Þrátt fyrir að umfangsmikil leit hafi staðið yfir í bráðum sex daga, með hundruðum sjálfboðaliða, leitarhundum, drónum, fjórhjólum, köfurum og hitamyndavélum, eru einu ummerkin sem hafa fundist eitt fótspor um 500 metrum frá heimili fjölskyldunnar.
Lögreglan viðurkennir nú að líkurnar á að finna drenginn á lífi séu litlar en leit muni þó halda áfram en með breyttri áherslu.
Mark Syrus, yfirlögregluþjónn á svæðinu, segir við ástralska fjölmiðla að málið sé óvenjulegt og það hafi verið ólíkt August að fara á ókannaðar slóðir.
„Honum er lýst sem rólegum en ævintýragjörnum sveitapilti. Að hann hafi reikað svona langt í burtu er óvenjulegt, en hver veit hvað fer í gegnum huga fjögurra ára barns?“ spurði Mark að því er fram kemur í frétt Mail Online.
Þó að lögregla sé svartsýn heldur fjölskylda litla drengsins enn í vonina um að hann finnist á lífi. Hefur verið bent á að árstíminn sé heppilegur fyrir dvöl í óbyggðum þar sem hvorki er mjög heitt eða kalt úti.
Ýmsum tilgátum hefur verið varpað fram um hvarfið, eins og að hann hafi dottið ofan í yfirgefna námu á svæðinu. Nokkrar slíkar eru sagðar vera á svæðinu og það getur verið erfitt að koma auga á þær. Lögregla segist ekki telja að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.