig formlega í Nepal, en miðlarnir hafi ekki orðið við þeim óskum. Nokkrir miðlar, þeirra á meðal TikTok, hafa nú brugðist við og skráð sig.
Erlendir miðlar áætla að tugþúsundir hafi tekið þátt í mótmælunum. Myndbönd hafa verið birt á samfélagsmiðlum sem sýna átökin og blóði drifnar göturnar.
#WATCH | Kathmandu, Nepal | Protestors climb over police barricades as they stage a massive protest against the ban on Facebook, Instagram, WhatsApp and other social media sites. pic.twitter.com/mHBC4C7qVV
— ANI (@ANI) September 8, 2025
Prime minister of Nepal Killed 14 school students in front of Parliament#Nepal #protestnepal #protest #GenZProtest pic.twitter.com/ovM2gDq0nH
— Pappu Shah ၊||၊ DeSpeed ၊||၊ SparkChain.AI 「☄️G☄️」 (@ThePappushah) September 8, 2025