Þetta kom fram í niðurstöðum skýrslu sem blaðamannasamtökin Forbidden Stories birtu í vikunni, en markmið samtakanna er að halda áfram rannsóknum þeirra blaðamanna sem hafa verið þaggaðir niður, handteknir eða myrtir vegna vinnu sinnar.
Líkamsleifum hennar var skilað til Úkraínu í febrúar síðastliðnum, tveimur og hálfu ári eftir að hún var handtekin af Rússum í ágúst 2023. Viktoria var aðeins 27 ára þegar hún lést.
Yuriy Belousov, yfirmaður stríðsglæpadeildar ríkissaksóknaraembættisins í Úkraínu, segir að hafi markmið Rússa verið að fela ummerki um pyntingar hafi það ekki tekist.
Á líkinu hefðu sést skrámur, blæðingar, brotin rifbein og ummerki um að henni hafi verið gefið raflost. Þá gaf mar á hálsi hennar til kynna að þrengt hefði verið að öndunarvegi hennar.
Vegna ástands líksins reyndist ekki unnt að skera úr um endanlega dánarorsök en í skýrslunni kemur fram að frekari rannsóknir muni fara fram.
Rússar hafa ekki gefið neinar upplýsingar um málið en yfirvöld staðfestu þó í maí 2024, níu mánuðum eftir að hún hvarf, að þeir hefðu handsamað hana. Hún var flutt í alræmdar fangabúðir í Berdyansk í austurhluta Úkraínu áður en hún var flutt í fangabúðir í Taganrog innan landamæra Rússlands. Hún er svo sögð hafa látist þegar verið var að flytja hana til Moskvu.
Á ferli sínum í blaðamennsku skrifaði Roshchyna fyrir nokkra úkraínska miðla sem og Radio Free Europe. Hún var handsömuð af Rússum í mars 2022, skömmu eftir innrás þeirra í Úkraínu, og var henni haldið í tíu daga. Það ár fékk hún sérstaka hugrekkisviðurkenningu samtakanna International Media Foundation.