B12 vítamín er vatnsleysanlegt vítamín sem er mikilvægt fyrir myndun rauðu blóðkornanna sem sjá um að flytja súrefni um líkama okkar. Einnig er B12 nauðsynlegt fyrir venjulega heilastarfsemi og taugakerfið. Það er því ekki gott að skorta B12 og eru margir í dag meðvitaðir um að huga að þessu mikilvæga vítamíni. Nú segja vísindamenn að það sé jafnvel ekki nóg því að gildi vítamínsins í blóði sé innan ráðlagðra marka.
Rannsókn vísindamanna við Háskólann í Kaliforníu, San Francisco, bendir til þess að fólk þurfi mögulega meira B12 en áður var talið, sérstaklega fólk sem er komið á eldri árin. Rannsóknin leiddi í ljós að eldra fólk sem var með B12 innan eðlilegra marka, en þó í lægra lagi, átti meðal annars erfiðara með að vinna úr upplýsingum og var með meiri skaða í hvítu efni heilans. Þessir aðilar fengu lægri einkunn á prófum sem mæla vitræna og sjónræna úrvinnslu samanborið við þá sem höfðu hærri B12-gildi.
Rannsóknin var birt í Annals of Neurology, en samkvæmt einum höfundi hennar, Ari J. Green, vekur rannsóknin upp spurningar um hvort núverandi viðmið B12 séu nægilega há og hvort breyta þurfi viðmiðum og eins hvort B12-skortur gæti leikið stærra hlutverk í aldurstengdri heilahrörnun en áður var talið.