Það er því ansi góð hugmynd að sofa með lokaðar svefnherbergisdyr miðað við niðurstöður rannsóknarinnar.
Allt frá 2008 hefur stofnunin rannsakað hvaða áhrif opnar dyr og gluggar hafa á útbreiðslu elds á heimilum. Niðurstaðan er eins og fyrr segir að lokaðar dyr geti skipt miklu máli, verið spurning um líf eða dauða. „Munurinn er svo mikill að fólk getur lifað miklu lengur í herbergi með lokuðum dyrum,“ er haft eftir Stephen Kerber, forstjóra stofnunarinnar, í fréttatilkynningu.
Í svefnherbergjum, þar sem dyrnar voru lokaðar þegar eldur kom upp, náði hitinn upp í 38 gráður en þar sem dyrnar stóðu opnar náði hann allt að 500 gráðum.
Þegar eldur kemur upp eru það náttúruleg viðbrögð að opna dyr til að koma reyknum út en þegar dyr eru opnar er um leið opnað fyrir súrefnisflæði sem er eldsneyti fyrir eld. Ef fólk hefur dyr og glugga lokaða brennur eldurinn ekki eins vel og það tekur hann lengri tíma að breiðast út, þannig gefst meiri tími fyrir fólk til að komast út eða það getur beðið lengur eftir aðstoð.