Árið var 1989. Ung kona fannst myrt í eyðimörkinni í Arizona í desember. Hún var nakin og hafði augljóstlega verið banað með hrottafengnum hætti. Áratugum saman bar hún nafnið Jane Doe í kerfum lögreglu, en nafnið er gefið látnum konum sem ekki tekst að bera kennsl á. Árið 2022 tókst lögreglu loks að gefa Jane aftur sitt rétta nafn – Marina Ramos. Það var fingrafaratæknin sem gerði útslagið.
Fingaför fundust á líki Marinu sem tilheyrðu konu sem hafði verið handtekin fyrir búðahnupl árið 1989. Konan hét samkvæmt kerfinu Maria Ortiz. Þegar lögregla fór að skráðu heimili hennar hittu þau fyrrum meðleigjanda hennar sem sagðist eiga frænku sem hét Marino Ramos og að hennar hafi verið saknað frá árinu 1989. Maria Ortiz hafi verið dulnefni hennar.
Lögreglan fékk nú nýja og stærri ráðgátu í hendurnar. Fjölskylda Marinu greindi frá því að hún hefði átt tvær ungar dætur. Þær höfðu ekki fundist látnar með henni.
Systir Marinu sendi orðsendingu til fjölmiðla í von um að stúlkurnar væru einhvers staðar á lífi.
„Við höfum sem fjölskylda verið í sárum í rúmlega 30 ár þar sem við vissum ekki hvar dásamlegu og saklausu frænkur mínar enduðu. Við viljum bara sameina fjölskylduna okkar aftur og fá að kynnast frænkum okkar og mögulegum afkomendum. Ég vona að með því að finna þær geti systir mín loksins hvílt í friði vitandi að yndislegu stelpurnar hennar eru öruggar í heiminum að lifa góðu lífi. Við vonum að þið getið liðsinnt okkur. Ef þið hafið einhverjar upplýsingar um málið, endilega stigið fram.“
Sjá einnig: Báru kennsl á konu sem var myrt fyrir 30 árum – Dætur hennar eru enn ófundnar
Lögregla aflaði svo erfðaefnis frá ættmennum Marinu og keyrði í gegnum erfðafræðilegan gagnagrunn í von um að finna stúlkurnar. Þannig fannst önnur þeirra. Hún sagði að hún og systir hennar hefðu fundist yfirgefnar á salerni í almenningsgarði í Kaliforníu. Eftir að þær fundust var þeim komið í fóstur. Meira vissu þær ekki, enda voru þær svo ungar þegar atvik málsins áttu sér stað. Þegar þær fundust á sínum tíma varð það mikið fréttamál og systurnar geymdu blaðaúrklippurnar.
Málinu er þó ekki lokið þó að lögregla sé eðlilega lukkuleg með að hafa fundið stúlkurnar. Eftir stendur að upplýsa morðið sjálft. Að sögn lögreglu hefur henni tekist að finna vitni sem sá Marinu Ramos með tveimur karlmönnum og dætrum sínum í almenningsgarðinum þar sem stúlkurnar fundust. Þau hafi svo stigið upp í svartan pallbíl. Lögregla vonast til að fleiri muni eftir að hafa séð eitthvað í garðinum, þó svo að langt sé liðið.
Systurnar heita í dag Melissa og Tina. Melissa sagði í samtali við fjölmiðla í september: „Ég vil að allir viti að ég er í lagi. Ég er hér. Ég hef lifað fallegu lífi og á dásamlegan eiginmann.“
Tina sagði: „Þetta er svarið sem ég hef leitað að og þráð í svo langan tíma, að vita hvaðan ég kom og hver fjölskylda mín væri. Ég var hrygg að frétta að móðir mín er látin og að ég mun aldrei fá að hitta hana. Það er enn frekar sláandi að hún hafi verið tekin frá mér en á sama tíma er ég glöð að vita að hún er ekki að þjást. Hún er ekki í slæmum aðstæðum.“
Þær segjast lengi hafa glímt við höfnunartilfinningu eftir að hafa verið yfirgefnar. Það sé ljúfsárt að vita loks að móðir þeirra yfirgaf þær ekki heldur var tekin frá þeim.