Vísindamenn segja að hugsanlega verði geimfarar í langferðum að borða eigin saur. Hann verður þó fyrst endurunninn svo hann verði neysluhæfur. Verið er að reyna að þróa aðferðir til að endurvinna saurinn. Ef það tekst verður hægt að spara verðmætt pláss í geimförum framtíðarinnar.
Daily Star segir að vísindamönnum hafi tekist að brjóta úrgangsvökva og úrgang í föstu formi hratt niður til að framleiða mat.
Í rannsókn, sem var birt í Life Sciences in Space Research, er fjallað um þær áskoranir, sem tengjast löngum geimferðum, sem við munum standa frammi fyrir þegar farið verður til Mars eða jafnvel enn lengra frá jörðinni.
Ef matur er tekinn með, þá mun hann taka dýrmætt pláss í geimförunum og þyngja þau og þannig auka eldsneytisnotkunina. Hefðbundnar ræktunaraðferðir myndu krefjast pláss og þarfnast dýrmætrar orku og vatns.
Geimfarar í Alþjóðlegu geimstöðinni endurvinna þvag sitt og gera drykkjarvatn úr því. Næsta skref er því að fullkomna aðferðir við að endurvinna saur og gera hann neysluhæfan.