Dönsku hjartaverndarsamtökin, Hjerteforeningen, benda á eitt og annað sem fólk getur sjálft gert til að lækka blóðfitumagnið.
Gunnar Gíslason, rannsóknastjóri hjá Hjerteforeningen, segir að ef fólk vill halda blóðfitumagninu niðri án þess að nota lyf, þá þurfi að breyta lífsstílnum. Jótlandspósturinn skýrir frá þessu.
Hann ráðleggur fólki að lækka blóðfitumagnið sjálft í stað þess að byrja strax að taka lyf. Hann sagði að ástæður þess að blóðfitumagnið sé mikið, sé oft blanda af erfðum, slæmum lífsstíl og undirliggjandi sjúkdómum.
Eftirfarandi þættir eru oft, einn eða fleiri, meðal þeirra þátta sem auka líkurnar á háu blóðfitumagni.
Of mikil mettuð fita.
Of lítil hreyfing.
Of lítil neysla á grófu kornmeti.
Hann sagði að of mikil blóðfita krefjist ekki bráðrar meðhöndlunar svo það sé tími til að breyta lífsstílnum áður en byrjað er að taka lyf. Hann ráðleggur fólki að reyna að ná tökum á blóðfitunni með því að gera breytingar á mataræðinu því mataræðið og blóðfita tengist nánum böndum.
„Þetta heppnast hjá sumum en er erfiðara fyrir aðra. Ef maður borðar mikið af mettaðri fitu úr kjöti og mjólkurvörum, þá er oft hægt að ná góðum árangri ef maður sker neyslu þessara matvæla vel niður,“ sagði Gunnar.
Hjerteforeningen er með þrjú góð ráð um breytingar á matarvenjum sem geta lækkað blóðfitumagnið.
Skiptu mettaðri fitu út með ómettaðri fitu úr plönturíkinu og fiski.
Skiptu kjöti út með fiski. Kjöt á ekki lengur að vera uppistaðan í máltíðum.
Skiptu trefjalitlum mat út með grófu korni. Við eigum að borða meira af grófu korni, minnst 90 grömm á dag.