fbpx
Miðvikudagur 09.júlí 2025
Pressan

Benda á 11 rangfærslur Trump á blaðamannafundi í gær

Pressan
Miðvikudaginn 9. júlí 2025 15:30

Mynd/Getty Images

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Donald Trump Bandaríkjaforseti og ríkisstjórn hans ræddu við blaðamenn á sérstökum fundi í gær þar sem farið var um víðan völl. CNN rekur að þar hafi Trump þó ítrekað hallað réttu máli og hefur nú birt frétt þar sem farið er yfir ellefu rangfærslur.

Engin verðbólga

Donald Trump sagði: „Hér er engin verðbólga“. CNN rekur að ársverðbólga hafi numið 2,4 prósentum í maí en 2,3 í apríl. Þetta sé kannski ekki há verðbólga, en hún sé engu að síður verðbólga.

Skattfrjálsar bætur

Trump hélt því fram að nýlegar lagabreytingar efndu kosningaloforð hans um skattfrjálsar félagsbætur. Það er rangt. Lagabreytingin veitir tímabundinn skattafslátt til bótaþega sem eru 65 ára og eldri en þeir sem eru yngri þurfa að greiða sama skatt og áður og þeir sem njóta afláttarins þurfa engu að síður að borga einhvern skatt.

Tollabréfin

Trump talaði um bréf sem hann hefur sent á leiðtoga fjölda ríkja þar sem hann tilkynnir um fyrirhugaða ofurtolla sem eiga að taka gildi í byrjun ágúst. Trump fullyrti að þessi bréf væru ígildi samninga. CNN rekur að það sé rangt. Þarna hafi forsetinn einhliða tilkynnt um fyrirhugaða tolla sem hann ætlar að leggja á innflutning þessara þjóða og byggja tollarnir ekki á nokkru milliríkjasamkomulagi.

Hver borgar tollana?

Trump fullyrti ítrekað að það séu ekki Bandaríkjamenn sem þurfa að borga tollana sem Trump hefur lagt á önnur ríki. Önnur ríki muni greiða þessa tolla með glöðu geði fyrir þau forréttindi að eiga viðskipti við Bandaríkin. Þetta er enn og aftur rangt. Það eru bandarískir innflutningsaðilar sem kaupa vöru erlendis frá sem borga þessa tolla en ekki erlendu þjóðirnar sjálfar.

Saga tolla

Trump ítrekaði fullyrðingar sem hann hefur áður komið með um að Bandaríkin hafi aldrei verið auðugri, hlutfallslega, en á árunum 1870-1913 þegar tollum var beitt í staðinn fyrir tekjuskatt. Hagfræðingar hafa þó bent á að Bandaríkin séu mun auðugri í dag hvað alla mælikvarða varðar.

Kína og vindorka

Trump hélt því fram að minni þjóðir noti hvorki vind- né sólarorku og sagði að Kína, sem er stærsti framleiðandi vindtúrbína í heimi, notaði græjurnar ekki sjálft. „Þeir eru ekki með mikið af vindorkuverum, ég get sko sagt ykkur að þau eru mjög mjög fá.“ Engu að síður er Kína það ríki heims sem framleiðir mest af vindorku.

Kalifornía og endurnýtanleg orka

Trump hélt því ranglega fram að notkun Kaliforníu á endurnýtanlegri orku hefði valdið vikulegu rafmagnsleysi. CNN rekur að orkukerfi Kaliforníu hafi þvert á móti tekið miklum framförum síðustu fimm ár en Kalifornía hafi ekki glímt við stórfellt rafmagnsleysi frá árinu 2020 og síðustu þrjú ár hafi íbúar aldrei verið beðnir um að takmarka orkunotkun.

Hernaðaraðstoð til Úkraínu

Trump ítrekaði fullyrðingar um að Bandaríkin hafi sent margfalt meiri stuðning til Úkraínu en Evrópa. Bandaríkin hafi sent aðstoð sem sé metin á 300 milljarða dollara á meðan Evrópa hafi á sama tíma aðeins sent stuðning fyrir 100 milljarða dollara. CNN rekur að samkvæmt útgefnum tölum hafi Evrópa sent meira til Úkraínu en Bandaríkin.

Kostnaðarskipting vegna herstöðva Bandaríkjanna í Suður-Kóreu

Trump sagði að Suður-Kórea hafi sannfært forvera hans, Joe Biden, um að greiða alfarið kostnað vegna herstöðva Bandaríkjanna í Suður-Kóreu. Það er rangt því Biden gerði þvert á móti í tvígang samkomulag við yfirvöld þar í landi þar sem Suður-Kóresa samþykkti að greiða meira en í fyrri stjórnartíð Trumps.

Hermenn í Suður-Kóreu

Trump ýkti líka hvað varðaði fjölda bandarískra hermanna í Suður-Kóreu. Hann sagði að þeir væru 45 þúsund talsins í dag, en þeir eru aðeins rétt rúmlega 26 þúsund.

Geðveikir innflytjendur

Trump hélt því ranglega fram að ónefnd erlend ríki hefðu tæmt geðdeildir sínar og sent vistmennina til Bandaríkjanna. Engar sannanir eru til um slíkt þó að Trump hafi fyrst haldið þessu fram árið 2023.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Banaslys á Miklubraut
Pressan
Fyrir 4 dögum

Er líf eftir dauðann? Lítil stúlka upplifði ótrúlega hluti þegar hún dó

Er líf eftir dauðann? Lítil stúlka upplifði ótrúlega hluti þegar hún dó
Pressan
Fyrir 4 dögum

Þess vegna skaltu alltaf sofa í sokkum

Þess vegna skaltu alltaf sofa í sokkum