fbpx
Sunnudagur 31.ágúst 2025
Pressan

„Bjargaðu mér úr þessu helvíti og ég skal segja frá öllu“

Pressan
Laugardaginn 30. ágúst 2025 21:30

Hryllingshúsið. Það var síðar rifið. Mynd:Google Maps

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 26. október 1965 fann lögreglan horað og illa farið lík á dýnu í húsi í Indianapolis í Indiana í Bandaríkjunum. Líkið var með 150 áverka. Þetta var lík 16 ára stúlku, Sylvia Likens. Á maga hennar hafði verið skrifað: „Ég er vændiskona og ég er stolt af því.“

Kona, sem bjó í húsinu, sagði lögreglunni að Sylvia hefði verið með einhverjum strákum úr hverfinu kvöldið áður og að þeir hefðu drepið hana. En málið var ekki svo einfalt því á bak við þetta leyndist sagan um þann hrylling sem Sylvia gekk í gegnum síðustu þrjá mánuði lífsins. Málið hefur lengi verið umtalað sem eitt af hrottalegri morðmálum sem upp hafa komið í Indiana.

Sylvia

Sylvia Marie Likens fæddist í Lebanon þann 3. janúar 1949. Hún átti tvö eldri systkini, tvíburana Daniel og Dianna. Þegar Sylvia var ársgömul eignuðust foreldrar hennar aðra tvíbura, Jenny og Benny.

Foreldrarnir seldu sælgæti, bjór og gosdrykki í fjölleikahúsi sem ferðaðist um og voru því sjaldan heima. Börnunum var því oft komið fyrir hjá vinum og ættingjum og fjölskyldan flutti oft. En foreldrarnir voru ástríkir og góðir.

Sylvia var sjálfsörugg stúlka sem var oft hrósað fyrir fegurð og kom ekki að sök að hún hafði misst eina framtönn þegar hún var að leika sér við bræður sína. Hún var sítt, liðað brúnt hár og var oft kölluð „Cookie“ af þeim sem hún umgekkst.

Sylvia. Mynd:Lögreglan

Jenny systir hennar var hins vegar feiminn og óörugg með sig. Hún glímdi við eftirköst lömunarveiki og var hölt.

Árið 1965 sneri fjölskyldan heim til Indianapolis í Indiana eftir að hafa verið um hríð í Kaliforníu. Systurnar gengu í sama framhaldsskólann. Í byrjun júlí var móðir þeirra, Betty, handtekin fyrir smáþjófnað. Faðir þeirra, Lester, ákvað þá að fara aftur á ferðina með fjölleikahúsinu til að eiga fyrir salti í grautinn. Hann kom þremur börnum fyrir hjá ömmu þeirra en Sylvia en Sylvia og Jenny var komið fyrir hjá nágrannakonunni Gertrude Baniszweski og áttu að vera hjá henni fram í nóvember. Gertrude var einhleyp. Lester ætlaði að þéna svo mikið að fjölskyldan gæti komið sér upp varanlegu heimili.

Systurnar þekktu tvær dætur Gertrude úr skólanum og Lester taldi þetta góða lausn. Hann bauð Gertrude 20 dollara á viku fyrir að hafa systurnar.

Vikur liðu og ekki var annað að sjá en systrunum líkaði vel að vera hjá Gertrude. Hún átti sjálf sjö börn á aldrinum 1 til 17 ára. Sex elstu átti hún með fyrrum eiginmanni sínum, lögreglumanninum John Stephan Baniszewski, en það yngsta (son) með Dennis Lee Wright. Hann var 22 ára en Gertrude 37 ára. Hann yfirgaf Gertrude og son sinn eftir stutt og stormasamt samband.

Dagurinn sem allt breyttist

Fjárhagurinn var ekki góður hjá Gertrude og hún átti yfirleitt bara þurrt kex og gamalt brauð í skítugu eldhúsinu. Hún átti bara leirtau fyrir þrjá og börnin sváfu saman á dýnum. Hún tók að sér viðvik hér og þar til að verða sér úti um peninga. Það munaði því svo sannarlega um 20 dollarana frá Lester og hún varð beinlínis háð því að fá þessa peninga.

Þegar kom fram í ágúst og farið var að halla að hausti höfðu systurnar búið hjá Gertrude í nokkrar vikur. Þeim kom vel saman við börnin hennar, sérstaklega elstu stelpurnar, Paula og Stephanie.

Það var komið að „útborgunardegi“ en engir peningar bárust frá Lester. Gertrude varð brjáluð út af þessu og lét reiðina bitna á Sylvia. Hún læsti hana inni í herbergi og skipti engu þótt hún öskraði og grenjaði, henni var ekki hleypt út. Þetta var dagurinn sem allt breyttist.

Var lamin

Peningarnir komu nokkrum dögum síðar en það breytti engu, martröð Sylvia var hafin. Gertrude misþyrmi henni daglega og Jenny fékk einnig sinn skerf af ofbeldinu. Gertrude notaði þykkt lögreglubelti fyrrum eiginmanns síns til að berja þær.

Börnin hennar byrjuðu einnig að snúast gegn systrunum. Paula, sem var 17 ára og ólétt, tók við barsmíðunum af móður sinni þegar hana þraut þrek. Dag einn seint í ágúst fengu þær hvor um sig 15 högg með beltinu því Paula taldi að þær hefðu borðað of mikið í hádeginu þegar farið var til kirkju.

Paula. Mynd:Lögreglan

Eftir þetta fór Jenny að sleppa við barsmíðar en Sylvia var laminn hvað eftir annað og Jenny var neydd til að lemja hana. Paula lamdi hana svo fast eitt sinn að hún úlnliðsbrotnaði sjálf. Næstu daga notaði hún gifsið til að berja Sylvia.

Foreldrar systranna heimsóttu þær í júlí og seint í ágúst. Gertrude hafði hótað þeim að hlutirnir yrðu enn verri ef þær segðu frá ofbeldinu. Foreldrarnir fengu því ekki að vita af því og heldur ekki skóli systranna eða önnur yfirvöld.

Hrottaleg ofbeldisverk

Ofbeldið sem Sylvia sætti var skelfilegt. Gertrude brenndi fingurgóma hennar, sparkaði í kynfæri hennar, slökkti í sígarettum á líkama hennar, lét hana sofa í eigin þvagi og saug og píndi mat ofan í hana og síðan ælu.

Gertrude, sem var aðeins 45 kíló og 168 cm, bauð nágrannabörnum heim til að taka þátt í ofbeldinu og sjá þá niðurlægjandi meðferð sem Sylvia fékk. Hún var neydd til kynferðislegra athafna fyrir framan Gertrude, börnin hennar og nágrannabörnin.

Coy Hubbard, unnusti Stephanie (dóttur Gertrude) tók einnig þátt í ofbeldinu. Hann tók skólafélaga með sér heim til Gertrude næstu daglega til að níðast líkamlega og andlega á Sylvia. Hún var notuð sem „boxpúði“ þegar börnin í hverfinu þurftu að æfa bardagaíþróttir.

Í reiði sinni dreifði Sylvia orðrómi um Paula og Stephanie í skóla þeirra og sagði að þær væru báðar vændiskonur. Þegar systurnar komust að þessu var Sylvia enn einu sinni beitt hrottalegu ofbeldi.

Gertrude. Mynd:Lögreglan

Dag einn fóru Sylvia og Jenny með Marie, 11 ára dóttur Gertrude, í nálægan almenningsgarð. Þar hittu þær Dianna, systur sína, fyrir tilviljun. Sylvia var glorsoltin því hún fékk aðeins matarleifar að borða hjá Gertrude. Hún spurði Dianna hvort hún gæti keypt brauð handa sér en systurnar þorðu ekki að segja henni við hvaða aðstæður þær bjuggu.

Þegar heim var komið sagði Marie móður sinni að Gertrude hefði beðið Dianna að kaupa brauð handa sér. Gertrude brjálaðist og til að refsa Sylvia var hún neydd ofan í sjóðandi heitt vatn. Gertrude lamdi höfði hennar í vegginn í hvert sinn sem það leið yfir hana í vatninu. Hún fékk slæm brunasár og blöðrur sem vöktu athygli síðar.

Tekin úr skóla

Það kom að því að Sylvia þurfti að fá ný íþróttaföt fyrir íþróttatímana í skólanum. Hún spurði Gertrude hvort hún gæti ekki fengið smá af peningunum frá föður sínum til að kaupa það en fékk alltaf nei.

Að lokum stal hún íþróttafötum í skólanum. Þegar Gertrude komst að þessu brjálaðist hún og sagði hana vera óhlýðna og þjófótta. Hún sakaði hana um að hafa stundað kynlíf fyrir hjónaband og sparkaði ítrekað í kynfæri hennar. Nú var Stephanie nóg boðið og kom Sylvia til varnar og sagði hana saklausa.

Skóla Sylvia barst tilkynning frá nágranna Gertrude sem heyrði Sylvia oft öskra af sársauka og sá fjölda sára á líkama hennar eftir sjóðandi heita baðið. Skólahjúkrunarfræðingurinn fór heim til Gertrude sem var fljót að segja að Sylvia væri ekki lengur hjá henni, hún hefði strokið og hún hefði ekki hugmynd um hvar hún væri.

Húsið var sannkallað hryllingshús. Mynd:Lögreglan

Hjúkrunarfræðingur spurði hana út í sárinn á líkama Sylvia og sagði Gertrude að þau væri vegna slæmrar líkamlegrar umhirðu Sylvia, hún neitaði að baða sig. Hjúkrunarfræðingur og skólinn ákváðu að trúa þessu.

Það var því ekkert meira aðhafst til að hjálpa Sylvia.

Eftir öll spörkin í kynfærin hafði Sylvia ekki lengur stjórn á þvagblöðrunni. Hún gat ekki haldið í sér og missti þvag hvað eftir annað. Henni var meinað að nota klósettið og pissaði því oft á sig. Gertrude refsaði henni fyrir það með því að binda hana fasta í kjallaranum og neita henni um vatn og mat.

Gertrude. Mynd:Lögreglan

Gertrude byrjaði að dreifa lygum um Sylvia í hverfinu og bauð nánustu vinum sínum heim til að sparka í Sylvia og lemja hana. Hún seldi ungmennum í hverfinu síðan aðgang að „hryllingshúsinu“ þar sem þau fengu að ganga í skrokk á Sylvia.

John, 12 ára sonur Gertrude, bauð Sylvia eitt sinn súpuskál en sagði henni að hún yrði að nota fingurna til að borða súpuna. Hann setti skálina fyrir framan hana en fjarlægði hana nær samstundis. Síðan neyddi hann Sylvia til að borða saur úr bleiu bróður síns.

Sylvia var sífellt oftar bundin föst í kjallaranum. Gertrude og sum barna hennar stráðu salti í brunasárin á líkama hennar og til að tryggja að nágrannarnir heyrðu hana ekki öskra tróðu þau efnisbútum upp í hana.

„Ég er vændiskona og ég er stolt af því“

Gertrude var ekki búin að gleyma orðróminum sem Sylvia hafði komið af stað um dætur hennar. 23. október sótti hún Sylvia niður í kjallara og fór með hana inn í eldhús. „Þú stimplaði dætur mínar. Núna ætla ég að stimpla þig,“ sagði hún.

Hún skipaði Sylvia að afklæðast og hitaði nál sem hún rak síðan í maga hennar. Hún fékk síðan Richard Hobbs, 14 ára nágrannapilt, til að skrifa: „Ég er vændiskona og ég er stolt af því,“ á maga hennar.

„Ég mun deyja“

Sylvia var vannærð og örmagna. Líkami hennar var ónýtur. Hún var óþekkjanleg. Þetta sama kvöld sagði hún við Jenny að hún myndi deyja. „Jenny, ég veit að þú vilt ekki missa mig en ég mun deyja. Ég veit það.“

Gertrude hafði líka áttað sig á Sylvia myndi deyja. Hún sagði henni að skrifa bréf til foreldra sinna og sagði henni hvað hún ætti að skrifa:

„Ég hitti strákagengi um miðja nótt. Þeir sögðust ætla að borga ef ég gerði það sem þeir báðu um. Ég settist inn í bílinn og allir fengu það sem þeir vildu. Þegar þeir höfðu lokið sér af börðu þeir mig og skildu mig eftir með sár á líkamanum og andlitinu. Þeir skrifuðu á maga minn að ég væri vændiskona og stolt af því. Ég hef gert allt sem ég get til að gera Gertrude reiða og hún hefur þurft að nota miklu meiri peninga en hún fékk senda. Ég reif nýja dýnu og pissaði á hana. Hún hefur líka þurft að borga marga læknisreikninga fyrir mig, meira en hún hafði efni á. Ég gerði Gertrude og börnin hennar taugaóstyrk.“

Þegar hún var búin að skrifa bréfið heyrði hún Gertrude segja við tvö af börnum sínum að hún ætlaði að fara með Sylvia út í skóg og skilja hana þar eftir til að deyja. Sylvia reyndi að flýja þetta kvöld. Þrátt fyrir að hún væri veikburða og með mikla verki náði hún að komast upp úr kjallaranum og að útidyrunum. En áður en hún komst út í frelsið náði Gertrude henni og dró hana inn. Hún dró hana aftur niður í kjallara og batt hana fasta. Í refsingarskyni lamdi Coy Hubbard hana. Hann notaði gardínustöng til að lemja hana þar til stöngin var orðin kengbogin. Sylvia lá meðvitundarlaus.

Síðasti dagurinn

Aðfaranótt 26. október vaknaði nágranni við hátt öskur. Sylva notaði síðustu krafta sína til að berja með skóflu í vegg. Nágranninn ætlaði að hringja í lögregluna en um klukkan 3 hætti hávaðinn. Hann lagði símtólið frá sér og fór aftur að sofa.

Næsta morgun var Sylvia í móki og gat ekki lengur talað. Hún umlaði og gat ekki gert sig skiljanlega á neinn hátt. Gertrude brjálaðist þegar hún sá að Sylvia lá í eigin saur. Hún sagði henni að þrífa þetta en þetta endaði með að John, 12 ára sonur hennar, smúlaði hana. Sylvia engdist um af sársauka. Hún reyndi að komast undan en Gertrude dró hana aftur niður í kjallara og traðkaði á höfði hennar.

Stephanie, sem var eina barnið sem hafði sýnt Sylvia smá samúð, ákvað að þvo henni. Hún ætlaði að lyfta illa förnum líkamanum en áttaði sig á að ekkert lífsmark var með Sylvia. Hún beitt munn við munn aðferðinni en á meðan stóð Gertrude yfir henni og öskraði að Sylvia væri ekki dáin, hún væri bara að látast.

Richard Hobbs fór að fyrirmælum Gertrude og hringdi í lögregluna úr símaklefa í nágrenninu.

Dýnan sem Sylvia fannst látin á. Gertrude og Sylvia á innfelldum myndum. Mynd:Lögreglan

 

 

 

 

 

 

Um klukkan sjö um kvöldið kom lögreglan. Gertrude afhenti henni bréfið sem hún hafði neytt Sylvia til að skrifa. Hún sagðist hafa þrifið sár Sylvia rétt áður en hún lést. Þegar líkið var borið út hvíslaði Jenny að einum lögreglumanninum: „Bjargaðu mér úr þessu helvíti og ég skal segja frá öllu.“

Í kjölfarið voru allir í húsinu handteknir.

Lík Sylvia var illa leikið. Á legsteini hennar stendur: „Ástkær dóttir okkar.“

Minnisvarði um Sylvia.

Réttarhöldin

Gertrude neitaði sök og sagðist ekki hafa vitað hvað gekk á í kjallaranum.  Hún var samt sem áður dæmd í ævilangt fangelsi. Hún þótti vera fyrirmyndarfangi og var látin laus til reynslu eftir 20 ár.

Hún breytti nafni sínu í Nadine Van Fossan og flutti til Iowa 1985. Fimm árum síðar lést hún úr lungnakrabbameini, 61 árs að aldri. Hún hélt því fram til dauðadags að astmalyf hennar hefðu gert að verkum að hún réði ekki við skap sitt.

Paula var dæmd fyrir manndráp af gáleysi. Hún losnaði úr fangelsi 1974 og breytti eftirnafni sínu í Pace og fékk vinnu í skóla í Conrad í Iowa. 2012 barst skólanum nafnlaus ábending um fyrra eftirnafn Paula. Þá komst upp um sögu hennar og hún var samstundis rekin úr starfi.

Stephanie játaði að hafa tekið þátt í misþyrmingunum og bar vitni gegn fjölskyldu sinni gegn því að sleppa sjálf við refsingu. Hún breytti nafni sínu og flutti frá Indiana. Hún er gift og starfar sem kennari í Flórída.

John var aðeins 12 ára þegar Sylvia var pyntuð til dauða en tók samt oft þátt í ofbeldinu. Hann afplánaði tveggja ára dóm og losnaði úr fangelsi i febrúar 1968. Hann lést af völdum krabbameins 2005, 52 ára.

Richard Hobbs og Coy Hubbard sluppu úr fangelsi eftir tvö ár. Hubbard missti vinnuna 2007 þegar kvikmyndin „An American Crime“ var tekin til sýninga. Hún byggist á sögu Sylvia Likens. Hubbard lést af völdum hjartaáfalls þetta sama ár, 56 ára að aldri. Hann lét eftir sig fimm börn. Hobbs lést af völdum lungnakrabbameins fjórum árum eftir að hann losnaði úr fangelsi, hann varð 21 árs.

Foreldrar Sylvia, Betty og Lester, létust 1998 og 2013. Lester lifði einnig Jenny dóttur sína en hún lést af völdum hjartaáfalls 2004, 54 ára að aldri. Hún lét eftir sig eiginmann og tvö börn.

Byggt á umfjöllun IndyStar, Indianapolis Monthly, Wikipedia, YouTube, The Independent og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Fengu loftstein í gegnum þakið

Fengu loftstein í gegnum þakið
Pressan
Fyrir 2 dögum

Kennari tilkynnti sig veika – Fékk full laun í 16 ár

Kennari tilkynnti sig veika – Fékk full laun í 16 ár
Pressan
Fyrir 2 dögum

Ósætti á milli tveggja ökumanna endaði með ólýsanlegum harmleik

Ósætti á milli tveggja ökumanna endaði með ólýsanlegum harmleik
Pressan
Fyrir 3 dögum

Gervigreindarforrit Elon Musk gaf notanda „nákvæmar“ leiðbeiningar um hvernig sé hægt að myrða Musk

Gervigreindarforrit Elon Musk gaf notanda „nákvæmar“ leiðbeiningar um hvernig sé hægt að myrða Musk
Pressan
Fyrir 3 dögum

Flugþjónn gripinn nakinn og undir áhrifum fíkniefna inn á salerni flugvélar

Flugþjónn gripinn nakinn og undir áhrifum fíkniefna inn á salerni flugvélar
Pressan
Fyrir 3 dögum

Útfararstjóri geymdi barnslík í stofunni heima hjá sér

Útfararstjóri geymdi barnslík í stofunni heima hjá sér
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fundu leynilega norðurkóreska herstöð

Fundu leynilega norðurkóreska herstöð