Læknirinn sem um ræðir heitir Neil Hopper og er 49 ára. Á ferli sínum sem skurðlæknir framkvæmdi hann hundruð aflimana í læknisfræðilegum tilgangi.
Árið 2019 brá Neil á það ráð að setja fótleggi sína fyrir neðan hné í þurrís. Saksóknarar sögðu að þetta hefði hann gert vegna kynferðislegrar þráhyggju sinnar á aflimunum.
Eftir að læknar fjarlægðu fótleggi hans sveik hann háar fjárhæðir út tryggingafélagi sínu, hátt í hundrað milljónir króna, en hann sagði að blóðeitrun hefði orðið til þess að fjarlægja þurfti fótleggina.
Í fréttum breskra fjölmiðla, BBC og Telegraph þar á meðal, kemur fram að upp hafi komist um málið við rannsókn lögreglu á Norðmanninum Marius Gustavsson. Gustavsson þessi komst í fréttirnar árið 2023 þegar greint var frá handtöku hans en hann var forsprakki hóps sem stundaði það að taka upp myndbönd af aflimunum og geldingum og selja þau svo í gegnum netið.
Hopper er sagður hafa leitað ráða hjá Gustavsson í gegnum netið og sagt við hann að hann gæti ekki beðið eftir því að verða fótleggjalaus. Hopper keypti myndbönd í gegnum síðu Gustavsson og fundust þau í fórum hans þegar lögregla gerði húsleit hjá honum.
Hopper starfaði á sjúkrahúsum í Cornwall frá 2023 þar til hann var settur í leyfi í mars 2023, stuttu eftir að hann var handtekinn. Hann hefur verið sviptur læknaleyfi sínu en fyrir dómi kom fram að hann standi frammi fyrir skilnaði og húsnæðismissi.
Bresk heilbrigðisyfirvöld segja að ekkert bendi til þess að sjúklingar hans hafi verið í hættu, en sumir af fyrrverandi sjúklingum hans hafa leitað lögfræðiráðgjafar vegna gruns um að þeir hafi gengist undir óþarfar aðgerðir.