Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við King´s College London skólann að sögn Sky News. Þeir komust að því að keratín, sem er prótín í hári, húð og ull, getur unnið gegn tannskemmdum.
„Við teljum þetta vera byltingarkennt,“ sagði Dr. Sherif Elsharkawy, einn vísindamannanna, í samtali við Sky News. Hann sagði að tannkremið geti lagað smávægilegar sprungur eða galla og það án þess að fólk taki eftir því.
Skemmdir á glerungi koma oft við sögu þegar skemmdir verða á tönnum. Hann endurnýjast ekki þegar hann eyðist. Þegar keratín blandast við steinefnin í munnvatninu, myndast himna sem veitir tönnunum vernd, uppbygging hennar og virkni líkist náttúrulegum glerungi.
Flúortannkrem og flúor, sem er bætt í drykkjarvatn, gegna því hlutverki að hægja á glerungseyðingu en meðferð, sem byggist á keratíni, stöðvar glerungseyðinguna algjörlega.
Sara Gamea, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði að keratín bjóði upp á nýja nálgun við tannviðgerðir.
Það verður hægt að veita meðferðina með tannkremi eða geli, sem fagfólk ber á tennurnar, í verstu tilfellunum.
Vísindamennirnir segja að hægt verði að hefja notkun efnisins á næstu tveimur til þremur árum.
Vísindamennirnir notuðu ull í rannsókninni en telja að í framtíðinni muni fólk hugsanlega safna eigin hári sem keratín verði síðan unnið úr.