Atvikið átti sér stað á laugardagskvöld og þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang var drengurinn illa særður á götunni. Hann var fluttur á sjúkrahús en lést af sárum sínum í gærkvöldi.
Í fréttum bandarískra fjölmiðla kemur fram að drengurinn hafi verið skotinn nokkrum sinnum, þar á meðal í bakið, og mun drengurinn hafa verið með fleiri vinum sínum þegar atvikið varð.
Karlmaður á miðjum aldri var handtekinn vegna málsins en síðar sleppt. Michael Cass, lögreglustjóri á svæðinu, segir líklegt að ákæra fyrir morð verði gefin út. Telur Michael ólíklegt að hinn grunaði geti borið fyrir sig sjálfsvörn þar sem hann hljóp á eftir hópnum.
Lögregla lagði hald á nokkur skotvopn á heimili mannsins, þar á meðal skammbyssur og riffla.
Þetta er ekki fyrsta málið af þessum toga sem kemur upp í Bandaríkjunum á árinu, en fyrir skemmstu var karlmaður ákærður fyrir að skjóta 18 ára pilt til bana í Virginíu. Hafði sá gert dyraat á heimili mannsins.