Málið hefur vakið mikinn óhug en Julian hafði það eitt sér til saka unnið að hafa framkvæmt dyraat á heimili Gonzalo.
Lögregla hefur nú varpað frekara ljósi á málið og segir í frétt CBS News að Julian hafi verið í matarboði með fjölskyldu sinni á laugardagskvöld. Honum og 10 ára frænda hans leiddist og ákváðu þeir að fara út og gera dyraat á nokkrum heimilum.
Í tilkynningu lögreglu segir að frændurnir hafi komið í þrígang að heimili Gonzalo á um fimmtán mínútna tímabili. Áður en þeir komu í þriðja skiptið hafi Gonzalo laumað sér út og beið hann eftir frændunum í garðinum við heimili sitt. Þegar þeir svo komu brást Gonzalo við með því að skjóta að þeim með skammbyssu.
Julian var með upptöku í gangi á símanum sínum og heyrist á henni þegar skotum var hleypt úr byssunni. Frændinn sagði við lögreglu að Julian hafi emjað af sársauka og sagt að hann hefði verið skotinn. Reyndi frændinn að koma Julian á fætur en án árangurs.
Julian var fluttur á sjúkrahús og lést hann daginn eftir af völdum skotsárs í bakið.
Fulltrúi lögreglu segist efast um að Gonzalo geti borið fyrir sig sjálfsvörn, enda hafi verið augljóst hvað hann hafði í huga. Augljóst hafi verið að um börn væri að ræða og drengirnir hefði ekki verið ógnandi á neinn hátt.