Natasha hvarf nærri kvikmyndahúsi í Rockhampton í Ástralíu þann 31. ágúst 1998. Hún var 14 ára. Fljótlega var óttast um afdrif hennar því vitni sögðust hafa séð bíl ekið hratt á brott frá kvikmyndahúsinu þetta sama kvöld.
Lögreglan gerði mikla leit að henni en það var eins og jörðin hefði gleypt hana.
Átta mánuðum síðar hvart önnur stúlka, hin 9 ára Keyra Steinhardt, á leið heim úr skóla. Það var einnig eins og jörðin hefði gleypt hana. Mikil leit var gerð að henni og fljótlega komst lögreglan á slóð Leonard John Fraser. Í bíl hans fannst blóð úr Keyra. Hann var því handtekinn og nokkrum vikum síðar benti hann lögreglunni á staðinn þar sem hann hafði losað sig við lík Keyra. Hann hafði numið hana á brott, nauðgað henni og síðan skorið á háls.
Á þessum tíma höfðu margar konur og stúlkur horfið í Rockhampton og því leiddu margir hugann að því hvort raðmorðingi gengi laus. Fraser var lýst sem „óþægilegum og óhugnanlegum manni“ og því var velt upp hvort hann stæði á bak við hvarf stúlknanna og kvennanna.
Þegar réttað var yfir honum játaði hann að hafa myrt Keyra en hélt því staðfastlega fram að hann vissi ekkert um hin málin, þar á meðal mál Natasha. En þegar hann afplánaði dóm sinn játaði hann fyrir klefafélaga sínum að hafa myrt þrjár stúlkur og konur til viðbótar auk Natasha.
Hann var því dreginn fyrir dóm á nýjan leik. Þegar réttarhöldin voru hafin, í apríl 2003, kom loks í ljós hver örlög Natasha höfðu verið.
Lögreglunni barst ábending um að hún væri á lífi og gerði húsleit í húsi í Frenchville í norðurhluta Rockhampton. Í fataskáp fundu lögreglumenn Natasha á lífi og var hún við góða heilsu.
Í tæp fimm ár hafði fólk talið að hún hefði orðið raðmorðingja að bráð. En hún hafði falið sig af fúsum og frjálsum vilja með unnusta sínum, Scott Black sem var 22 ára. Í hvert sinn sem einhver kom að húsinu faldi hún sig í fataskápnum svo hún fyndist ekki.
Hún hafði varla farið út fyrir hússins dyr öll þessi ár og þegar þau fluttu á milli húsa gerðu þau það alltaf að næturlagi.
Eins og gefur að skilja komu tíðindin foreldrum hennar mjög á óvart, þau voru þess fullviss að hún væri látin.
Í viðtölum síðar sagði Natasha að hún hefði nokkrum sinnum stungið af að heima áður en hún lét sig hverfa í öll þessi ár en hefði alltaf skilað sér heim aftur. Hún hafði einnig í hyggju að snúa aftur heim eftir hvarfið 1998 en eftir því sem dagarnir liðu varð lyginn stærri að hennar mati og henni fannst hún ekki geta snúið aftur heim. Þess vegna var hún í felum öll þessi ár.
Scott Black var dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir að hafa logið í málinu. Dómurinn var síðar mildaður í 12 mánaða fangelsi. Natasha var dæmd til greiðslu sektar fyrir að hafa beint rannsókn lögreglunnar á ranga braut.
Natasha og Scott gengu í hjónaband 2007 og eru enn gift og búa á ónafngreindum stað í Ástralíu.