Um er að ræða áhrifavaldinn og söngkonuna Esmeralda Ferrer Garibay, 32 ára, eiginmann hennar Roberto Carlos Gil Licea, 36 ára, og börn þeirra, Gael Santiago, 13 ára og Reginu, 7 ára. Þau fundust öll látin í gráum Ford Ranger pallbíl í Guadalajara þann 22. ágúst síðastliðinn.
Rannsókn hefur leitt í ljós að fjölskyldan var líklega tekin af lífi á nálægu bílaverkstæði áður en líkunum var komið fyrir á palli bílsins sem skilinn var eftir skammt frá. Á vettvangi fundust blóðblettir, skothylki og önnur ummerki um aftöku, að sögn Alfonso Gutierrez Santillan saksóknara á svæðinu.
Í frétt New York Post kemur fram að tveir menn hafi verið handteknir á fyrrnefndu bílaverkstæði en þeir voru síðan látnir lausir vegna skorts á sönnunargögnum.
Vendingar urðu þó í kjölfarið þar sem mönnunum var stuttu síðar sjálfum rænt af vopnuðum mönnum beint fyrir utan skrifstofu saksóknarans. Öðrum mannanna tókst að flýja en ekki er vitað um afdrif hins. Munu byssumennirnir hafa beðið eftir mönnunum í um tvær klukkustundir fyrir utan skrifstofu saksóknara áður en þeir réðust til atlögu.
Ekki er ljóst hvort um einhvers konar hefndaraðgerð hafi verið að ræða vegna morðanna á fjölskyldunni.
Garibay hafði gert garðinn frægan á samfélagsmiðlum með því að sýna lúxusvörur, dýra bíla og frá ferðalögum. Hún birti jafnframt myndbönd þar sem hún söng með svonefndum narco-corridos, söngvurum sem gjarnan dásama ofbeldi og glæpahópa.
Í einu myndbandinu söng hún um kosti þess að eiga „narco-kærasta“ á meðan hún stillti sér upp með fokdýra Gucci-tösku.
Í umfjöllun New York Post kemur fram að þrátt fyrir þetta liggi ekkert staðfest fyrir um að hún sjálf eða eiginmaður hennar hafi tilheyrt glæpagengi. Hins vegar er talið að störf eiginmannsins við bílasölu og tómataræktun í Michoacán-ríki hafi gert hann að skotmarki skipulagðra glæpahópa.
Fjölskyldan hafði nýlega flutt frá Michoacán til Guadalajara í leit að öryggi og betri framtíð.