Maðurinn, sem kallaður er Ovidiu A. í ítölskum fjölmiðlum, var handtekinn á hóteli sem hann dvaldi á í strandbænum Caorle, skammt frá Feneyjum, þann 24. ágúst síðastliðinn.
Ovidiu vissi vart hvaðan á hann stóð veðrið og útskýrðu lögreglumenn fyrir honum að hann væri handtekinn þar sem hann væri eftirlýstur vegna ráns.
Í ljós kom að nafnið sem hann gaf upp þegar hann innritaði sig á umrætt hótel var það sama og á manni sem var eftirlýstur fyrir fyrrnefnt rán. Sá hafði hlotið dóm og ekki skilað sér til afplánunar. Fóru þá viðvörunarbjöllur af stað og var Ovidiu handtekinn við morgunverðarhlaðborðið daginn eftir að hann innritaði sig.
Þetta var aðeins byrjunin á martröðinni því við tók tæpur mánuður þar sem Ovidiu, með aðstoð lögmanns síns, reyndi að sanna að hann væri saklaus. Það tók dágóðan tíma og þurfti Ovidiu að gera sér að góðu að sitja á bak við lás og slá í tæpan mánuð.
Ovidiu var eðli málsins samkvæmt létt þegar hann gat loks um frjálst höfuð strokið um helgina og hitti fjölskyldu sína á nýjan leik. „Martröðinni er sem betur fer lokið,“ sagði hann við Corriere del Veneto.
Þrátt fyrir þessa leiðinlegu reynslu segist Ovidiu ætla að njóta þess að dvelja í nokkra daga til viðbótar á Ítalíu með fjölskyldu sinni áður en haldið verður heim til Rúmeníu.