„Þrátt fyrir að ég vissi að flugvöllurinn væri nærri fannst mér þetta vera mjög hátt. Síðan heyrði ég mikla sprengingu og sá veggi hótelsins svigna inn á við og myndir hrynja af veggjum.“
Sagði hún um þennan dag í hlaðvarpsþættinum „I Was There“ á vef BBC.
Sprengingin var svo öflug að hún missti símann. Hún flýtti sér þá að opna dyrnar út á gang en um leið sá hún eldtungur koma út úr baðherberginu.
„Ég hugsaði með mér að ef ég myndi snúa mér við og vera umkringd af eldi myndi ég ekki komast að glugganum til að hoppa út. Glugginn var eina leiðin út.“
Hún hafði skráð sig inn á hótelið hálfri klukkustund áður. Það varð henni til happs að henni var mjög heitt og því hafði hún opnað gluggann en það tók drjúgan tíma því hann var erfiður viðureignar.
Eftir sprenginguna fór hún að glugganum og sá starfsmann hótelsins þar fyrir neðan. Hann öskraði á hana að hoppa strax út.
„Þetta var rosalegur eldur svo ég vissi að ég hafði ekki langan tíma. Það er sagt að reykurinn drepi mann áður en eldurinn gerir það og það er svo sannarlega satt. Ég var í herberginu og hóstaði en óttaðist að fótbrotna og kæmist ekki frá brennandi húsinu ef ég hoppaði út.“
Hótelstarfsmaðurinn greip hana þegar hún hoppaði út og siðan hlupu þau á brott.
„Þegar ég leit aftur var engin flugvél, ekkert hótel, bara risastór eldur.“
Þetta gerðist þann 25. júlí 2000. Allir þeir 109 sem voru um borð í flugvélinni létust og fjórir til viðbótar á jörðu niðri.