Piotr var myndaður á fimmtudag á US Open-meistaramótinu í tennis þegar hann hrifsaði til sín áritaða derhúfu sem ætluð var ungum aðdáanda. DV sagði frá málinu í morgun.
Sjá einnig: Hataðasti maðurinn á netinu þessa dagana er milljónamæringur frá Póllandi – Sjáðu ástæðuna
Pilturinn beið í ofvæni eftir að pólski tenniskappinn Kamil Majchrzak rétti honum derhúfuna sem Kamil hafði áritað en Piotr greip fram fyrir hendur drengsins og kippti húfunni til sín.
Piotr fékk yfir sig holskeflu af gagnrýni í kjölfarið og brá hann á það ráð að loka samfélagsmiðlum sínum vegna ágangs frá réttlætisriddurum netsins.
Atburðarásin fór fram hjá Kamil en tenniskappinn brá á það ráð að lýsa eftir drengnum á samfélagsmiðlum um helgina og bar það árangur. Hittust þeir um helgina þar sem pilturinn fékk nýja áritaða húfu.
Nú hefur Piotr, sem er moldríkur forstjóri, stigið fram og beðist afsökunar á atvikinu. Lýsir hann því að hann hafi skilað húfunni til drengsins.
„Vegna atviksins sem átti sér stað í leik Kamil Majchrzak á US Open vil ég ótvírætt biðja drenginn, fjölskyldu hans, alla aðdáendur og leikmanninn sjálfan afsökunar. Ég gerði alvarleg mistök,” sagði Piotr í yfirlýsingu sinni og bætti við að hann hafi ekki ætlað að hrifsa húfuna af stráknum.
Lýsti hann því að synir hans hefðu stuttu áður beðið Kamil um eiginhandaráritun og hann hafi talið að húfan væri ætluð þeim.
„Þessi misskilningur varð til þess að ég rétti ósjálfrátt út höndina. Það lítur út eins og ég hafi gert þetta viljandi en það var ekki ætlun mín. Það breytir ekki þeirri staðreynd að ég særði drenginn og olli aðdáendum vonbrigðum. Húfunni var skilað til drengsins og ég bið hann og fjölskyldu hans afsökunar. Ég vona að ég hafi að minnsta kosti að hluta til bætt skaðann.“