Atvikið átti sér stað á US Open-mótinu í tennis og sýnir þegar pólski tenniskappinn Kamil Majchrzak áritaði derhúfu fyrir ungan aðdáanda sinn eftir sigur í leik á fimmtudag.
Um var að ræða húfu sem Kamil notaði í leiknum og af myndbandinu hér að neðan að dæma var hún augljóslega ætluð unga drengnum. Fullorðinn maður sem stóð við hliðina á honum hrifsaði hins vegar húfuna til sín við mikla undrun piltsins.
Kamil áttaði sig ekki á því sem hafði gerst fyrr en myndbandið fór í dreifingu um netið og til að gera langa sögu stutta hitti Kamil drenginn um helgina og gaf honum aðra áritaða húfu.
En maðurinn á myndbandinu hefur fengið að finna hressilega fyrir því og segir New York Post frá því að hann heiti Piotr Szczerek og sé milljónamæringur frá Póllandi. Hann er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Drogbruk, sem meðal annars hefur stutt við bakið á pólska tennissambandinu.
Piotr er sagður hafa tekið samfélagsmiðla sína úr sambandi eftir að hafa fengið yfir sig holskeflu af skömmum.
Kamil kom framkvæmdastjóranum til varnar í viðtali við Post um helgina.
„Þetta var augljóslega einhver ruglingur. Það var mikið í gangi hjá mér eftir leikinn, ég var örmagna en ótrúlega glaður yfir sigrinum. Ég bara missti af þessu […] Ég er viss um að hann hafi líka bara gert þetta í hita leiksins, í augnablikinu þar sem tilfinningarnar eru á fullu.“
Bætti Kamil við að framkvæmdastjórinn hefði óskað eftir því að komast í samband við drenginn til að biðja hann afsökunar og bæta honum þetta upp.