fbpx
Sunnudagur 21.september 2025
Pressan

Skuggalega sagan á bak við myndina – Áhyggjulaus í sturtu en nokkrum mínútum síðar tók hryllingurinn við

Pressan
Sunnudaginn 21. september 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 4. júní árið 2008 skellti hinn tæplega þrítugi Travis Alexander sér í sturtu á heimili sínu í Mesa, Arizona. Kærasta hans, Jodi Arias, nýtti tækifærið og tók af honum myndir. Síðasta myndin sem hún tók átti eftir að vera síðasta myndin af Travis á lífi.

Á síðustu myndinni, sem má sjá hér að ofan, horfir Travis beint í myndavélina. Hann er blautur en rólegur enda hafði hann ekki hugmynd um hvað átti eftir að gerast fáeinum mínútum síðar þegar Jodi réðst á hann með hníf, stakk hann rúmlega 30 sinnum og skar hann á háls frá eyra til eyra. Að því búnu skaut hún hann í hausinn.

Jodi og Travis kynntust árið 2006 á ráðstefnu í Las Vegas. Að sögn vina Travis féll hann strax kylliflatur fyrir unga og metnaðarfulla ljósmyndaranum. Hann mun hafa sagt: „Hún er falleg, hún er vingjarnleg, hún er með sítt ljóst hár, fallega vaxin og hún var mjög indæl.“

Þau fóru út að borða saman og Travis fannst ljóst að Jodi væri jafn hrifin og hann.

„Morguninn eftir sagði hann mér að hann hefði fundið konuna sína og að þetta væri konan sem hann vildi giftast,“ sagði vinur Travis í samtali við fjölmiðla. Vinirnir munu hafa samglaðst en fljótlega fóru að renna á þá tvær grímur.

„Ég fór að sjá hluti sem voru truflandi. Ég sagði: Travis, ég óttast að við munum finna þig sundurlimaðan í frystinum hennar,“ sagði vinurinn sem tók fram að Jodi hafi frá upphafi verið með Travis á heilanum.

Stormasamt samband

Sambandið reyndist stormasamt. Travis var strangtrúaður mormóni en Jodi fékk hann til að brjóta allar reglur trúar sinnar, svo sem með því að stunda kynlíf utan hjónabands. Travis skammaðist sín mikið fyrir að hafa farið gegn trú sinni. Hann vildi giftast góðri og óspjallaðri mormónastelpu, en Jodi uppfyllti ekki þær kröfur.

Að sögn vina Travis var Jodi afbrýðisöm og uppáþrengjandi. Hún leyfði Travis varla að fara einum á salernið á mannamótum og leyfði honum ekki að tala við aðra kvenmenn. Hún vaktaði bæði farsíma hans og samfélagsmiðla til að tryggja að hann væri henni ekki ótrúr.

Vinirnir urðu áhyggjufullir og vöruðu Travis við því að Jodi væri ekki heil á geði og að þetta myndi enda með ósköpum.

Fimm mánuðum eftir að þau kynntust ákvað Travis að slíta sambandinu. Hún brást við með því að flytjast búferlum í heimabæ hans. Hún ætlaði ekki að sleppa takinu.

Hún byrjaði að birtast fyrir utan heimili hans án þess að gera boð á undan sér og hleypti sjálfri sér inn. Stundum varð Travis reiður en stundum tók hann því vel og bauð henni upp í rúm til sín.

Þegar Travis eignaðist aðra kærustu tvíefldist Jodi í umsáturseineltinu. Hún fór að skera á dekkin á bifreið hans, bankaði á ríðurnar á meðan hann var með kærustuna í heimsókn og elti hann á röndum.

Svona gekk þetta í átta mánuði en þá virtist Jodi gefast upp og fluttist aftur heim til foreldra sinna í Kaliforníu.

„Ég varð spenntur og Travis varð spenntur. Hann sagði: Nú fæ ég lífið mitt til baka. Þetta er nýtt upphaf. Hún er farin,“ sagði vinurinn.

Skilaði sér ekki á ráðstefnu

En Travis sagði vinum sínum ekki að hann var áfram í samskiptum við Jodi. Samskipti þeirra voru þó áfram stormasöm og í júní 2008 virtist sambandinu loksins vera lokið fyrir fullt og allt.

Travis ætlaði að hitta vin sinn og eiginkonu hans í Mexíkó þar sem þau ætluðu saman á vinnutengda ráðstefnu. Vinurinn og kona hans fóru á undan og ætlaði Travis að koma nokkrum dögum síðar og taka með sér nýju kærustuna sína, Mimi, sem var mormóni rétt eins og hann.

Travis skilaði sér þó ekki til Mexíkó og hætti að svara í símann. Þann 9. júní hafði hann ekki heyrt í vini sínum í fimm daga og fann á sér að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera. Hann hafði samband við Mimi sem hafði heldur ekki heyrt í Travis svo dögum skipti.

Þegar Mimi fór heim til Travis til að vitja hans hitti hún meðleigjanda hans. Sá sagðist ekki vita betur en að Travis hefði farið til Mexíkó fyrir tæpri viku. Herbergisfélaginn ákvað að opna læst herbergi Travis til að sjá hvort hann væri heima. Það fyrsta sem hann sá var blóðpollur á gólfinu. Travis fannst svo í sturtunni og hafði augljóstlega verið látinn í nokkurn tíma.

Vinir Travis benti lögreglu strax á Jodi. Hún hafi verið með Travis á heilanum og viljað honum illt því hann vildi ekki vera með henni lengur.

Lögregla fann myndavél í þvottavél Travis og á minniskortinu voru myndir sem voru teknar rétt fyrir morðið.

Berst enn fyrir frelsinu

Jodi var handtekin og ákærð fyrir morðið. Hún neitaði sök allt þar til aðalmeðferð málsins hófst þremur árum síðar. Þá skyndilega gekkst hún við því að hafa myrt Travis en sagðist hafa gert það í sjálfsvörn. Kviðdómur keypti þó ekki þá skýringu og Jodi var sakfelld og dæmd í lífstíðarfangelsi.

Jodi hefur allar götur síðan barist fyrir frelsinu. Nú í sumar byrjaði hún að halda úti bloggi og að selja listaverk sem hún hefur verið að dunda sér við í fangelsinu. Hún segir að allur ágóði af listaverkasölunni muni renna í málsvörn hennar og að hún muni áfram freista þess að fá sakfellingu sinni hnekkt.

Heimildir: Fox News, ABC News

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Kennsl borin á rotnandi lík í yfirgefinni Teslu söngvarans – Ferilinn hefur borið hnekki

Kennsl borin á rotnandi lík í yfirgefinni Teslu söngvarans – Ferilinn hefur borið hnekki
Pressan
Fyrir 4 dögum

Ólýsanlegur harmleikur rústaði lífi tveggja fjölskyldna eftir að lögreglan fór mannavillt – „Mamma, ég elska þig en ég get þetta ekki“

Ólýsanlegur harmleikur rústaði lífi tveggja fjölskyldna eftir að lögreglan fór mannavillt – „Mamma, ég elska þig en ég get þetta ekki“
Pressan
Fyrir 1 viku

Sakamál: Myrti fjölskylduna og bað síðan um að fá að fara heim

Sakamál: Myrti fjölskylduna og bað síðan um að fá að fara heim
Pressan
Fyrir 1 viku

Ofbeldismaður fleygði 7 ára fram af brú eftir voðaverk – Nú mætir hún geranda sínum fyrir dómi

Ofbeldismaður fleygði 7 ára fram af brú eftir voðaverk – Nú mætir hún geranda sínum fyrir dómi
Pressan
Fyrir 1 viku

Hægri- og vinstrimenn Bandaríkjanna keppast við að sverja af sér meinta skotmanninn – En hvað er vitað um skoðanir hans?

Hægri- og vinstrimenn Bandaríkjanna keppast við að sverja af sér meinta skotmanninn – En hvað er vitað um skoðanir hans?
Pressan
Fyrir 1 viku

Svona getur þú prófað hversu heilbrigð lungun þín eru

Svona getur þú prófað hversu heilbrigð lungun þín eru