Lars Bøgh, líffræðingur og forstjóri Karpenhøj Naturcenter í Danmörku, segir að það sé mikilvægt að muna að geitungar eru nytjadýr því þeir veiði mikið af þeim dýrum sem éta blóm og grænmeti í görðum fólks.
Hann segir að af þessari ástæðu sé um að gera að reyna að halda geitungunum fjarri í staðinn fyrir að drepa þá en það krefst þess auðvitað að maður sé nánast með ís í maganum.
Hann segir að ef fólk vill veiða geitungana þá sé hægt að lokka þá með sætindum því þeir dragast sérstaklega mikið að sykri á þessum árstíma.
Hann segir að til dæmis sé hægt að setja melónubita á disk og koma fyrir fjarri matarborðinu. Einnig sé hægt að setja sykurvatn í flösku en þannig er hægt að veiða geitungana.
Ef ætlunin er að hræða þá, er hægt að setja þurran kaffikorg í eldfast mót og kveikja í honum. Reykurinn frá kaffikorginum fellur ekki í kramið hjá geitungum og ekki skemmir fyrir að kaffikorgur brennur mjög hægt og því ætti að vera hægt að fá langvarandi frið frá þessum óboðnu gestum.