Forsaga málsins er sú að húsleit var gerð heima hjá Lee-Ann og eiginmanni hennar, Grant, umræddan dag í Hertfordshire á Englandi.
Var Lee-Ann handtekin og flutt á lögreglustöð en á sama tíma voru lögreglumenn staddir á heimili hjónanna þar sem þeir framkvæmdu húsleit. Lee-Ann var síðar sleppt úr haldi án þess að kæra væri lögð fram gegn henni.
Í herbergi hjónanna er Ring-myndavél og á upptöku úr henni sést þegar lögregluþjónninn Marcin Zielinski teygir sig í nærbuxur sem eru ofan í skúffu og stingur þeim í vasann. Nærbuxurnar voru í eigu Lee-Ann. Á mánudag var Marcin dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi vegna málsins.
Í viðtali við Daily Mail segir Lee-Ann að dómurinn hafi fært henni ákveðna hugarró en hún vantreysti lögreglu samt sem áður mikið eftir atvikið.
„Ég held ég hafi grátið, hlegið og orðið reið á þessu ári sem liðið er,” segir hún. „Mér finnst ég berskjölduð, ég er hrædd og hálf óglatt yfir þessu öllu saman. Ég hugsa stöðugt: Hvers vegna tók hann þær? Hvað ætlaði hann að gera við þær? Hefur hann gert þetta annars staðar?“
Bætir hún við að eftir að atvikið kom upp hafi hún hent öllum nærbuxunum sínum og meira að segja losað sig við kommóðuna sem hún geymdi þær í.
Lögregluþjónninn sem um ræðir sagði upp störfum í nóvember í fyrra þegar mál hans var til rannsóknar. Genna Telfer, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Hertfordshire, segir að Marcin hafi bæði brugðist almenningi og fyrrverandi samstarfsfélögum sínum með gjörðum sínum.
„Þetta glæpsamlega háttalag hans skaðar orðspor lögreglu og felur í sér svik gagnvart þeim gildum sem lögreglan stendur fyrir,“ segir Genna.